8.2.2008 19:08

Föstudagur, 08. 02. 08.

Þegar ég les skýrsluna um OR/REI undrast, að hún sé kennd við „stýrihóp“. Í raun hefði átt að kenna hópinn við endurmat eða rannsókn á þeim ákvörðunum, sem leiddu til uppnámsins 3. október 2007 en ég hef lýst því hér á síðunni.

Þess hefði mátt vænta í skýrslu hópsins, að hann gerði grein fyrir heiti sínu og hverju honum hafi verið ætlað að „stýra“ - er það kannski umræðan um málið, sem menn höfðu í huga, þegar þeir völdu hópnum nafn, það er að ná stjórn á umræðum um málið á vettvangi borgarstjórnar.

Í skýrslunni segir, að umboð stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur og valdmörk þeirra séu óljós og áleitnar spurningar vakni um ýmsar ákvarðanir þeirra. Þannig hafi hluthafasamkomulag í REI við innkomu nýs hluthafa verið undirritað af starfandi forstjóra OR fyrir hönd fyrirtækisins, án þess að fyrir hefði legið samþykki stjórnar um umboð hans.

Þá segir, að FL-group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því, hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafi haft bein áhrif á samningsgerðina. FL-group var þannig með puttana í innri samskiptum OR og REI til að hafa áhrif á samning þeirra á milli. Í skýrslunni segir:„Þannig telur hópurinn að hagsmunum OR hafi ekki verið gætt nægilega vel við samningsgerðina.“

Í skýrslunni segir, að ekki hafi verið einróma „skilningur“ innan stýrihópsins á því, hvers vegna umboð stjórnarmanna, fulltrúa eigenda eða stjórnenda til að taka „stórar ákvarðanir“ sé ekki skýrt. Þessi skortur á einróma skilningi undirstriki „enn frekar mikilvægi þess að þessir verkferlar séu skýrir í stjórnsýslunni á milli kjörinna fulltrúa og stofnana sem þeir eiga sæti (svo!) og gagnvart kjörnum fulltrúum.“

Þetta orðalag skýrslunnar er loðið en ég skil það á þann veg, að um það sé að ræða, að hópurinn vilji tryggja opna stjórnsýslu milli kjörinna fulltrúa og þeirra, sem starfa í umboði þeirra. Skortur á þessum opnu stjórnarháttum hefur verið helsta gagnrýnisefni mitt frá því að umræður um OR/REI hófust. Þessi „kúltur“ hefur þróast meðal stjórnenda OR á undanförnum árum og eitt brýnasta viðfangsefnið í málefnum fyrirtækisins er að eyða honum.