6.4.2017 9:27

Að losna út höftum er öllum til góðs

Höfundar The Icelandic Financial Crisis ræða ítarlega um viðbrögðin eftir að kerfið hrundi. Að bregðast rétt við á hættustund skiptir mestu, fáum er gefið að vita hvenær hörmungar eða slys ber að höndum þótt öllum varúðarreglum sé fylgt. Þegar rætt er um hvernig brugðist var við haustið 2008 er augljóst að innleiðing haftanna var meðal lykilatriða réttra ákvarðana.

Nú er samtal mitt við Hersi Sigurgeirsson, dósent í viðskiptadeild Háskóla Íslands, sem frumsýnt var 5. apríl á ÍNN komið hér á síðuna og má sjá það með því að slá á hnappinn Þætti á vefslánni.

Viðtalið tók ég í tilefni útgáfu bókarinnar The Icelandic Financial Crisis sem Hersir skrifaði með Ásgeiri Jónssyni, dósent í hagfræðideild HÍ. Bókin fæst í Bóksölu stúdenta í Háskóla Íslands. Hún er einkum skrifuð fyrir erlenda lesendur en er ekki síður fróðleg fyrir okkur Íslendinga. Þar er hrun fjármálakerfisins sett í alþjóðlegt samhengi sem skýrir ástæður þess betur en að rýna í íslenska stjórnsýslu og viðbrögð íslenskra eftirlitskerfa.

Þá ræða höfundarnir ítarlega um viðbrögðin eftir að kerfið hrundi. Að bregðast rétt við á hættustund skiptir mestu, fáum er gefið að vita hvenær hörmungar eða slys ber að höndum þótt öllum varúðarreglum sé fylgt.

Þegar rætt er um hvernig brugðist var við haustið 2008 er augljóst að innleiðing haftanna var meðal lykilatriða réttra ákvarðana.

Í upphafi bókarinnar segir að vegna þess hvernig til tókst sé mjög líklegt að í framtíðar-kennslubókum verði íslensku fjármagnshöftunum frá 2008 lýst á þann veg að þau hafi skilað árangri – þau verði jafnvel notuð sem fordæmi fyrir aðra. Höfundarnir eru ekki að öllu leyti sammála þessu mati. Í því felist mikil þrenging á rétti einstaklingsins að framkvæma höft í háþróuðu samfélagi eins og á Íslandi árið 2008 og varla sé unnt að una slíkum afskiptum í lýðræðisríki. Á Íslandi hafi þetta aðeins verið unnt vegna þess að nær allar fjármálastofnanir þjóðarinnar hafi orðið gjaldþrota og þar með slitnað samband íslenska fjármálakerfisins við erlenda fjármagnsmarkaði. Að setja fjármagnshöft á virka alþjóðlega banka er oft einfaldlega óframkvæmanlegt eða skapar hættu á umtalsverðu tjóni fyrir aðra, segir í bókinni.

Hún kom út rétt áður en tilkynnt var um afnám haftanna 12. mars 2017 og segja höfundarnir ljóst að höftin hafi verulega skaðað íslenskt efnahagslíf með því að einangra viðskiptalífið frá umheiminum.  Erlendir fjárfestar vilji ekki koma til landsins og innlendir fjárfestar komist ekki út! Þótt erlendur gjaldeyrir streymi til landsins vegna sprengingarinnar í ferðaþjónustu sé þar hins vegar um atvinnugrein að ræða sem krefjist ekki fjölhæfs starfsfólks og verði því ekki leiðandi afl í hagvexti til frambúðar. Íslendingar verði að fara að fordæmi annarra Norðurlandaþjóða og finna eigin hillu fyrir fjölþjóðafyrirtæki; fyrirtæki sem stundi vel skilgreinda starfsemi með vítæka skírskotun til umheimsins. Vegna þess hve heimamarkaður Íslendinga sé lítill hafi þeir brýna þörf fyrir sérhæfingu og efnahagsstig sem náist ekki með því einu að flytja varning hindrunarlaust úr einni heimsálfu í aðra. Þeir þarfnist einnig fjármagns. Höftin hafi ekki aðeins rekið mörg rótgróin fjölþjóðafyrirtæki á brott heldur einnig haldið aftur af þeim sem séu að vaxa og þau verði síðan að leita að starfsstöð annars staðar eftir að þau hafi náð ákveðinni stærð. Jafnvel þótt höftin verði afnumin svífi endurkoma þeirra alltaf yfir vötnunum. Hvorki íslenskir né erlendir fjárfestar vilji sitja að nýju uppi með frystar eignir, lokaðar inni í íslenska fjármálakerfinu eins og gerðist 2008.

Gagnlegt er að hafa þessar hugleiðingar í huga nú þegar höftin hafa að nær öllu leyti verið afnumin, enn gilda höft gagnvart þeim sem vilja fjárfesta í háum vöxtum hér á landi – þannig varð snjóhengjan mikla til fyrir hrun – og bannað er að stunda skortsölu gegn íslensku krónunni.

Undir lok bókarinnar segir:

„Fjármagnshöftin styrktu samningsstöðu ríkisins gagnvart kröfueigendum í umræðum um rétt þeirra til að flytja fé sitt úr landi. Vogunarsjóðirnir höfðu fyrir löngu séð hvað í vændum var um buðu íslenskum stjórnvöldum – formlega og óformlega – einhverja eftirgjöf á krónueignum sínum.“

Þessi orð minna á að fullveldisrétturinn, rétturinn til að setja íslensk lög til verndar brýnum hagsmunum, skiptir miklu. Hann er mikilvægur þáttur þegar hugað er að inntaki og stefnu í peningamálum.

Eftir að höftin voru afnumin veltu fjölmiðlamenn fyrir sér hver væri hagur almennings af því. Þetta eru sérkennilegar vangaveltur því að þær snúast um hvort Íslendingar bogna eða brotna í sviptibyljum alþjóðlegra sviptibylja. Vegna smæðar peninga- og fjármálakerfisins þörfnumst við annarrar aðgæslu en þeir sem búa við aðrar aðstæður. Enginn vill búa í höftum, þau kalla á spillingu og ofríki sem snertir að lokum allan almenning.