22.5.2025 10:13

Flöktandi dómsmálaráðherra

Skoðanaflökt dómsmálaráðherra vegna stöðu ákæruvaldsins og varðandi aðgerðir til að efla traust á réttarvörslunni er þess eðlis að rökin fyrir kröfunni um rannsóknarnefnd á vegum alþingis styrkist.

Hér var í gær vitnað til umræðna á alþingi mánudaginn 19. maí sem gáfu til kynna að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (Viðreisn) dómsmálaráðherra útilokaði ekki að styðja tillögu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, um rannsóknarnefnd á vegum alþingis til að endurvekja traust á réttarvörslunni vegna frétta um gamlan gagnaleka á trúnaðarupplýsingum.

IMG_2181

Þriðjudaginn 20. maí hafði Þorbjörgu Sigríði snúist hugur þegar fréttastofa ríkisútvarpsins (RÚV) ræddi við hana og segir í inngangi fréttar um samtalið á ruv.is að ráðherrann taki hugmynd Sjálfstæðisflokksins „fálega“. Þá er vitnað í ummæli dómsmálaráðherra sem einkennast í senn af yfirlæti og illkvitni í garð Sjálfstæðisflokksins.

Ráðherrann getur ekki hafið sig yfir skæting í garð Guðrúnar Hafsteinsdóttur og hnútukast í garð Sjálfstæðisflokksins. Mætti helst ætla að ráðherrann hafi farið í smiðju til Heimis Más Péturssonar, sendingu Samfylkingarinnar í Flokk fólksins, til að laga tón þingmanna hans að því sem talið er hæfa málstað ríkisstjórnarinnar.

„Við vitum alveg hvert tilefnið var að lög um sérstakan saksóknara voru sett á sínum tíma, auðvitað sá mikli sársauki sem leiddi af fjármálahruninu. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði fram það hrun, það var Sjálfstæðisflokkurinn sem skipaði sérstakan saksóknara.“

Þrátt fyrir allar greiningar sem fyrir liggja um hrunið og misheppnaða kæru fyrir landsdóm gegn Geir H. Haarde, þáv. forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, í þeim eina tilgangi að koma höggi á Geir og flokkinn, leyfir dómsmálaráðherra sér að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi „lagt fram hrun“. Hvaðan er þessi söguskoðun komin?

Það var vissulega Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð að frumvarpinu um sérstakan saksóknara sem alþingi samþykkti ágreiningslaust og að höfðu samráði við alla þingflokka skipaði dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins Ólaf Þór Hauksson sérstakan saksóknara, hann var síðar skipaður héraðssaksóknari. Hann á nú í vök að verjast, ekki vegna Sjálfstæðisflokksins heldur upprifjunar RÚV á gömlum málum sem varpa skugga á lögregluna og ákæruvaldið. Almennt séð eru það afbrotamenn sem sjá sér hag af því að veikja þessar samfélagsstoðir.

Telur dómsmálaráðherra vegið að réttarvörslunni vegna flokkspólitískra mála? Af viðbrögðum ráðherrans mætti ætla það. „Þarna er einhver innkoma eftir gott frí frá umræðum um veiðigjöld,“ segir ráðherrann í sjónvarpi þegar rætt er við hana um þetta alvarlega mál og gerir allt til að dreifa athygli frá því að pólitísk ábyrgð vegna ákæruvaldsins hvílir á dómsmálaráðherra og ekki öðrum.

Þorbjörg Sigríður hefur nú haft hálft ár til að greiða úr starfsmannavanda á toppi ákæruvaldsins. Hefur hún fundið lausn?

Heift í garð Sjálfstæðisflokksins leysir engan ráðherra undan embættisskyldum sínum. Skoðanaflökt dómsmálaráðherra vegna stöðu ákæruvaldsins og varðandi aðgerðir til að efla traust á réttarvörslunni er þess eðlis að rökin fyrir kröfunni um rannsóknarnefnd á vegum alþingis styrkist.