11.6.2020 9:39

Bábiljur í opinberum umræðum

Að nefndir tryggi sátt um skipan manna í embætti er blekking. Það verður ávallt deilt um val á milli einstaklinga.

Bábiljur í opinberum umræðum eru margar og mismunandi.

Fyrir tæpum áratug var oft sagt að bara ætti að semja um aðild að ESB og leggja síðan samninginn undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Að henni lokinni yrði málið úr sögunni.

Þessi fullyrðing er ekki reist á neinu öðru en óskhyggju þess sem setur hana fram í áróðursskyni. Í hvaða aðildarríki ESB ríkir einróma sátt um aðildina á pólitískum vettvangi? Hvergi. ESB-spenna innan ríkja sveiflast eftir stöðu einstakra mála eins og sannast nú vegna COVID-29-faraldursins. Leitast er við að sefa reiði þjóða með styrkjum eða lánum úr sameiginlegum sjóðum.

Eftir að Bretar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016 að segja sig úr ESB hefur ákvörðunin verið mikið og erfitt deilumál innan Bretlands og milli Breta og ESB. Sýnist jafnvel erfiðara að segja sig úr ESB en ganga í sambandið. Sér enginn enn hvernig að úrsögn Breta verður staðið þótt fjögur ár séu liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslunni. Hér skýrðist þó á innan við fjórum árum að ESB-umsóknin var misheppnuð frá upphafi.

Í áranna rás hafa ráðherrar sætt gagnrýni vegna einstakra embættaveitinga. Fyrir um tveimur áratugum skaut sú skoðun rótum meðal dómara að þeir ættu sjálfir að ráða hverjir skipuðu dómaraembætti. Stofnað var til átaka við dómsmálaráðherra og öllum ráðum beitt til að gera dómaraval tortryggilegt. Var augljóst að undirrót átkanna var meðal dómara sjálfra, þeir höfðu greiðan aðgang að þingmönnum stjórnarandstöðu og fréttastofu ríkisins. Meginboðskapurinn var að binda skyldi hendur ráðherra með áliti hæfnisnefnda.

Judge_1591868330632Þegar ákveðið var að koma á fót nýju dómsstigi, landsrétti, skyldi nota bæði belti og axlarbönd til að tryggja að ráðherrann hefði ekkert svigrúm. Fyrir utan að vera bundinn af hæfnisnefnd skyldi ráðherrann leita samþykkis alþingis við ákvörðun sinni. Hæfnisnefndin skilaði svo gallaðri tillögu að mati jafnréttisfrömuða á alþingi að eftir forathugun treysti ráðherrann sér ekki til að leggja tillöguna fyrir þing. Ráðherrann bjó því sjálfur til lista í anda þess sem þingmenn vildu. Þá varð fjandinn laus og sjálfur hæstiréttur komst að því að ráðherrann hefði farið á svig við stjórnsýslulög, í tímaþröng sinni hefði hann ekki gefið sér nægilegt tóm til að kanna hæfi þeirra sem hann setti á listann heldur miðaði við niðurstöðuna í excel-skjali hæfnisnefndarinnar. Nú er þetta undarlega mál fyrir mannréttindadómstóli Evrópu.

Síðari nefndir sem hafa gefið álit um umsækjendur um dómarastarf hafa hagað störfum sínum á annan veg en landsréttarnefndin. Stefna hennar og störf voru í raun svo öfgafull að nota má sem skólabókardæmi um misbeitingu opinbers valds. Dómarar eru hins vegar annarrar skoðunar vegna þess að enn lifir í þeim glæðum að þeir eigi sjálfir að ráða hverjir sitja í dómarastöðum. Þeir sem fjalla um landsréttarmálið án þess að hafa þetta að leiðarljósi segja ekki rétt frá tilefni þess. Íslenskir dómarar vona að dómararnir í Strassborg séu sömu skoðunar.

Að nefndir tryggi sátt um skipan manna í embætti er blekking. Það verður ávallt deilt um val á milli einstaklinga. Eina sem er breytilegt er hve mikið veður er gert opinberlega út af því að einhver nái ekki því marki sem hann setur sér.