Salan á Íslandsbanka
Sé litið á mikinn áhuga almennings á hlutabréfum í Íslandsbanka í pólitísku ljósi má kenna góða sölu bréfanna við söguleg umskipti. Nú munu umræður aukast um eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands.
Hver hefði trúað því hrunhaustið 2008 að nú í sumarbyrjun 2025 myndu rúmlega 30.000 einstaklingar ákveða að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka? Og að eftirspurnin væri svo mikil að ekki reyndist unnt að verða við henni.
Þetta er þó staðreynd sem sýnir að í áranna rás hefur tekist að endurvekja traust á fjármálafyrirtækjum og hlutabréfamarkaðnum á þann veg að þúsundir hika ekki við að nýta sér það sem er í boði.
Nú heyrist kvartað undan of miklu regluverki í kringum starfsemi fjármálafyrirtækja. Áður var kvartað undan skorti á reglum. Strangari reglur má einmitt rekja til hrunsins 2008 og ráðstafana sem gerðar voru til að tryggja að kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki þyldu mikið álag.
Það er einnig til marks um nýja tíma hve mikil sátt ríkir á alþingi um söluaðferðina sem var mótuð fyrir stjórnarskipti.
mbl.is/Árni Sæbærg
Í kosningunum 30. nóvember 2024 hurfu tveir flokkar af þingi: Píratar og Vinstri grænir. Öll sala ríkiseigna er eitur í beinum Vinstri grænna og af tilliti til þeirra var hannað lagaumhverfi með bankasýsluna sem miðlægt afl við töku ákvarðana um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Vandræðin sem af því stöfuðu reyndust pólitískt dýrkeypt. Nú saknar enginn bankasýslunnar.
Píratar reistu stjórnmálastarf sitt mjög á því að ala á tortryggni og vega að einstaklingum í von um að sverta mannorð þeirra og hagnast á því pólitískt. Þeir sem enn vilja ylja sér við slíkt eftir að Píratar hurfu af þingi geta helst gert það nú með því að lesa nafnlausa dálka í netmiðlum sem kostaðir eru af stofnanda Viðreisnar, Helga Magnússyni. Ávallt verða til holræsi í einni eða annarri mynd.
Sé litið á mikinn áhuga almennings á hlutabréfum í Íslandsbanka í pólitísku ljósi má kenna góða sölu bréfanna við söguleg umskipti. Nú munu umræður aukast um eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands.
Eftir að útboðsferlið á Íslandsbankabréfunum hófst lét Daði Már Kristófersson (Viðreisn) fjármála- og efnahagsráðherra þessi orð falla í samtali við ríkisútvarpið (13. maí): „Íslenskir bankar eru meðal öruggustu fjárfestinga sem til eru“.
Lýst var undrun yfir þessu auglýsingastarfi ráðherrans af innherja í Morgunblaðinu 17. maí og einnig yfir því að ráðuneyti hans hefði fyrir lokun útboðsins gefið út tilkynningu um „fordæmalausa eftirspurn“ og loks hefði ráðherrann fullyrt að afsláttur á bréfum í bankanum skipti engu máli þar sem þjóðin væri að kaupa af þjóðinni.
Um framkvæmd útboðsins sagði Arnþór Jónsson á Facebook (15. maí):
„Skrautleg meðhöndlun á eignum almennings hjá ráðherra sem hefur ekkert lýðræðislegt umboð. Ef hann væri að selja eitthvað sem hann ætti sjálfur og stæði frammi fyrir svona umframeftirspurn þá myndi hann hækka verðið. En svokallað lögmál um framboð og eftirspurn gildir ekki þegar ráðherra vantar peninga og selja eignir almennings. Þar gildir lögmálið allt er mér að þakka nema það sem er öðrum að kenna.“
Nú verður væntanlega fylgst náið með eftirleiknum og hvað gerist þegar verðið á bréfunum breytist til lækkunar eða hækkunar.