Ákvarðanaleysi undir reglufargani
Boðað er að greindir verði „aumir blettir“ og tekið á þeim í ljósi ofsaveðursins. Hvarvetna verður niðurstaðan sú að taka verði ákvarðanir.
Fyrir jólin dró ofsaveðrið fyrir norðan eðlilega að sér alla athygli í fjölmiðlum. Umræðum um afleiðingar þess er ekki lokið. Athyglin beinist einkum að því sem fór úrskeiðis. Dæmi um fyrirhyggju eru ekki endilega tíunduð. Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti sveitarfélagsins Skagastrandar, nefndi þó slíkt dæmi í grein í Morgunblaðinu á aðfangadag:
„Í þessu samhengi er áhugavert að skoða hvernig góðum nágrönnum okkar Skagstrendinga hér á Skaga gekk í óveðrinu um daginn. Skagabyggð, sem er sveitarfélag á vestanverðum Skaga, styrkti sína innviði á eigin kostnað fyrir nokkrum árum. Sveitarfélagið, sem er eitt það fámennasta á landinu, greiddi RARIK ríflega 30 milljónir í svokallað flýtigjald til þess að hægt væri að leggja þriggja fasa rafmagn í jörð strax en ekki bíða í áratug eða lengur. Sú framkvæmd tryggði íbúunum birtu og yl í óveðrinu og hefur að öllum líkindum sparað RARIK og samfélaginu öllu mikla fjármuni sem sveitarfélagið greiddi í raun sjálft í formi fyrrgreinds flýtigjalds. Illu heilli var málum öðru vísi háttað á austanverðum Skaga þar sem íbúar á sumum bæjum voru án rafmagns og hita í heila viku.“
Lokaorðin í grein Halldórs Gunnars voru þessi:
„Í óveðrinu um daginn voru það íbúarnir sjálfir, björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar sem ekki brugðust, í flestum tilfellum fólk sem þekkir aðstæður á hverjum stað fyrir sig og veit hvað íbúum er fyrir bestu. Alþingi Íslendinga á að treysta þessu fólki fyrir sinni framtíð og fella úr gildi ákvæði sem heimila lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga.“
Að sjálfsögðu á það að ráðast á hverjum stað af vilja heimamanna hvernig þeir haga stjórn heimabyggðar sinnar eða búa í haginn gegn vályndum veðrum eða öðru sem verða vill. Allir eiga á rétt á samfélagslegri aðstoð sé hennar þörf en líkur á nauðsyn hennar minnka sé gripið til forvarnaraðgerða. Þær felast meðal annars í góðum almannavarnaáætlunum sem ná til náttúruhamfara hverju nafni sem þær nefnast. Áætlanirnar á að reisa á mati heimamanna.
Skagabyggð er nyrst á þessu korti. Þar hafna menn sameiningu við Austur-Húnavatnssýslu. Heimamenn tóku ákvörðun um að flýta lagningu þriggja fasa rafstrengs í jörð með því að greiða RARIK flýtigjald. Það kom þeim vel í ofsaveðrinu.
Hér er vaxandi krafa um að ákvarðanir ráðist af öðru en vitneskju heimamanna. Þrátt fyrir áratuga langa viðleitni og gerð margra „rammaáætlana“ sem hafa að markmiði að sætta ólík sjónarmið vegna virkjana vatnsfalla finnst alltaf einhver sem finnur leið til að láta sín sérsjónarmið tefja eða jafnvel ráða. Andstaða við Hvalárvirkjun er af þessum toga. Saga vegaframkvæmda í Teigsskógi er hrópandi dæmi um þetta.
Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Fannborgar ehf., segir í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 28. desember:
„Sjö skilgreind stig stjórnvaldsákvarðana gefa kærurétt hérlendis en eitt til tvö annars staðar á Norðurlöndum. Ekki bara það. Hvergi nema á Íslandi er til staðar opin heimild til að kæra matsskylda ákvörðun efnislega!“
Boðað er að greindir verði „aumir blettir“ og tekið á þeim í ljósi ofsaveðursins. Hvarvetna verður niðurstaðan sú að taka verði ákvarðanir. Sé hvorki vilji til þess hjá heimamönnum né réttum yfirvöldum eða það sé ekki unnt vegna reglufargans gerist ekkert. Einfaldara verður það ekki.