Svöðusár í boði Viðreisnar
Til að sverta stjórnarandstöðuna sakaði Hanna Katrín hana um málþóf. Hún vill hvorki ræða málið við þingmenn né fulltrúa SFS. Kýs ráðherrann frekar að ýta undir tortryggni og reiði til að sýna hver það er sem valdið hefur.
Því er ranglega haldið fram af þeim sem styðja ríkisstjórnina og skattahækkunarstefnu hennar að forystumenn í sjávarútvegi séu andvígir hækkun auðlindaskatts. Þeir vilja hins vegar að breytingar á veiðigjaldi eigi sér stað í skrefum og með samtali.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), rifjaði 11. maí upp að Kristrún Frostadóttir hefði í aðdraganda þingkosninganna í nóvember sagt að hún sæi fyrir sér breytingar á veiðigjaldi en vildi ekki hækka það með offorsi. Það mætti tvöfalda á næstu tíu árum. Þetta hefði Kristrún sagt á fundum um allt land.
Rætt var við Heiðrúnu Lind í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Hún taldi í þessu ljósi óboðlegt að tvöfalda skattinn í einu vetfangi.
Af orðum Heiðrúnar Lind mátti ráða að Hanna Katrín Friðriksson (Viðreisn) atvinnuvegaráðherra hefði markvisst lokað á allt samtal við fulltrúa SFS: „Ef okkur hefði tekist að ná upp samtali, er ég viss um að við hefðum getað komið okkur niður á einhverja niðurstöðu,“ sagði Heiðrún Lind.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og formaður SFS, sat fyrir svörum Í bítinu á Bylgjunni að morgni mánudagsins 12. maí og tók undir það sjónarmið sem Kristrún Frostadóttir kynnti fyrir kosningarnar í lok nóvember 2024 að veiðigjaldið hækkaði í skrefum á 10 árum.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra kynna veiðigjaldafrumvarpið 25. mars 2025 (mynd:mbl.is/Árni Sæberg).
Það vakti athygli á sínum tíma að það voru tveir ráðherrar Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson og Daði Már Kristófersson, sem kynntu auðlindagjaldsfrumvarpið sem afgreitt verður til nefndar í dag. Það var hvorki fulltrúi Samfylkingar né Flokks fólksins á blaðamannafundinum. Viðreisn vill gera þetta að sínu máli.
Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu nýttu sér rétt sinn samkvæmt þingsköpum til að ræða frumvarpið við fyrstu umræðu þess. Stjórnarsinnar tóku fljótlega að kvarta undan ræðuhöldunum. Þar var Sigmar Guðmundsson, formaður þingflokks Viðreisnar, fremstur í flokki.
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra var erlendis í einkaerindum dagana sem umræðunni lauk. Daði Már Kristófersson var staðgengill hennar en lét ekki sjá á þingi lokdag umræðunnar.
Til að sverta stjórnarandstöðuna sakaði Hanna Katrín hana um málþóf. Hún vill hvorki ræða málið við þingmenn né fulltrúa SFS. Kýs ráðherrann frekar að ýta undir tortryggni og reiði til að sýna hver það er sem valdið hefur.
Hönnu Katrínu er kappsmál að frumvarpið verði rætt í atvinnuveganefnd alþingis undir formennsku Sigurjóns Þórðarsonar í Flokki fólksins. Sé ráðherranum lítt að skapi að finna málamiðlun við afgreiðslu frumvarpsins er það enn fjær Sigurjóni Þórðarsyni sem spáir því að þing sitji fram í júlí.
Aðferð Viðreisnarforystunnar við að knýja þetta óvandaða frumvarp í gegn sýnir að hún kýs frekar að velja stríð en málefnalega sátt. Þessi óskiljanlega meðferð máls af þessum toga mótast af þröngum pólitískum sérhagsmunum flokks sem var stofnaður til að koma Íslandi í ESB. Það tekst ekki nema sjávarsíðunni sé veitt svöðusár.