Ríkisstjórn Flokks fólksins
Hvort sem forsætisráðherra ræddi hæfni einstakra manna við Ingu eða ekki og hvað sem líður tali Ingu Sæland um að hún þurfi ekki að fara að lögum ber forsætisráðherrann ábyrgð á Ingu sem ráðherra.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Hafstein Dan Kristjánsson, lagaprófessor við HR sem hefur sérhæft sig í stjórnsýslumálum, um það hvernig Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og húsnæðismálaráðherra, stóð að skipan nýrrar stjórnar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um miðjan mars. Í fimm manna stjórn sitja nú fjórir karlmenn og ein kona. Jafnréttislög mæla fyrir um að a.m.k. tveir stjórnarmenn séu konur.
Lagaprófessorinn segir að af 28. gr. jafnréttislaga verði ekki séð að ráðherra geti vikið frá fyrirmælum laganna. Þá standist ekki sú viðbára Ingu Sæland að henni sé heimilt að nota undanþáguákvæði laganna til að réttlæta embættisverk sitt. „Lögin gera ekki ráð fyrir því að pólitísk sjónarmið eða markmið geti leitt til frávika frá jafnréttislögum,“ Hafsteinn Dan.
Inga Sæland starfar eins og aðrir ráðherrar á ábyrgð forsætisráðherra sem gerir tillögu um þá til setu í ráðuneyti sínu. Einn ráðherranna hefur þegar fallið fyrir borð og fer tvennum sögum af því hver var hlutur Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og ráðuneytis hennar í því máli. Meginvörn forsætisráðherra er að þeir sem biðji um fund með henni í síma eða á annan hátt njóti ekki trúnaðar varðandi fundarbeiðnina.
Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland (mynd: mbl/Eyþór).
Á alþingi mánudaginn 5. maí spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, forsætisráðherra hvort húsnæðismálaráðherra Inga Sæland þyrfti ekki að fara að lögum þegar hún skipaði stjórn HMS. Hvort jafnréttislögin giltu ekki fyrir alla. Hvort forsætisráðherra ætlaði á einhvern hátt að hlutast til um það að ráðin yrði bót á embættisverki Ingu Sæland eða hvort það væri „einfaldlega gert með samþykki“ Kristrúnar.
Forsætisráðherra svaraði með því að leita skjóls á gráa svæðinu. Hún hefði ekki verið „sú manneskja sem tók ákvörðun um þetta“. Hún hefði ekki rætt við Ingu „um nákvæmlega hvað lá þarna að baki“. Hún treysti hins vegar Ingu „til að meta það að um sé að ræða einstaklinga sem hún [vilji] meina að séu hæfir til að gegna þessu og séu ástæða þess að þetta hafi farið með þessum hætti“. Þess vegna sagðist Kristrún ekki sjá betur, miðað við þær upplýsingar sem hún hefði, en „að hér hafi lögum verið fylgt“. Hún hefði að minnsta kosti „ekki heyrt þau orð falla ef þau féllu hér [í þinginu] að Flokkur fólksins þyrfti ekki að fylgja lögum frekar en aðrir“.
Hvort sem forsætisráðherra ræddi hæfni einstakra manna við Ingu eða ekki og hvað sem líður tali Ingu Sæland um að hún þurfi ekki að fara að lögum ber forsætisráðherrann ábyrgð á Ingu sem ráðherra. Forsætisráðherra segist hafa upplýsingar um að Inga hafi ekki brotið lög. Hver upplýsti forsætisráðherra um það? Hvað gerir forsætisráðherra þegar hún les það sem hér er haft eftir lagaprófessor í HR? Hann er ekki í vafa um lögbrotið.
Kristrún Frostadóttir veitti Ásthildi Lóu Þórsdóttur ekki skjól í ríkisstjórn sinni af ótta við það sem kynni eða verða sagt í fréttum ríkisútvarpsins. Forsætisráðherra grípur hins vegar til varna fyrir Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, þegar fullyrt er að hún hafi brotið lög. Þeir sem njóta náðar forsætisráðherra í Flokki fólksins eru þeir sem ráða lífi ríkisstjórnarinnar.