14.7.2017 13:46

Velta í ferðaþjónustu jókst verulega í mars og apríl

Allt skipulag á flutningi fólks frá Keflavíkurflugvelli og til hans er reist á meginreglunni um að allir fari um Reykjavík. Er þetta ekki úrelt? 

Af og til og oftar í síðari tíð fáum við fréttir um voða í ferðaþjónustunni vegna krónunnar. Hún hafi hækkað um of í verði. Þessar fréttir eru að jafnaði reistar á samtali við einhvern aðila sem telur fyrirtæki sínu ógnað t.d. af því að ferðaheildsali hafi ákveðið að hætta við hann viðskiptum – verðið sem hann bjóði sé of hátt.

Lækkun krónu bitnar þyngst á öllum sem nota hana til allra viðskipta. Þeir sem stunda ferðaþjónustu hafa næsta frjálsar hendur um val á gjaldmiðli í rekstri sínum og geta gert margvíslegar ráðstafanir til að verða sem minnst háðir krónunni.

Í nýbirtum tölum hagstofunnar kemur fram að velta ferðaþjónustu jókst verulega í mars og apríl á þessu ári þegar miðað er við sömu mánuði í fyrra. Veltan á bílaleigumarkaði jókst um rúm 25% á milli ára, veltan hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum jókst um 23,3% á milli ára, svo jókst velta gististaða og veitingareksturs um 18,6%.

Ein kenning er að vegna mikils kostnaðar við að dvelja í landinu stytti ferðamenn dvöl sína hér. Þetta bitni á stöðum fjarri Reykjavík. Þarna sjái menn skaðsemi krónunnar.

Ríkur þáttur í fjölgun ferðamanna til landsins er stóraukið framboð á flugi og lækkun á fargjöldum vegna mikillar samkeppni. Þegar lítið kostar að fara til einhvers lands finnst mörgum þess virði að skreppa þangað í fáeina daga. Sé kostnaður við að koma og fara hár stuðlar hann að lengri dvöl í landinu. Skyldi þetta hafa áhrif á ferðamynstur hér á landi?

Þá er allt skipulag á flutningi fólks frá Keflavíkurflugvelli og til hans reist á meginreglunni um að allir fari um Reykjavík. Er þetta ekki úrelt? Fjölbreyttar, ódýrar og tíðar ferðir frá Keflavíkurflugvelli annað en til Reykjavíkur eru skynsamlegasta svar þeirra sem vilja stytta dvöl ferðamanna í Reykjavík. Komi flestir þeirra til að kynnast íslenskri náttúru eiga þeir erindið annað en til Reykjavíkur.

Breytingar á ESB verða margvíslegar við brottför Breta úr sambandinu. Hér er einni lýst:

Ein regla innan ESB er að marmelaði er skilgreint þannig að í því verði að vera 20% sítrusávöxtur, appelsínur eða sítrónur. Án þessa hlutfalls megi ekki kalla vöru marmelaði. Nú krefst þýskur ESB-þingmaður að reglunni verði breytt við úrsögn Breta. Reglan hefur gilt síðan 1979 og er til marks um sjaldgæfan árangur Breta við mótun reglna innan ESB – Þjóðverjar og Austurríkismenn líta á regluna sem ögrun við sig.