23.2.2024 10:34

Átakið í útlendingamálum

Eftir að þessi heildarsýn var birt hafa þeir sem gjarnan vilja ræða annað en það efni sem er til úrlausnar og sýnir hvert stefnir sagt að fyrr hefði átt að taka í taumana.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sagði í ræðu á þingi fimmtudaginn 22. febrúar að 20 milljarða króna árlegur kostnaður skattgreiðenda vegna gríðarlegs fjölda hælisleitenda á undanförnum árum væri „algerlega óréttlætanlegur“. Þá sagði hann til upprifjunar að þegar hann varð fjármálaráðherra árið 2013 hefði þessi kostnaðarliður verið innan við 500 milljónir króna.

„Hann hefur sem sagt fjörutíufaldast, þessi útgjaldaliður,“ sagði Bjarni og bætti við: „Þannig að það er enginn hér, trúi ég, í þinginu sem telur að þessum fjármunum sé vel varið í verndarkerfið.“

Ráðherrann sagði margar ástæður fyrir þessari þróun. Fólki á flótta hefði fjölgað gríðarlega og hingað hefði til dæmis streymt fólk frá Venesúela. Á hinn bóginn bæri til þess að líta að séríslensk lagaákvæði hefðu valdið okkur „alveg sérstökum vandræðum“. Þar mætti nefna réttinn til fjölskyldusameiningar strax og vernd væri fengin og réttinn til að fá mál tekið fyrir þrátt fyrir að viðkomandi væri með vernd í öðru landi.

Síðara dæmið, afnám ákvæða Dyflingarreglugerðarinnar hér, var undarleg ráðstöfun á sínum tíma og skapaði fordæmi sem spurðist út í heim smyglaranna sem standa að baki yfir 90% af ferðum farandfólks. Þeir leita að veikasta hlekknum sem gefur þeim mest í aðra hönd. Strauminn yfir Ermarsund til Bretlands má rekja til þess að breska ríkisstjórnin hætti að fylgja Dyflinnarreglugerðinni um að brottvísa þeim tafarlaust sem höfðu vernd í öðru landi.

Download-2-Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra (mynd:mbl.is).

Á þessum atriðum verður tekið í nýju frumvarpi dómsmálaráðherra sem boðað var 20. febrúar þegar ríkisstjórnin lagði fram „heildarsýn í útlendingamálum“. Í skjalinu segir meðal annars að til að einfalda aðgengi að upplýsingum um þjónustu og stuðla að auknu hagræði verði unnið að því að samræma löggjöf, bæði innan lands og við Norðurlöndin. Ráðist verði í breytingar á regluverki á sviði verndarmála til samræmingar við löggjöf á Norðurlöndum, m. a. afnám séríslenskra málsmeðferðarreglna, lengd dvalarleyfa og skilyrða á rétti til fjölskyldusameininga.

Eftir að þessi heildarsýn var birt hafa þeir sem gjarnan vilja ræða annað en það efni sem er til úrlausnar og sýnir hvert stefnir sagt að fyrr hefði átt að taka í taumana og margir láta falla þung orð í garð Sjálfstæðisflokksins af því tilefni.

Þegar þetta er gert ættu menn jafnframt að velta fyrir sér hvernig staðan væri hefðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki verið til fyrirstöðu á alþingi og dómsmálaráðherrar flokksins hefðu ekki hvað eftir annað flutt frumvörp um aðhaldsbreytingar á útlendingalögunum þrátt fyrir andstöðu á þingi innan og utan stjórnarliðsins.

Nú eru það flokksformaðurinn og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sem hafa forystu um að skapa nýjan pólitískan jarðveg og nýta hann með augljósan þjóðarhag að leiðarljósi.

Frumkvæðið verður ekki af þeim tekið og ættu þeir sem beðið hafa eftir því frekar að leggja þeim lið en að nöldra út af fortíð sem verður ekki breytt. Skrýtið er ef þeir kvarta mest sem nú glitta í árangur af baráttu sinni.