10.4.2022 10:48

Alþingi vildi bankasýsluna

Alþingi vildi ekki leggja niður bankasýsluna árið 2015. Forsöguna og stöðu þessarar opinberu stofnunar verður að hafa í huga núna.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 í september 2015 var gert ráð fyrir að Bankasýslu ríkisins yrði lokað í samræmi við lög um fimm ára líftíma stofnunarinnar. Við meðferð fjárlagafrumvarpsins var þessu breytt og bankasýslunni voru ætlaðar 97,1 m. kr. á árinu 2016.

Þessi áform um að leggja bankasýsluna niður voru í samræmi við frumvarp sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram í apríl 2015. Í greinargerð þess var saga bankasýslunnar frá árinu 2009 rakin. Minnt var á að þetta eignarhald „stafaði ekki af sérstakri stefnu ríkisins að auka umsvif þess á fjármálamarkaði til framtíðar“ heldur kom það til vegna falls fjármálakerfisins haustið 2008.

AlthingishusUndir lok árs 2012 samþykkti alþingi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum og var settur fastmótaður rammi um sölumeðferð eignarhlutanna. Í frumvarpinu sem kynnt var í apríl 2015 var gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið tæki formlega við meðferð eignarhluta í fjármálafyrirtækjum af bankasýslunni. Farið yrði með þessar eignir í samræmið við reglur sem almennt gilda um hluti í félögum og fyrirtækjum í eigu ríkisins. Á móti niðurlagningu bankasýslunnar var lagt til að sjálfstæð ráðgjafarnefnd um fjármálafyrirtæki í ríkiseigu yrði fjármála- og efnahagsráðherra til ráðgjafar við ýmsa þætti er snúa að eigandastefnu, meðferð eignarhalds og sölu á þessum félögum. Þá yrði Ríkiskaupum falið að fara með sölu á eignarhlut í fjármálafyrirtækjum.

Breyting í þessa veru hefur aldrei verið gerð. Bankasýsla ríkisins hefur sjálfstætt lögskipað hlutverk. Alþingi vildi ekki að breyting yrði á því árið 2015. Forsöguna og stöðu þessarar opinberu stofnunar verður að hafa í huga núna. Fjármála- og efnahagsráðherra fer að sjálfsögðu eftir þessum lögum eins og bankasýslan. Þar fyrir utan hefur útfærsla á sölu Íslandsbanka verið ítarlega rædd á þingi í mikill samstöðu.

Eftir annan áfanga sölu Íslandsbanka 22. mars voru háværar kröfur um að upplýsingar yrðu gefnar um kaupendur. Salan var gerð tortryggileg með því að flaggað var nöfnum einstaklinga sem sagt var að notið hefðu innherja upplýsinga.

Bankasýslan lagðist gegn birtingu kaupendalistans en fjármála- og efnahagsráðherra birti hann í nafni gagnsæis. Lestur listans vakti heitar tilfinningar sem mátti rekja til heiftar í garð margra kaupenda og viðleitni til að sverta þá og nákomna þeim. Efnt var til útifundar á Austurvelli til að ýta undir þessa reiði.

Það eru því kaupendurnir sem settu í raun allt á annan endann þótt einnig sé reynt að beina reiðinni að seljandanum og ráðherranum. Þar ríður lágkúran ekki við einteyming.

Kostnaður við söluna sætir einnig gagnrýni.

Ríkisendurskoðun fer yfir allan gang málsins að ósk fjármála- og efnahagsráðherra og ætlar að skila niðurstöðu í júní.

Virða ber lögfesta aðferð við ráðstöfun þessara ríkiseigna og verja hana gegn upplausnaröflum. Alþingi eitt getur breytt aðferðinni. Þar hefur ekki verið vilji til þess.