17.7.2018 14:36

Alþingi styður listaverkabók um Þingvelli

Í sjálfu sér er ekki frumlegt að stjórnvöld ákveði að beita sér fyrir útgáfu ritverka vegna stórafmæla í Íslandssögunni.

Lengi hefur verið rætt um að gera ætti skil á einum stað fögrum myndlistarverkum sem tengjast Þingvöllum. Áhugamenn um þetta efni fögnuðu því þegar þeir sáu að forsætisnefnd alþingis hefði ákveðið að minnast 100 ára afmælis fullveldisins með því að styrkja útgáfu bókar um Þingvelli í íslenskri myndlist.

Í greinargerð forsætisnefndar segir að Hið íslenska bókmenntafélag hyggi á útgáfu veglegrar bókar með myndum frá Þingvöllum (Þingvallabók) eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar auk nokkurra mynda eftir listamenn sem ekki eru jafnþekktir. Listaverkin verði valin í samvinnu við listfræðing sem einnig riti inngang. Með myndunum verði örstutt greinargerð um hvern myndlistarmann á íslensku ásamt þýðingu á önnur mál. Hugsað verði fyrir því að gera efnið aðgengilegt með margmiðlunartækni. Verkið hafi verið lengi í undirbúningi.

Jóhannes S. Kjarval gerði mörg listaverk á Þingvöllum.

Átta bókaútgefendur rita grein í Morgunblaðið í dag þar sem þeir gagnrýna forsætisnefnd þingsins fyrir framtakið. Má skilja greinina á þann veg að alþingi hafi afsalað sér frumkvæðisrétti til styrkja á sviði bókaútgáfu eftir að ýmsum smáum styrktarsjóðum var safnað saman undir merkjum Miðstöðvar íslenskra bókmennta, þar sem „allar umsóknir yrðu háðar faglegu mati“ eins og segir í greininni.

Höfundar fullyrða að „ekkert mat“ sé að baki tillögu forsætisnefndarinnar. Í ljósi greinargerðar nefndarinnar er þetta sérkennileg fullyrðing.

Styrkurinn vegna Þingvallabókarinnar er viðbót en dregst ekki frá opinberum stuðningi við Miðstöð íslenskra bókmennta. Forsætisnefnd leggur einnig til að stutt sé við útgáfu Hins íslenska bókmenntafélags á nýju yfirlitsverki um sögu íslenskra bókmennta frá landnámi til 21. aldar. Þetta er um 900 blaðsíðna verk í tveimur bindum, gefið út eftir strangri tímaáætlun árið 2021. Ritnefnd sex sérfræðinga við Háskóla Íslands hefur þegar hafið störf við verkið. Verður rík áhersla lögð á miðlun efnisins með sérstöku tilliti til þarfa nýs lesendahóps. Tækni margmiðlunar verður nýtt.

Í sjálfu sér er ekki frumlegt að stjórnvöld ákveði að beita sér fyrir útgáfu ritverka vegna stórafmæla í Íslandssögunni. Geta má þriggja nýlegra verka: Sögu Íslands vegna ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar árið 1974; Sögu stjórnarráðsins vegna 100 ára afmælis stjórnarráðsins; Sögu kristni á Íslandi vegna 1000 ára afmælis kristnitökunnar.

Á sínum tíma hafði Halldór Blöndal, þáv. forseti alþingis, frumkvæði að því að Mál og menning, þáverandi dótturfyrirtæki Eddu - miðlunar og útgáfu, gaf árið 2002 í fyrsta sinn á Íslandi út ritsafn Snorra Sturlusonar í myndarlegri þriggja binda útgáfu. Veitti alþingi styrk til útgáfunnar.

Þrátt fyrir að Miðstöð íslenskra bómennta ráði yfir sérfæðingum til að leggja faglegt mat á hvað styrkja skuli til útgáfu með opinberu fé hefur miðstöðinni aldrei verið ætlað að hafa einokun á þessu sviði. Á því er engin þörf. Að kenna ákvörðun alþingis nú við „fortíð“ og „geðþótta“ eins útgefendurnir átta gera í stað þess að taka undir með þingheimi er léttvægt enda tók enginn þingmaður undir með þeim þegar Steingrímur J. Sigfússon, forseti alþingis, flutti tillöguna á þingi síðdegis í dag (17. júlí).

Forsætisnefnd lítur auk þess á útgáfusamning við Hið íslenska bókmenntafélag sem viðurkenningu á starfi félagsins sem varð 200 ára 2016. Hafa leiðir félagsins og endurreists alþingis oft legið saman frá 1845 og átti starf bókmenntafélagsins ríkan þátt í að fullveldi fékkst árið 1918. Það er því vel við hæfi að gera félaginu kleift að ráðast í þessi stórvirki.