Til varnar réttarvörslunni
Það yrði mikilvægt skref við núverandi aðför að réttarvörslunni ef alþingi sameinaðist að baki tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins sagði frá því á alþingi mánudaginn 19. maí að hún ætlaði að leggja fram þingsályktunartillögu um að skipuð yrði rannsóknarnefnd sem færi í saumana á störfum embættis sérstaks saksóknara. Það skorti heildstæða skoðun á störfum ákæruvaldsins á afdrifaríku árunum eftir hrun.
Guðrún spurði Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur (Viðreisn) dómsmálaráðherra hvernig ráðherrann ætlaði að endurheimta traust á réttarkerfinu þegar ákæruvaldið væri sjálft undir grun og málið í höndum stofnana sem hefðu verið hluti af þeirri framkvæmd sem nú væri gagnrýnd. Hvort ráðherrann raunverulega teldi að réttarkerfið gæti staðið að slíku sjálfsmati án utanaðkomandi og sjálfstæðrar skoðunar.
Guðrún Hafsteinsdóttir (mbl/Árni Sæberg).
Það er óhjákvæmilegt að á stjórnmálavettvangi sé brugðist við og gripið til aðgerða til varnar réttarvörslunni vegna þeirrar aðfarar sem nú er gerð að henni eftir að ríkisútvarpið endurvakti gamalt mál um gagnaleka og ólögmæta starfshætti lögreglumanna undir handarjaðri héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara.
Þannig var vegið að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra í upphafi aldarinnar í Baugsmálinu svonefnda að augljóst var að styrkja yrði ákæruvaldið á þessu sviði auk þess sem komið yrði á fót embætti héraðssaksóknara. Var vinna við þær umbætur hafin þegar bankarnir hrundu haustið 2008. Embætti sérstaks saksóknara var brú á milli gamals og nýs kerfis. Hrunið knúði á um markviss viðbrögð og varð samstaða um embættið á þingi og Ólafur Þór Hauksson var skipaður sérstakur saksóknari í janúar 2009 að höfðu samráði við fulltrúa allra þingflokka.
Í svari við spurningu Guðrúnar Hafsteinsdóttur um hvort hún myndi styðja tillögu um rannsóknarnefnd útilokaði Þorbjörg Sigríður það ekki. Hún myndi „líka vilja beina sjónum að því hverjir það voru sem voru að kaupa þessi gögn“, það er gögn sem láku frá saksóknara. Hvort þeir hefðu verið í góðri trú?
Ráðherrann sagði réttilega oft vísað til þess að það hefði verið ákveðið andrúmsloft í samfélaginu þegar dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði til að við myndum stofna embætti sérstaks saksóknara. Til þessa andrúmslofts vísaði ég meðal annars þegar frumvarpið var kynnt eins og lesa má í greinargerð þess. Lög eru sjaldan sett án tilefnis og greinargerðir í frumvörpum endurspegla tíðaranda en það er texti laganna sem gildir og framkvæmd hans.
Það yrði mikilvægt skref við núverandi aðför að réttarvörslunni ef alþingi sameinaðist að baki tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins. Rannsókn myndi einnig beinast að tilefni hennar á þessari stundu þar sem spurningar hafa vaknað um tengsl milli saksóknaraembættisins og fjölmiðlamanna.
Víðtæk samstaða var á alþingi þegar embætti sérstaks saksóknara var ýtt úr vör og við val á manni til að veita embættinu forystu. Það væri í þeim anda sem þá ríkti ef samstaða tækist um að upplýsa alla þætti að baki gagnrýninni sem embættið sætir nú.