Jarðtenging ESB-umræðunnar
„Ég ráðlegg Evrópusinnum að stilla í hóf væntingum sínum um hversu miklu ríkisstjórnin fái áorkað í raun í þessu stóra máli þótt atkvæðagreiðslan verði haldin,“ segir Davíð Þór Björgvinsson lagaprófessor.
Hér hefur oft verið bent á ágreining innan ríkisstjórnarinnar og Samfylkingarinnar um hvenær gengið skuli til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um framhald viðræðna við ESB. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vill ekki hrófla við stjórnarsáttmálanum, greidd verði atkvæði fyrir árslok 2027. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson, talsmaður þingflokks Samfylkingarinnar í utanríkismálum, vilja flýta atkvæðagreiðslunni.
Við túlkun á stjórnarsáttmálanum hefur forsætisráðherra lokaorðið, ef ekki getur ráðherrann pakkað saman ásamt ríkisstjórninni.
Enginn veit enn um hvað á að spyrja þjóðina og þá bólar ekki heldur á neinni viðleitni til að breyta stjórnarskránni sem allir flokkar hafa talið nauðsynlegt vegna aðildar að ESB.
Við Tjörnina að morgni 20. maí 2025.
Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og deildarforseti við lagadeild HA, víkur að álitaefnum varðandi fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu í pistli á Eyjunni í dag (20. maí).
Hann segir að verði samþykkt 2027 að halda áfram viðræðum við ESB kunni að takast að „halda nokkra fundi í Brussel til að undirbúa raunverulegar samningaviðræður“ fyrir þingkosningar árið 2028. Að þeim loknum kunni að verða mynduð ríkisstjórn sem vilji engar ESB-aðildarviðræður. „Ég ráðlegg Evrópusinnum að stilla í hóf væntingum sínum um hversu miklu ríkisstjórnin fái áorkað í raun í þessu stóra máli þótt atkvæðagreiðslan verði haldin,“ segir Davíð Þór.
Hann segir að ríkisstjórnin geti sýnt vilja sinn til að nálgast ESB-aðild í verki á kjörtímabilinu með því að „hlutast til um breytingar á stjórnarskrá til að gera aðild að ESB stjórnskipulega mögulega“. Davíð Þór segir:
„Mér finnst stundum eins og sumir Evrópusinnar geri sér ekki grein fyrir þessu vandamáli [breytingu á stjórnarskránni], eða bara kjósi að gera eins og strúturinn og stinga hausnum í sandinn og láta eins og það sé ekki til eða sé bara einfalt og auðvelt formsatriði sem leyst verði í lokin þegar allt annað er komið. Hinn pólitíski veruleiki er allt annar á Íslandi.“
Prófessorinn bendir á að það verði að myndast „breið pólitísk samstaða“ um stjórnarskrárbreytingar og ólíklegt sé „að slík samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem augljóslega hefur þann tilgang fyrst og fremst að greiða fyrir inngöngu í ESB. Algjörlega er fyrirséð að þetta eitt og sér verður alltaf sérstök hindrun sem þarf að komast yfir.“
Telur hann að ríkisstjórnarflokkarnir sem í orði styðja aðild, Viðreisn og Samfylking, hafi nú ágætt tækifæri til að sýna í verki hug sinn til aðildar Íslands að ESB með því að setja strax af stað vinnu til að breyta á stjórnarskránni svo að hún rúmi framsal valdheimilda ríkisins til ESB til fullrar þátttöku í sambandinu. Með því að gera þetta sýni flokkarnir raunverulegan vilja sinn til að ganga í ESB.
Þetta er réttmæt ábending hjá Davíð Þór Björgvinssyni. Ólíklegt er að við henni verði orðið því að ríkisstjórnin liðaðist líklega í sundur yrði tekið á ESB-málinu eins og þarf með alvöruumræðu um aðild. Stjórnin lifir ekki nema á gráu svæði