2.5.2025 10:17

Mikil pólitísk veðrabrigði

Þetta eru mikil pólitísk veðrabrigði beggja vegna Atlantshafs sem við þurfum að líta til eins og annars sem hefur áhrif á okkar slóðum.

Upphrópanir sem heyrast um söguleg umskipti vegna viðburða á vettvangi stjórnmála eða öryggismála eru orðnar svo tíðar að menn leggja ekki lengur við hlustir. Við tökum því orðinu sem sjálfsögðum hlut að allt breytist hraðar í dag en í gær. Stundum er þó gott að gefa sér tíma til íhugunar.

Hver hefði trúað því fyrir rúmum hundrað dögum að Donald Trump afrekaði það sem Bandaríkjaforseti að kalla fram ákvarðanir um þingrof og kosningar í Grænlandi og Kanada til að bregðast við yfirgangi hans? Í báðum tilvikum sigruðu þeir sem fluttu varnaðarorð gegn yfirlýsingum og aðgerðum Trumps.

Screenshot-2025-05-02-at-10.14.16Friðriki Danakonungi var vel fagnað í Nuuk í vikunni eins og þessi mynd frá grænlenska útvarpimu. KNR, sýnir.

Nú er þess beðið hvað gerist næst í samskiptum þessara nágrannaríkja okkar í vestri. Samstaðan innan danska konungsríkisins hefur ekki verið meiri um langt árabil eins og sannaðist vel í heimsókn Friðriks Danakonungs til Grænlands nú í vikunni. Konungur var þar síðast í fyrra og heimsókn hans nú er aðeins til að sýna Trump og félögum við hvað er að glíma í samskiptum þeirra við Grænlendinga.

Trump ætlaði að senda JD Vance, varaforseta sinn, til Nuuk í lok mars. Þegar við blasti að komu hans í höfuðstað Grænlands yrði mótmælt flaug Vance til Pituffik (áður Thule) og ávarpaði bandaríska hermenn í geimvarnarstöðinni þar. Hann gat ekki setið á sér og skammaði Dani fyrir að vanrækja varnir Grænlands. Susannah Meyers, ofursti og yfirmaður stöðvarinnar, varð að taka pokann sinn eftir að hún sendi starfsmönnum sínum tölvubréf þar sem neikvæðni varaforsetans var milduð. Trump-stjórnin ætlaði ekki að sitja uppi með þá í herforingjastöðum sem andmæltu stefnu hennar.

Nú í dag (2. maí) segja breskir fjölmiðlar að í gær hafi orðið söguleg umskipti í breskum stjórnmálum þegar flokkur Nigels Farage, Umbótaflokkur UK – Reform UK – sigraði í aukakosningum í kjördæminu Runcorn and Helsby með aðeins sex atkvæðum yfir Verkamannaflokknum. Sjaldan hefur svo litlu munað í breskri kosningasögu.

Á vefsíðunni Telegraph segir að þessara úrslita kunni að verða minnst sem upphafs endaloka tveggja flokka kerfisins í breska þinginu.

Í fyrra sigraði frambjóðandi Verkamannaflokksins í Runcorn með 14.696 atkvæða meirihluta og var þetta 49. öruggasta sæti flokksins af þeim 411 sem hann tryggði sér árið 2024. Sveiflan frá Verkamannaflokknum til Umbótaflokksins mælist 17%.

Nigel Farage berst á svipuðum nótum og Trump þannig að þessi úrslit og framgangur Umbótaflokksins í sveitarstjórnakosningum í gær verða ekki túlkuð á sama veg og kosningaúrslitin í Kanada og Grænlandi með tilliti til trumpismans.

Sir Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins og forsætisráðherra, lét aldrei sjá sig í kosningabaráttunni í Runcorn. Hann forðaðist bein átök við Farage eins og leiðtogar Íhaldsflokksins gera. Talning atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum sýnir hroðalega útreið Íhaldsflokksins.

Þetta eru mikil pólitísk veðrabrigði beggja vegna Atlantshafs sem við þurfum að líta til eins og annars sem hefur áhrif á okkar slóðum.