Ákærur vegna skattrannsókna
Með lagabreytingunni er flókið kerfi einfaldað án þess þó að öllum spurningum sé svarað. Dómstólar eiga lokaorðið um margt í þessu efni eins og dæmin sanna.
Vefsíðan Kjarninn er vettvangur íhaldssemi í opinbera kerfinu. Þar birtist á dögunum langur pistill eftir Þórð Snæ Júlíusson ritstjóra þar sem harmað er að á dögunum samþykkti alþingi frumvarp um að leggja niður embætti skattrannsóknarstjóra í þeirri mynd sem það er nú. Skerpa á hlutverk héraðssaksóknara í skattamálum, skattrannsóknir verða deild innan Skattsins án ákæruvalds.
Þetta er gert eftir athuganir sérfræðinga til að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu vegna skattalagabrota. Mannréttindadómstóll Evrópu sagði að framkvæmd í ákveðnum skattsvikamálum hér væri brot á mannréttindum. Með lagabreytingunni er einnig stefnt að hagræðingu innan stjórnkerfisins.
Öll löggjöf varðandi ákæruvald og skipulag þess er flókin og sitt sýnist hverjum um hvernig best sé að haga þessari skipan, hvar valdmörk eigi að vera milli ákveðinna stiga ákæruvaldsins og hvernig mál flytjist frá einu stigi eða einum opinberum aðila til annars. Með lagabreytingunni er flókið kerfi einfaldað án þess þó að öllum spurningum sé svarað. Dómstólar eiga lokaorðið um margt í þessu efni eins og dæmin sanna.
Þegar þingumræður um þetta frumvarp eru skoðaðar
vekur athygli að þær gefa alls ekki til kynna það sem ráða mætti af langri
grein ritstjóra Kjarnans, að þetta hafi verið hitamál á þingi.
Umræðurnar um málið voru stuttar og í nefndaráliti minnihlutans, Samfylking og
Píratar, er í raun skilað auðu. Þar er lagt til að enn einni sérfræðinganefndinni
verði falið að fjalla um málið.
Fyrir ritstjóra Kjarnans vakir að ýta undir þá skoðun að samþykkt frumvarpsins sé í þágu skattsvikara. Grein hans ber fyrirsögnina: Fullnaðarsigur skattsvikara og þar segir á einum stað að nýju lögin sýni að hér sé „virkilega til fólk“ sem haldi „því fram að íslenskt samfélag virki best án eftirlits“. Þetta fólk telji eftirlit „bara vesen“: „Gagg í óhressum vinstrimönnum sem vinni aldrei neina sigra í lífinu“.
Þetta er í raun skot út í loftið. Höfundurinn hefur ekki neitt við að styðjast með þessari fullyrðingu annað en eigin fordóma. Orð hans minna á það sem sagt var eftir hrunið að hér hefði ekki verið neitt eftirlit þótt í sex ár hefði verið varið miklum tíma og fjármunum af hálfu réttarvörslunnar til að rannsaka stórveldið Baug, fjármála- og viðskiptaveldi sem teygði anga sína um allt fjármálakerfið.
Árásirnar á þá sem stóðu að þeirri rannsókn höfðu örugglega fælingarmátt gagnvart öðrum eftirlitsstofnunum. Nú er brugðist við vörn Samherja vegna þess sem fyrirtækið telur atlögu að sér af hálfu seðlabankans og ríkisútvarpsins sem aðför að skoðanafrelsi og sjálfstæði embættismanna. Á tíma Baugsmálsins var staðan við mótun almenningsálitsins allt önnur. Nú fagna menn síðan hálfsagðri sögu um eina af höfuðpersónum Baugsmálsins sem sönnun um að of nærri henni hafi verið gengið.
Ein af furðuskýringunum á því að hér varð bankahrun er að verkefnum þjóðhagsstofnunar hafi verið dreift á aðra með brotthvarfi hennar. Dýrðaróður um opinber eftirlitskerfi sem lausn alls vanda ræðst af pólitískri skoðun á líðandi stund. Ritstjóri Kjarnans hittir naglann á höfuðið um „gagg í vinstrimönnum“ þegar hann lofsyngur opinber eftirlitskerfi nú af þessu tilefni.