30.4.2025 10:22

Upprifjun um hrunið í Kveik

Afglapaháttur þeirra sem að þessum njósnum stóðu vekur sérstaka undrun. Hann minnir á andrúmsloftið í þjóðlífinu á þessum árum, fyrir og eftir hrun, þegar skilin milli þess sem var löglegt og ólöglegt, siðlegt og ósiðlegt voru að engu höfð, hefðu menn efni á að fara sínu fram.

Í fréttaþættinum Kveik í ríkissjónvarpinu voru að kvöldi 29. apríl sýndar upptökur frá september til desember 2012 frá njósnafyrirtækinu PPP sf. Embætti saksóknarans vann þá að rannsóknum á hrunsmálunum svonefndu. Starfsmenn sem hættu hjá embætti sérstaks saksóknara í árslok 2011 áttu fyrirtækið PPP sf.

Þeir voru grunaðir um að hafa stolið gögnum frá embættinu áður en þeir hættu störfum. Kæra gegn þeim frá 2012 var felld niður af ríkissaksóknara.

Þessir tveir starfsmenn ásamt einum lögreglumanni á höfuðborgarsvæðinu tóku að sér einkaverkefni sem sagt er að Björgólfur Thor Björgólfsson, stærsti eigandi Landsbanka Íslands, hafi fjármagnað. Bankinn féll haustið 2008 og tapaði Björgólfur Thor þá stórfé eins og aðrir hlutahafar bankans.

Í maí 2024 var skýrt frá því að Björgólfur Thor hefði samþykkt að greiða hluthöfum gamla Landsbankans 1.050 milljónir króna í sáttargreiðslur, í máli sem málsóknarfélög hluthafa Landsbankans höfðuðu gegn honum.

Það voru Fiskveiðihlutafélagið Venus hf., Hvalur hf. og þrjú hópmálsóknarfélög hluthafa Landsbanka Íslands sem stóðu að málinu gegn Björgólfi Thor. Alls tóku um 270 einstaklingar og félög þátt í málssókninni. Félögin töldu hann hafa haldið upplýsingum um umsvifamiklar lánveitingar frá hluthöfum bankans, brotið yfirtökureglur og þar með skapað hluthöfum tjón.

1564238Samsett mynd mbl.is 

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, stjórnaði opinberum rannsóknum hrunsmálanna. Hann sagði við mbl.is að kvöldi 29. apríl: „Við teljum að það sem þarna er verið að lýsa [í Kveik] sé þvert gegn öllum gildum og siðferði innan lögreglunnar. Í okkar huga er þetta afar slæmt tilvik og erum í rauninni í hálfgerðu áfalli yfir þessu öllu.“

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu árið 2006 til 2014. Lögreglumaðurinn í liðinu sem kemur við sögu í Kveik var leystur frá störfum áður en þátturinn fór í loftið.

Einn þeirra sem sættu því í tæpa þrjá mánuði haustið 2012 að fylgst var með honum var Vilhjálmur Bjarnason sem sat á alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn 2013 til 2017 og hefur víða látið að sér kveða í íslensku fjármála- og menningarlífi.

Vilhjálmi var að vonum mjög brugðið þegar honum voru sýndar þessar gömlu upptökur þar sem ferðir hans voru nákvæmlega skráðar og jafnvel reynt að hlera hvað honum og viðmælendum hans fór á milli.

Tilgangurinn með því að fylgjast með Vilhjálmi virðist hafa verið að ná mynd af honum með Róberti Wessmann, fyrrv. samstarfsmanni Björgólfs Thor og síðar helsta keppinaut eða óvildarmanni í fjármála- og viðskiptaheiminum.

Björgólfur Thor samdi ekki við Róbert þegar hann gerði upp við hluthafa gamla Landsbankans.

Það sem hér er lýst er að sjálfsögðu með öllu ólíðandi og hafi lögbrot verið framin ber að refsa fyrir þau. Þetta er áfall fyrir lögregluna og heiður hennar.

Afglapaháttur þeirra sem að þessum njósnum stóðu vekur sérstaka undrun. Hann minnir á andrúmsloftið í þjóðlífinu á þessum árum, fyrir og eftir hrun, þegar skilin milli þess sem var löglegt og ólöglegt, siðlegt og ósiðlegt voru að engu höfð, hefðu menn efni á að fara sínu fram.