22.10.2019 11:15

Mögnuð átök í neðri málstofunni

Verður ekki annað sagt en að í þingsalnum sjálfum hafi allar ákvarðanir verið teknar á þann veg að hlýtur að vekja virðingu þeirra sem sjá gildi þess að þingræðið njóti sín.

Heimsathygli hefur vakið hvernig John Bercow stjórnar neðri deild breska þingsins af forsetastóli hennar. Þar hefur hann setið í 10 ár. Deilt er á úrskurði hans eins og heyra mátti á umræðum í neðri málstofunni í gær (21. október) þegar Bercow úrskurðaði að ekki væri unnt að taka að nýju til atkvæðagreiðslu tillögu ríkisstjórnarinnar um viðskilnaðarsamninginn við ESB sem náði ekki fram að ganga laugardaginn 19. október.

29012019_john_bercowJohn Bercow þingforseti.

Jacob Rees-Mogg er sá ráðherra í bresku ríkisstjórnin sem kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart þinginu. Hann kynnti að kvöldi 21. október hvernig stjórnin vill haga dagskrá þingsins fram á fimmtudag. Ætlun stjórnarinnar er að á þremur dögum afgreiði þingi lagabálk 110 bls., The European Union (Withdrawal Agreement) Bill, þar sem nákvæmlega er útlistað hvernig lögfesta skuli samninginn sem Boris Johnson gekk frá á fundi leiðtogaráðs ESB í Brussel í síðustu viku.

Forveri Bercows sagði á sínum tíma að hlutverk þingforsetans væri að sjá til þess að mál ríkisstjórnarinnar hefðu forgang og fengju afgreiðslu. Bercow telur svigrúm þingforsetans meira en þessi orð lýsa.

Í breskum fjölmiðlum segir að reyni þingmenn að bregða fæti fyrir framgang þessa frumvarps ríkisstjórnarinnar eða tefja á einhvern hátt kunni Johnson að draga allar tillögur sínar til baka, fara fram á lengri frest hjá ESB og krefjast þess af meirihluta þingmanna að þeir styðji tillögu um þingrof og nýjar kosningar. Það er rökrétt afstaða þar sem margsannað verður við þær aðstæður að þingið sem nú situr í Bretlandi er ófært um að komast að niðurstöðu í samræmi við þjóðarviljann í brexit-atkvæðagreiðslunni í júní 2016.

_109319350_ukparliament_jessicataylor-3Jacob Rees-Mogg, ráðherra þingmála.

Hvað sem segja má um afstöðu breskra þingmanna og vandræði ríkisstjórnarinnar verður ekki annað sagt en að í þingsalnum sjálfum hafi allar ákvarðanir verið teknar á þann veg að hlýtur að vekja virðingu þeirra sem sjá gildi þess að þingræðið njóti sín. Þótt Boris Johnson og stjórn hans fari halloka í atkvæðagreiðslum um einstök mál situr hún áfram af því að enginn flytur á hana vantraust og hún nýtur ekki nægilegs stuðnings til að geta rofið þing og boðað til kosninga. Stjórnarandstæðingar verða jafnan kindarlegir á svipinn þegar Boris Johnson bendir á þessa staðreynd.

Sé málflutningurinn í breska þinginu og skipulagið á honum borið við það hvernig haldið er á málum á Alþingi Íslendinga hallar á íslenska þingmenn. Þingumræður minna oft á að menn komi saman með kassa undir vegg og hefji deilur um það sem ber hæst í fréttum á hverjum tíma.

Áður var þetta gert utan dagskrár á þingi en síðan heimilað innan dagskrár en undir fyrirsögnum sem gefa allt aðra mynd af því sem fram fer. Fyrirspurnaflóð þingmanna til ráðherra er af sama meiði. Þær eru tilraun til að beina störfum þingsins frá löggjafarhlutverki þess.

Þessi þróun á alþingi er ekki náttúrulögmál heldur má rekja hana til þess misskilda hlutverks forseta þess að hann eigi að vera allra þjónn og ekki taka afstöðu, stöðva framgang þess sem er í raun ekki viðfangsefni alþingis.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að „styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess“. Þetta verður ekki gert með því að velja þingmenn sem hlotið hafa áfellisdóm siðanefndar þingsins til að stjórna þingnefndum eða með því að breyta þinginu í dægurmálavettvang.