24.8.2015 17:40

Mánudagur 24. 08. 15

Þingmannanefnd sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáv. innanríkisráðherra, skipaði til að endurskoða löggjöf um útlendinga hefur skilað tillögum sínum og hafa frumvarpsdrögin verið kynnt til umsagnar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.

Lagt er til í frumvarpsdrögunum að í stað þess að nota orðin hæli og hælisleitandi verði notuð hugtökin alþjóðleg vernd og umsækjandi um alþjóðlega vernd. Um þetta segir meðal annars í greinargerð:

„Í núgildandi lögum er talað um að veita einstaklingum, sem hingað leita og uppfylla skilyrði þess að teljast flóttamenn, hæli. Meðan mál þeirra er til meðferðar eru þeir kallaðir hælisleitendur. Hér er lagt til að nota heldur hugtakið alþjóðleg vernd og vísa þá til þeirra sem hennar óska sem umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þykir þetta ná betur utan um réttarstöðu þeirra einstaklinga sem í hlut eiga og er í samræmi við þróun í hugtakanotkun á alþjóðavettvangi.“

Ef til vill er þessi breyting á notkun orða eða hugtaka skýrð betur annars staðar í greinargerð nefndarinnar með frumvarpinu. Skýringin hér að ofan en rýr svo að ekki sé meira sagt. Það er nokkurt nýmæli að orðin asylum og asylum seeker víki fyrir öðrum hugtökum á alþjóðavettvangi. Hvaða hugtök koma þar í staðinn? Í umræðum um þessi mál sem sífellt verða brýnna viðfangsefni á stjórnmálavettvangi er óþjált að tala á íslensku um „umsækjanda um alþjóðlega vernd“ hvernig sem menn orða þetta á erlendum málum.

Á vefsíðunni flóttafólk.is er vísað til heimasíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þar sem segir:

„Oft er orðunum „hælisleitandi” og „flóttamaður” ruglað saman. Hælisleitandi er sá sem segist vera flóttamaður en hefur enn ekki fengið endanlega skorið úr um hvort sú fullyrðing sé á rökum reist.

Í hverju landi fyrir sig hafa stjórnvöld komið á fót kerfi til að ákvarða hvaða hælisleitendur geti öðlast alþjóðlega vernd. Ef, í kjölfar viðeigandi málsmeðferðar, úrskurðað hefur verið að einstaklingur sé hvorki flóttamaður né þurfi á annarri alþjóðlegri vernd að halda, getur hann verið sendur til baka til heimalands síns.“

 

Að afnema muninn á hælisleitanda annars vegar og flóttamanni hins vegar úr íslensku máli er í senn óþarft og óskynsamlegt. Bæði orðin eru gagnsæ og hafa skýra merkingu. Með því að afmá hælisleitanda úr málinu er ekki neinn vandi leystur heldur ýtt undir óskýra hugsun, hún á alls ekki við hér.