Áfengissala á netinu
Í stað þess að löggjafinn setji reglur í samræmi við samtímann vilja ráðherrar, t.d. Framsóknarflokksins, að botn fáist í málið fyrir tilstuðlan lögreglu í nafni lýðheilsu.
Það er forvitnilegt að íhuga hvernig ástand skapast í aðdraganda þess að löggjafinn grípi til þess valds sem hann hefur til að draga úr hömlum í samfélaginu, hömlum sem allir sjá síðar að voru með öllu tilefnislausar en settu frelsi borgaranna skorður með óþörfum ríkisafskiptum.
Í upphafi sjöunda áratugarins urðu harðar umræður um hættuna af því að ekki væru settar opinberar skorður við að fólk á höfuðborgarsvæðinu gæti horft á „kanasjónvarpið“, það er útsendingar sjónvarps varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli á bandarísku efni fyrir íbúa innan vallarsvæðisins. Málið leystist með því að ríkisútvarpið hóf sjónvarpsrekstur árið 1966. Nú á tímum opinnar alþjóðlegrar fjölmiðlunar og streymisveitna eru þessar gömlu deilur stórundarlegar.
Um miðjan níunda áratuginn varð verkfall fréttamanna ríkisútvarpsins til þess að alþingi samþykkti afnám á einkarétti ríkisins til útvarpsrekstrar. Ólöglegar útvarpsstöðvar í verkfallinu sannfærðu almenning um að fleiri gætu miðlað fréttaefni á ljósvakanum en ríkisstarfsmenn.
Undir lok níunda áratugarins gat ríkið ekki staðið gegn innflutningi á áfengu öli um fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli. Þá var lögum breytt og leyfð framleiðsla og sala á öli á veitingastöðum og í opinberum vínbúðum. Nú er öl bruggað um land allt og selt beint af heimamönnum til gesta og gangandi.
Fyrir 30 árum gerðist Ísland aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Enn er deilt um framkvæmd samningsins vegna þess hve ríkisvaldið heldur fast í regluvald sitt. Snýr þetta bæði að takmörkunum á rétti Íslendinga til að njóta þess sem samningurinn býður með sameiginlegum markaði sínum (deilan um framkvæmd á bókun 35) og um notkun á regluverki samningsins til að setja sérstaklega íþyngjandi reglur fyrir Íslendinga (gullhúðunin). Stofnað hefur verið til áhlaups gegn réttlátri framkvæmd á bókun 35 meðal annars með misheppnuðu forsetaframboði. Dregur löggjafinn enn lappirnar í málinu. Öðru máli virðist gegna um gullhúðunina.
Vegna EES-aðildarinnar geta Íslendingar keypt áfengi í netsölu frá útlöndum. Innlendir frumkvöðlar sáu þarna tækifæri til að verða milliliðir í netviðskiptum. Í stað þess að löggjafinn setji reglur í samræmi við samtímann vilja ráðherrar, t.d. Framsóknarflokksins, að botn fáist í málið fyrir tilstuðlan lögreglu í nafni lýðheilsu. Beiting lögregluvalds til heilsugæslu minnir á COVID-19-tímann. Aðferðir við sölu á áfengi taka mið af lögum hverju sinni. Lögregla breytir þeim ekki heldur löggjafinn. Nú er skráð í skýin að tími opinberrar vínsölu í núverandi mynd sé einfaldlega liðinn. Að viðurkenna það ekki minnir á andstöðuna við innleiðingu á litasjónvarpi fyrir um 50 árum, gjaldeyrisvarasjóðurinn myndi ekki þola áhlaupið vegna kaupæðis almennings. Nú er sagt að minni ríkisafskipti af áfengissölu leiði til almenns drykkjuskapar.
Fleiri dæmi mætti nefna um tregðuna til að treysta almenningi með því að minnka regluverkið og auka frelsi. Sagan sýnir hins vegar að hvert skref til frelsis og aukinnar ábyrgðar einstaklinga á eigin hag er framfaraskref.