5.6.2024 9:59

Fjármálakerfið stendur „traustum fótum“

Það er til marks um breytta umræðuhefð um stjórnmál hér hve lítið er gert úr kynningu í fjölmiðlum og á stjórnmálavettvangi á því hve góð efnahagsstaðan er á líðandi stundu. 

Fjármálastöðugleiki snýst um ástand fjármálakerfisins, þar á meðal banka, fjármálamarkaða og annarra fjármálastofnana. Af honum má ráða getu kerfisins til að standast áföll og viðhalda þjónustu sinni við almenning og fyrirtæki.

Seðlabanki Íslands fer með sjálfstætt vald yfir fjármálakerfinu, að því er varðar fjármálastöðugleika eru ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans teknar af fjármálastöðugleikanefnd.

Fjármálastöðugleikanefnd sendi frá sér jákvæða yfirlýsingu um stöðu íslenska fjármálakerfisins í dag (5. júní). Nefndin segir kerfið standa „traustum fótum“.

Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka sé sterk og aðgengi þeirra að fjármögnun gott. Lítið beri enn á vanskilum þrátt fyrir hátt vaxtastig. Þrálát verðbólga samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa muni þó herja á fjármálakerfið á næstu misserum.

Skuldahlutföll einkageirans hafa lækkað síðustu misseri og eru lág í sögulegu samhengi. Eiginfjárstaða heimila með fasteignalán hefur haldið áfram að styrkjast en greiðslubyrði lánþega hefur þyngst. Á móti vegur að eiginfjárstaða heimila og fyrirtækja í flestum atvinnugreinum er sterk. Nefndin segir teikn á lofti um að tekið sé að hægja á efnahagslífinu samhliða hækkun raunvaxta.

1496874Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri (mynd; mbl.is/Kristinn Magnússon). 

Þetta eru almennt góðar fréttir og falla í sama farveg og annað sem sagt er um meginstrauma efnahagsþróunarinnar. Þjóðarbúið varð þó vissulega fyrir áfalli vegna loðnubrests í vetur en landsframleiðsla dróst saman um 4% á fyrsta ársfjórðungi 2024 vegna hans. Bendir hins vegar allt til þess að neikvæð áhrif þessa og jarðeldanna á Reykjanesi raski hvorki fjármálastöðugleikanum né efnahagsrammanum.

Það er til marks um breytta umræðuhefð um stjórnmál hér hve lítið er gert úr kynningu í fjölmiðlum og á stjórnmálavettvangi á því hve góð efnahagsstaðan er á líðandi stundu og hve lítið er rætt um það sem skilar árangrinum sem við blasir. Líklega stafar þetta af því hve góður árangurinn er og mörgum er tamt að tala illa um stjórnvöld. Vangaveltur um neikvæða framtíð setja svip á umræðurnar þótt enginn viti með nokkurri vissu hvað í framtíðinni býr.

Í lok yfirlýsingar fjármálastöðugleikanefndar er hvatt til þess að Alþingi samþykki nú fyrir þinglok frumvarp sem miðar að því að styrkja heimildir seðlabankans til að auka viðnámsþrótt í greiðslumiðlun hér á landi og stuðla þannig enn frekar að fjármálastöðugleika og þjóðaröryggi.

Á árinu 2019 kynnti bankinn þjóðaröryggisráði áhyggjur sínar vegna þess hve greiðslumiðlun í landinu væri háð fáum erlendum aðilum og tók ráðið undir áhyggjur bankans.

Er furðulegt að nú fimm árum síðar hafi ekki verið tekið af skarið um nýjar varúðarreglur á þessu sviði. Frá Bretlandi og mörgum öðrum Evrópulöndum fjölgar viðvörunum um að erlendir tölvuþrjótar ógni rafrænni greiðslumiðlun með netárásum og hagnýtingu á veikleikum í hugbúnaði auk þess sem vaxandi ógn steðji að fjarskiptainnviðum vegna stríðsins í Úkraínu og annarra stríðsátaka. Alþingismenn hljóta að samþykkja heimildir til að tryggja sem öruggasta greiðslumiðlun, annað er hreint ábyrgðarleysi.