2.4.2017 8:59

Ótímabærar ráðherrayfirlýsingar um krónuna

Þegar boðað var afnám hafta sunnudaginn 12. mars sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem minnt var á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segði að unnið yrði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hefðu á gengi krónunnar.

Þegar boðað var afnám hafta sunnudaginn 12. mars sendi forsætisráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem minnt var á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segði að unnið yrði að því að draga úr þeim miklu sveiflum sem verið hefðu á gengi krónunnar. Því yrðu forsendur peninga‐ og gjaldmiðilsstefnu Íslands endurmetnar, meðal annars í ljósi breytinga sem orðið hefðu á efnahagsmálum þjóðarinnar með stórsókn ferðaþjónustunnar og ört vaxandi gjaldeyrisforða.

Markmiðið væri að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið væri heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs.  Samhliða endurskoðun á núverandi peningastefnu sem reist væri á verðbólgumarkmiði yrðu aðrir valkosti við peningamálastjórnun greindir, svo sem útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs.

Var þriggja manna verkefnisstjórn skipuð til að vinna að þessu verkefni og á hún að skila niðurstöðu fyrir árslok. Jafnframt boðaði ríkisstjórnin víðtækt samráð um málið.

Í ljósi alls þessa er undarlegt að lesa um yfirlýsingar fjármála- og efnahagsmálaráðsherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um krónuna og gildi hennar fyrir íslenskt efnahagslíf eða óvissa framtíð hennar. Hvers vegna bíða þessir ráðherrar ekki eftir að nýskipuð nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar skili áliti sínu? Eru þeir að gæla við leifarnar af misheppnaðri ESB-aðildarstefnu sinni með þessu tali?