14.3.2021 10:44

Falleinkunn prófkerfis

Það er verulegt áfall þegar miðlægt prófkerfi fellur á eigin prófi. Raunar er furðulegt að slíkt gerist eftir að sá sem framkvæmir prófin hefur sent 12 minnisblöð til ráðuneytis.

Miðað við fyrri reynslu er stórundarlegt að ekki hafi verið gengið tryggilega frá öllum grunnþáttum við rafræna innleiðingu samræmdra prófa, þar á meðal reglulegri uppfærslu kerfa svo að þau þoli álagið.

Arnór Guðmundsson, forstjóri menntamálastofnunar, stjórnsýslustofnunar menntamála á starfssviði menntamálaráðuneytisins um miðlæg verkefni, var þungorður í fréttatíma ríkissjónvarpsins að kvöldi laugardags 13. mars og sagði rafrænt prófkerfi fyrir samræmd próf nú fullreynt, það yrði ekki notað framar. Prófin yrðu lögð fyrir á pappír þar til rafræna kerfið yrði endurnýjað. Undanfarin ár hefði stofnunin ítrekað bent menntamálaráðuneytinu á að kerfið væri úrelt og óhentugt.

Sérfræðingahópur sem lagði mat á framkvæmd prófanna árið 2019 sagði hæpið að þau uppfylltu lögbundin viðmið og á fundi fulltrúa menntamálastofnunar og menntamálaráðuneytisins sama ár kom fram að prófin væru ekki í samræmi við kröfur samtímans og þróun í öðrum löndum. Þá var áætlað að kostnaður við nýtt prófkerfi væri um 100 milljónir á ári, segir á ruv.is.

Þegar nemendur í 9. bekk hugðust taka samræmt próf í íslensku mánudaginn 8. mars hrundi kerfið og þá aflýsti Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra prófum í ensku og stærðfræði sem leggja átti fyrir í þessari viku.

FlunnamedMyndin er af vefsíðu Flataskóla.

Spurning er hvort ráðherrann aflýsti prófunum alveg eða aðeins að þau yrðu ekki tekin rafrænt. Svo virðist sem aðeins rafræna tengingin hafi verið tekin úr sambandi en skólarnir eigi þess í stað að bjóða nemendum að taka prófin á pappír á bilinu 17. mars til 30. apríl. Eykur það enn á óvissu nemenda og skólastjórnenda sé gefin út tilkynning um að prófunum sé aflýst en á sama tíma sagt að nemendur megi taka prófin. Í raun virðast samræmdu prófin í ár valkvæð - þeir nemendur sem vilja taka prófin fá að taka þau.

Þegar prófkerfið hrundi mánudaginn 8. mars hafði hópur nemenda lokið við sð taka íslenskuprófið. Hver er staða þeirra nemenda, standa svör þeirra eða verða þau lýst ógild vegna kerfisbilunar?

Það er verulegt áfall þegar miðlægt prófkerfi fellur á eigin prófi. Raunar er furðulegt að slíkt gerist eftir að sá sem framkvæmir prófin hefur sent 12 minnisblöð til ráðuneytis um nauðsyn endurbóta til að tryggja öryggi við framkvæmdina.

Hér er fyrst og síðast um virðingarleysi við nemendur að ræða. Hirðuleysi er um ytra starfsumhverfi þeirra. Það drabbast niður vegna þess að ekki er farið að óskum um nauðsynlegar umbætur. Því miður sést þetta víða á grunnskólastiginu eins og umræður um heilsuspillandi skólahúsnæði sýna. Þar er ástandið í Fossvogsskóla mest í sviðsljósinu en borgaryfirvöldum virðist um megn að sigrast á heilsuspillandi aðstæðum þar.

Tölur frá OECD sýna að hér á landi sé varið meira fé til grunnskólans en í öðrum löndum. Sé hvorki unnt að framkvæma próf né tryggja viðunandi húsakost fyrir peningana er illt í efni. Misjafnlega er að grunnskólum búið eftir sveitarfélögum og metnaður sveitarstjórnenda í þágu eigin skóla er sem betur fer almennt mikill. Misbrestur kallar hins vegar á skjót viðbrögð og virðingu í garð nemenda, kennara og annarra sem í skólunum starfa.