25.7.2022 9:50

Alþjóðavæðing grunnskólans

Hagstofa Íslands birtir í fyrsta skipti tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni. Þær sýna að grunnskólanemendum með erlendan bakgrunn fjölgar en hinum fækkar sem eru án erlends bakgrunns.

Í gær var sagt frá því hér að tæplega 60.000 erlendir ríkisborgarar væru búsettir hér á landi og vitnað í frétt á ruv.is. Í dag (mánudaginn 25. júlí) birtir Hagstofa Íslands í fyrsta skipti tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni. Þær sýna að grunnskólanemendum með erlendan bakgrunn fjölgar en hinum fækkar sem eru án erlends bakgrunns. Þeir voru 84,5% grunnskólanema árið 2006 en 74% haustið 2021. Til að ekkert fari á mill mála birtist tilkynning hagstofunnar hér í heild:

„Nemendur í grunnskólum voru 46.859 haustið 2021 og hafa ekki áður verið fleiri nemendur í skyldunámi á Íslandi. Grunnskólanemum hefur fjölgað um 171 frá haustinu 2020, eða um 0,4%. Skýringin er aðallega sú að nemendum fjölgar vegna flutnings til landsins.

Í fyrsta skipti eru nú birtar tölur um nemendur í grunnskólum eftir bakgrunni og ná tölurnar aftur til haustsins 2006. Á því tímabili hefur nemendum án erlends bakgrunns fækkað úr rúmlega 37.900 í tæplega 34.700; úr 84,5% grunnskólanema í 74,0%. Á móti vegur að nemendum með erlendan bakgrunn hefur fjölgað, mest innflytjendum af annarri kynslóð, þ.e. þeim sem eru fæddir á Íslandi en báðir foreldrar eru innflytjendur. Þeim fjölgaði úr 230 árið 2006 í rúmlega 2.600 árið 2021. Þá hefur innflytjendum fjölgað á sama tíma úr tæplega 1.000 í tæplega 2.400.

Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2021 höfðu 5.810 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli, eða 12,4% nemenda, sem er fjölgun um tæplega 200 nemendur frá árinu áður. Hafa ber í huga að einhverjir þessara nemenda hafa einnig íslensku að móðurmáli.

Skólaárið 2021-2022 störfuðu alls 174 grunnskólar á landinu sem er fjölgun um einn frá fyrra ári.“

49CDA7BD6EA05D33820515DA9531A4AD81701D070B34A4F717055D852A969CF0_713x0Það er merkilegt hve litlar umræður eru um þessar lýðfræðilegu breytingar og áhrif þeirra.

Athygli fjölmiðla- og stjórnmálamanna beinist einkum að erlendum ríkisborgurum þegar vísa á þeim úr landi vegna lögbrota. Þá hrópa margir upp yfir sig af hneykslun yfir skorti á umburðarlyndi í garð þeirra útlendinga sem hingað koma til að taka sér búsetu. Tölurnar sem hér birtast um þróunina í grunnskólum og fjölda erlendra ríkisborgara með búsetu í landinu eru ekki til marks um að hér sé útlendingum skipulega haldið frá landinu.

Skólakerfi, heilbrigðiskerfi og löggæsla taka óhjákvæmilega á sig nýja mynd vegna þessarar þróunar svo að ekki sé talað um húsnæðismarkaðinn. Alla þessa þætti verður að skoða í nýju ljósi vegna umskiptanna sem verða á líðandi stund.

Samhliða þessu skellur ferðamannabylgjan á samfélaginu af meiri þunga en margir spáðu á COVID-lokunartímanum.

Alþjóðavæðingin birtist í sinni róttækustu mynd í þjóðlífinu sjálfu, daglegu lífi okkar sem hér búum. Hvaða stoðir samfélagsins er brýnast að styrkja við gjörbreyttar aðstæður? Varla verður látið reka á reiðanum?