1.12.2018 10:29

Fullveldisdegi fagnað

Skrýtið að enn að skuli gæta einhvers metings um hvort meira tilefni sé að fagna 1. desember en 17. júní, að fullveldið sé í raun merkari atburður í Íslandssögunni en lýðveldið.

Skrýtið að enn að skuli gæta einhvers metings um hvort meira tilefni sé að fagna 1. desember en 17. júní, að fullveldið sé í raun merkari atburður í Íslandssögunni en lýðveldið.

Allir áfangar sjálfstæðisbaráttunnar eru merkir. Kannski skipti mestu að við fengum heimastjórn og stjórnarráðið kom til sögunnar 1904? Eða þegar konungurinn afhenti okkur stjórnarskrá árið 1874? Eða alþingi var endurreist 1845? Stjórnmálaátökin um uppkastið 1908 voru einnig lærdómsrík.

Images_1543660115262Þegar Jón Magnússon forsætisráðherra gekk á fund Kristjáns konungs X. í nóvember 1917 bar hann upp hvort Íslendingar fengju eigin fána. Konungur bauð þá í staðinn viðræður um samband ríkjanna og lauk þeim með samkomulagi 18. júlí 1918. Kristján X. ritaði undir lögin 30. nóvember 1918 og daginn eftir 1. desember var fullveldi lýst.

Vegna reynslunnar af slagkrafti Bjarna Jónssonar frá Vogi í deilunum um uppkastið skipaði Jón Magnússon hann í fjögurra manna viðræðunefnd Íslands. Úrslitum réð að á lokastigi féllust Danir á að orðið fullveldi yrði í texta samkomulagsins.

Í samræmi við ákvæði sambandslaganna urðu Íslendingar að taka af skarið um framhald tengsla sinna við Dani. Þegar að þeim tíma kom lutu Danir hernámi Þjóðverja. Þá reis upp fámennur hópur hér sem taldi óráðlegt að lýsa sjálfstæði Íslands við þær aðstæður. Það eimir enn eftir af þeim sjónarmiðum hjá þeim sem hampa fullveldinu meira en lýðveldinu. Að enn logi í þessum glæðum er stórundarlegt, oft er að vísu blásið í þær á stórafmæli fullveldisins.

Hátíðahöldin vegna aldarafmælis fullveldisins sýna að ástæðulaust er að óttast að 1. desember gleymist, að fagna honum á kostnað 17. júní er með öllu tilefnislaust.