20.11.2021 10:47

Krísa spítalans kallar á nýja lausn

Krísur kalla á nýjar lausnir. Það blasir við þegar litið er til Landspítalans.

Vegna umræðna um fjárveitingar til Landspítalans undanfarin átta ár og ásakanir um að hann hefði verið beittur fjárhagslegu harðræði af hálfu fjárveitingarvaldsins undir forræði fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skoðaði ég rekstrarframlög til spítalans á fjárlögum í þessi átta ár og þá kom þetta í ljós:

2013         2014     2015       2016       2017     2018    2019     2020      2021

40,822   44,883   48,001   53.500   59,664   64,664  69.776   73,814  78,148

Frá fjárlögum 2013 hafa verið veittir 38 milljarðar kr. í aukin framlög til spítalans á fjárlögum. Þar af eru ríflega 21 milljarðar kr. vegna launa- og verðlagsbreytinga. Að þeim undanskildum nema aukin framlög að raunvirði tæplega 17 milljörðum króna eða sem nemur 40% aukningu frá árinu 2013.

Hvergi á byggðu bóli er veitt nægu fé til heilbrigðiskerfis þjóða því að alltaf má betur gera á því sviði eins og öðrum. Rekstur þessara kerfa er þó mismunandi eins og stjórnarhættir innan þeirra. Hér er haldið um of í forsjá ríkisins á öllum sviðum.

_104075570_surgery1Það var eftirtektarvert að Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir sagði í Kastljósi að kvöldi fimmtudags 18. nóvember að það hefði lamandi áhrif á starfsemi spítalans að hann væri forstjóralaus, alþingi hefði ekki enn komið saman eftir kosningar, stjórnarflokkarnir hefðu ekki kynnt nýtt ráðuneyti og óvissa ríkti um hver yrði næsti heilbrigðisráðherra.

Þessi orð lýsa í hnotskurn hve forræði ríkisins er algjört. Innan spítalans sveiflast starfsemin eftir pólitískum vindum frekar en lögmálum faglegs rekstrar. Það mætti ætla að heilbrigðiskerfið væri síðasta vígi pólitískra fyrirgreiðslna í landinu þegar læknar telja sér helst til bjargar að birta opinberar bænarskrár.

Í sama þætti Kastljóssins hafði Björn Ingi Hrafnsson ritstjóri eftir ónefndum íslenskum lækni erlendis að hann treysti sér ekki til að sækjast eftir starfi á Landspítalanum því að ástandið innan dyra þar líktist því sem ríkti í skrifstofu Eflingar. Vísaði hann til ofríkisins og mannvonskunnar sem einkenndi stjórnarhætti sósíalistanna sem hrökkluðust úr forystu Eflingar.

Segja má um þetta ástand að hér séu öll góð ráð dýr en undan því verður ekki vikist að taka mál Landspítalans öðrum tökum en að einblínt sé á fjárhagslegu hliðina. Þrátt fyrir að útgjöld úr vasa skattgreiðenda hafi aukist á þann hátt sem að ofan er lýst er engin lausn í sjónmáli. Kórónuveirukrísann leiðir í ljós kerfisbrest og veikleika sem aðrir verða að greina og vinna úr en læknar.

Um það er almenn samstaða á stjórnmálavettvangi að opinberar fjárveitingar eigi að standa að baki heilbrigðisþjónustu. Það er deilt um hvernig féð er best nýtt. Núverandi staða er óviðunandi. Óhjákvæmilegt er að skilgreina rekstrarhlutverk ríkisins á nýjum grunni. Skilja á milli þess sem er alfarið í þess höndum og ábyrgð og annars sem einkaaðilar taka að sér að sinna og reka. Skilin verða að vera skýr og án grárra svæða sem valda vandræðum.

Krísur kalla á nýjar lausnir. Það blasir við þegar litið er til Landspítalans.