Dagbók: desember 2008

Mánudagur, 15. 12. 08. - 15.12.2008 22:43

Síðdegis hitti ég Ingva Hrafn Jónsson á sjónvarpsstöð hans og ræddi hann við mig í tæpar 40 mínútur í þætti sínum Hrafnaþingi. Hann spurði um stjórnarsamstarfið, Davíð, Evrópusambandið og hve lengi ég yrði ráðherra – sem sagt öll heitustu málin!

Þátturinn var sendur út á sjónvarpsstöðinni Inn kl. 20.00 í kvöld og verður þar síðan á 2ja tíma fresti þennan sólarhring og þá má einnig nálgast hann á vefsíðunni www.inntv.is – sjón er sögu ríkari.

Jón Bjarki Magnússon, fyrrverandi blaðamaður á DV, greinir frá því á vefritinu NEI í dag að Reynir Traustason, ritstjóri DV, hafi stöðvað birtingu greinar sem hann skrifaði um Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans í byrjun nóvember. Fréttin hafi snúist um, að Sigurjón væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá Landsbankanum. Yfirlýsing Jóns Bjarka hefst á þessum orðum:

„Ég finn mig knúinn, samvisku minnar vegna, að segja frá því að frétt sem ég skrifaði fyrir DV þann 6. nóvember síðastliðinn um Sigurjón Þ. Árnason fyrrverandi bankastjóra Landsbankans var stöðvuð. Þetta geri ég vegna þess að það er skylda mín gagnvart lesendum og fólkinu í landinu að upplýsa um slík mál. Ég hef reynt að sannfæra sjálfan mig í meira en mánuð um hið gagnstæða. Að best væri að gleyma þessu og þegja. Ég hef hinsvegar ekki gleymt þessu atviki, og ég get ekki þagað yfir því lengur. Ég tel það ekki vera ásættanlegt að einhverjir ónefndir aðilar úti í bæ geti stöðvað eðlilegan fréttaflutning. Ég get ekki gerst sekur um að vera þátttakandi í leynimakki og blekkingu í krafti auðvalds á þessum síðustu og verstu tímum.“

Lesa meira