Minningar vegna páfakjörs
Í janúar 1999 vorum við Rut nokkra daga í Casa Santa Marta, húsinu sem reist var á sínum tíma sérstaklega til dvalar fyrir kardínála við páfakjör. Sagði ég frá því hér á síðunni 17. janúar 1999:
Í fyrra var kvikmyndin Conclave frumsýnd. Þjóðverjinn Edward Berger er leikstjóri en myndin er gerð eftir samnefndri skáldsögu Roberts Harris og lýsir eins og nafnið gefur til kynna páfakjörfundi á borð við þann sem hefst í Vatíkaninu í dag, 7. maí.
Breski leikarinn Ralph Fiennes leikur kardínálann sem ber ábyrgð á að allt fari fram í samræmi við lög og reglur á kjörfundinum sem sóttur er af kardínálum hvaðanæva úr veröldinni og séu þeir 79 ára eða yngri mega þeir greiða atkvæði og kjósa næsta páfa, alls 133 kardínálar hafa atkvæðisrétt.
Frá því að Frans páfi andaðist 21. apríl hafa mörg kvikmyndahús tekið myndina til endursýninga fyrir þá sem misstu af henni en myndin fékk Óskarsverðlaun fyrir handritsgerð á dögunum. Þá hefur verið unnt að nálgast myndina í bandarískri útsendingu á Prime Video þar sem áhorf jókst um 283%. Myndina er nú unnt að sjá í Sambíói-Kringlunni.
Það er samdóma álit sérfræðinga að allt sem snýr að umgjörð og formi páfakjörsins sé ótrúlega líkt því sem nú gerist í Vatíkaninu og Sixtinsku-kapellunni þar sem kardínálarnir koma saman á bak við luktar dyr og eru svarnir trúnaði um allt sem þar gerist undir hvelfingunni, sem Michelangelo gerði ódauðlega með listaverkum sínum.
Í Le Figaro er haft eftir Christophe Dickès, sagnfræðingi Vatíkansins, að hann undrist hve nákvæmlega sé fylgt þeim reglum og siðum sem gilda um páfakjörið í Conclave. Greidd eru atkvæði tvisvar fyrir hádegi og tvisvar eftir hádegi. Hann segir að í Conclave sé allt fært nær raunveruleikanum en í tveimur öðrum myndum af svipuðum toga: The Two Popes og Habemus Papam.
Casa Santa Marta
Hugað er vel að öllum smáatriðum í Casa Santa Marta, húsinu sem reist var á sínum tíma sérstaklega til dvalar fyrir kardínála við páfakjör. Híbýlin eru sýnd, matsalurinn og matseðillinn. Frans páfi lét innrétta fyrir sig íbúð í þessu húsi og bjó þar frá því að hann var kjörinn páfi 2013.
Ég var í þessu húsi 11. til 14. janúar og sagði frá því á þennan hátt hér á síðunni 17. janúar 1999:
„Í fyrrnefndri bók um Jóhannes Pál páfa II er sagt frá því að þannig hafi verið búið að kardínálunum haustið 1978, þegar þeir komu síðast saman til páfakjörs, að þeir hafi gist í klefum sem hafi verið innréttaðir til bráðabirgða í gömlum híbýlum Borgia-páfanna. Í hverjum klefa hafi verið beddi, náttborð og lítið skrifborð. Sameiginlegt baðherbergi hafi þjónað þeim.
Í Casa Santa Marta er aðstaðan allt önnur, þótt þar sé enginn íburður. Í tölvupósti hafði verið sagt að aðeins væri um eins manns herbergi að ræða, en þegar við Rut komum á staðinn hafði aukarúm verið flutt í rúmgott svefnherbergið, en framan við það var skrifstofa með tveimur stólum við allstórt skrifborð. Má því segja að hver kardínáli hafi nú litla íbúð með baði til ráðstöfunar. Sími er í íbúðinni en hvorki útvarp né sjónvarp. Þá virðast menn þurfa að fara út fyrir Vatíkanið, vilji þeir kaupa dagblöð, raunar sjást ekki neinar verslanir innan veggja þess.
Á fyrstu hæð Domus Sanctae Marta er stór borðsalur, þar sem nunnur með aðstoðarkonum ganga um beina. Á sömu hæð er einnig sameiginlegt sjónvarpsherbergi. Húsinu tilheyrir einstaklega falleg kapella, þar sem sungin var messa á hverjum morgni, á meðan við dvöldumst þar.
Kyrrðin er algjör í byggingunni og raunar næsta einkennilegt að hugsa til þess í þögninni, að rétt utan við múra Vatíkansins sé iðandi mannlíf og stöðugt umferðaröngþveiti stórborgar, sem er sprungin utan af sjálfri sér.
Okkur var einnig boðið að skoða Sixtinsku-kappelluna, sem var reist 1475 til 82 fyrir Sixtus IV páfa þar sem kardínálarnir koma saman til að greiða atkvæði um nýjan páfa undir málverki Michelangelo, Dómsdegi. Listaverkin í kapellunni hafa verið hreinsuð og er hún eins og annað í þeim hluta Vatíkansins meðal helstu dýrgripa mannkyns.
Til að komast frá Casa Santa Marta í kapelluna geta kardínálarnar gengið í prósessíu í gegnum anddyri Péturskirkjunnar. Aðrar leiðir hljóta einnig að vera á milli þessara bygginga, því að öryggisgæslan í kringum páfakjörið er mikil og rík áhersla lögð á þagmælsku og að engar aðrar fréttir berist af gjörðum kardínálanna en þær sem sjá má af reyknum úr Sixtínsku-kapellunni, svörtum, ef enginn hefur náð kjöri, annars hvítum, Jóhannes Páll páfi II fékk 99 atkvæði af 108.“