28.5.2017 12:11

Steingrímur J. kylliflatur í þinglok

Steingrímur J. tekur gamalkunna rispu undir þinglok en gætir ekki að sér frekar en oft áður þegar honum verður heitt í hamsi. Hann fellur kylliflatur.

Það dregur að þinglokum. Fjármálaáætlun til næstu fimm ára, nýmæli í stjórnarháttum sem gefur þingmönnum sýn á það hvernig ríkisstjórnin metur framvindu ríkisfjármála, er til umræðu á lokadögum þingsins. Stjórnarandstaðan gerir veður út af því að í áliti meirihluta fjárlaganefndar koma fram sjónarmið um það sem betur megi fara, meðal annars til að styrkja stöðu þingsins við meðferð þessa lykilmáls. Vonandi tekst að nýta það eins og ber til að tryggja aðkomu þingsins að gerð fjárlaga á nýjan og opnari hátt en áður.

Hér er vitnað orðaskipta á þingi vegna þessarar áætlunar. Þar ræða saman Steingrímur J. Sigfússon, vinstri-grænn aldursforseti þingsins, og Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðismanna, þriðjudaginn 23. maí.

Steingrímur J. Sigfússon:

„Á innsíðu Morgunblaðsins í dag er fullyrt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins styðji ekki fjármálaáætlunina í óbreyttri mynd. Sú var tíðin a.m.k. að tekið var mark á Morgunblaðinu þegar kom að upplýsingum úr innyflum Sjálfstæðisflokksins. Í gær kom hér í þinginu skýrt í ljós að hæstv. forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, stendur ekki við bakið á fjármálaráðherra sínum varðandi ríkisfjármálaáætlun og gaf algjörlega upp að til stæði að falla frá væntum virðisaukaskattsbreytingum á ferðaþjónustuna eða slaka þar til. Með öðrum orðum, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Viðreisnar, stendur aleinn, yfirgefinn á sviðinu, á evrubolnum sínum, og enginn í þessari ríkisstjórn ber blak af áformum hans. Með öðrum orðum aftur, frú forseti, málið er í algjöru uppnámi. Fjármálaáætlunin er í uppnámi, ríkisstjórnin hefur ekki komið sér saman um neitt og forseti þingsins gerði við þessar aðstæður rétt í því að fresta fundi. Og forsætisráðherra landsins gerði við þessar aðstæður rétt í því að rjúfa þing og boða til kosninga.

Þetta er ónýt ríkisstjórn, kemur sér ekki saman um neitt, hefur tekist að verða ótrúlega sundruð á örfáum mánuðum og það er stórhættulegt fyrir landið að búa við ónýta ríkisstjórn meðan ójafnvægið hleðst upp í hagkerfinu og endar með þeim mun meiri ósköpum sem lengur dregst að taka á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)“

Birgir Ármannsson:

„Hann [Steingrímur J.] tók ákveðið forskot á sæluna varðandi umræður um fjármálaáætlun sem við munum eiga hér í dag. Það var ekki annað á honum að heyra en honum hefði sést yfir, eins og reyndar blaðamanni Morgunblaðsins líka, að til umræðu í dag er m.a. nefndarálit frá meiri hluta fjárlaganefndar þar sem lagt er til að fjármálaáætlunin verði samþykkt og ekki ástæða til að ætla að neitt hik sé á mönnum í því sambandi. Meiri hluti fjárlaganefndar komst að niðurstöðu um að leggja til að áætlunin verði samþykkt óbreytt, en lætur í ljós ákveðin sjónarmið sem eru þá veganesti inn í frekari vinnu við útfærslu þeirra atriða sem í fjármálaáætlun eru.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þekkir eru ákvarðanir um einstök útgjaldaverkefni og tekjuöflunarverkefni ekki tekin endanlega í fjármálaáætlun heldur í fjárlögum hvers árs í skattalegum eða skattalagabreytingum sem fá sérstaka meðferð í þinginu. Um þau atriði sem umdeild hafa verið í fjármálaáætluninni er fjallað á yfirvegaðan og vandaðan hátt í nefndaráliti meiri hlutans og hv. formaður fjárlaganefndar [Haraldur Benediktsson] mun ábyggilega gera grein fyrir því á eftir. (SJS: Ekkert að marka Moggann?)

Þar virðist vera um misskilning að ræða hjá blaðamanni Morgunblaðsins hvað þetta varðar og segi ég þetta (Gripið fram í.) vegna þess að þarna liggur fyrir (Gripið fram í.) niðurstaða og afstaða sem öllum á að vera kunnug. Hins vegar veit ég að ef ríkisstjórnin (Forseti hringir.) þarf á því að halda, það er nú ekki komið að því enn þá, að fá ráðgjöf í því hvernig á að stýra sundruðum ríkisstjórnum þá er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sérfræðingur á því sviði. [Hlátrasköll í þingsal.]“

Í Morgunblaðinu miðvikudaginn 24. maí birtist frásögn Agnesar Bragadóttur blaðamanns um þingmeðferð fjármálaáætlunar og þar sagði meðal annars:

„Í frétt Morgunblaðsins í gær, gætti nokkurrar ónákvæmni í frásögninni um afstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins, þar sem einnig var fjallað um afstöðu til fjármálaáætlunar fjármálaráðherra, sem tekin var á ný á dagskrá í þinginu í gær, með framsögu Haraldar Benediktssonar, formanns fjárlaganefndar. Sú ónákvæmni skrifast alfarið á blaðamann þann sem þessa grein skrifar, sem misskildi frásögn eins heimildarmanns að hluta til og biðst blaðamaður velvirðingar á þeim mistökum.“

Steingrímur J. tekur gamalkunna rispu undir þinglok en gætir ekki að sér frekar en oft áður þegar honum verður heitt í hamsi. Hann fellur kylliflatur.

Þegar Steingrímur J. talar um fjármálaráðherrann á evrubolnum vísar hann til þess að Benedikt Jóhannesson, eini efnahags- og fjármálaráðherrann sem talar niður eigin lögeyri, kaus að koma í bláum bol með evru-merkið á brjóstinu í sjónvarpsviðtal.

Sérkennilegast við  uppátækið er að engum starfsbróður hans í evru-ríki dytti í hug að lýsa aðdáun sinni á evrunni á þennan hátt í fréttatíma sjónvarps, engum yrði það til framdráttar. Í ESB-nágrannaríkjunum utan evru-svæðisins, Danmörku og Svíþjóð, leiddi þetta til kröfu um afsögn ráðherra.

Steingrímur J. sat í „ónýtri ríkisstjórn“ í fjögur ár undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur til þess eins að sanna að „hrein vinstristjórn“ gæti setið út kjörtímabilið. Annar stjórnarflokkanna, Samfylkingin, ber ekki sitt barr og Steingrímur J. ákvað að segja af sér flokksformennsku í von um að VG lifði.