2.12.2019 9:45

Heilsutengdar forvarnir eldra fólks.

Þegar kemur að heilsutengdum forvarnarúrræðum eldra fólks er óþarfi að finna upp hjólið. Það á að framkvæma í stað þess að halda áfram að tala.

Á alþingi hafa Ásmundur Friðriksson, Ólafur Þór Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Halldóra Mogensen, Hanna Katrín Friðriksson og Guðmundur Ingi Kristinsson flutt tillögu um að „fela heilbrigðisráðherra að gera úttekt á heilsutengdum forvarnaúrræðum eldra fólks með áherslu á líkams- og heilsurækt, daglega hreyfingu og bætt mataræði“. Vilja þingmennirnir að niðurstaða úttektarinnar liggi fyrir á haustþingi 2020.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars:

„Öldruðum, 67 ára og eldri, mun fjölga gífurlega á næstu árum. Samkvæmt spá Hagstofunnar má gera ráð fyrir um 61% aukningu í þessum aldurshópi næstu 15 árin. Þessi hópur fer því úr rúmlega 42 þúsund einstaklingum í 68 þúsund. Afleiðing þessarar fjölgunar er meðal annars mikil kostnaðaraukning á rekstri dvalar- og hjúkrunarheimila. Áætlaður kostnaður á einstakling á dvalar- og hjúkrunarheimilum er um 13–15 millj. kr. á ári og er áætlaður fjöldi eldri borgara sem eru inni á stofnun tæplega 3.500 manns. Heildarkostnaður vegna umönnunar þessara einstaklinga er því um 50 milljarðar kr. á ári. Verði ekki breyting á því kerfi sem við búum við má gera ráð fyrir því að þessi 61% aukning íbúa 67 ára og eldri verði til þess að kostnaðaraukningin verði um 31 milljarður kr. á næstu 10–15 árum. Kostnaðurinn verði því um 81 milljarður kr. um árið 2030. Hér er aðeins verið að tala um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila. Gera má ráð fyrir enn frekari kostnaðaraukningu við byggingu hjúkrunarheimila næstu árin komi ekki til nýjar leiðir að ódýrari þjónustu. Hætta er á að aðeins rekstur heimilanna gæti orðið til þess að knésetja heilbrigðiskerfið.

Fyrir utan þann mikla kostnaðarauka sem gera má ráð fyrir vegna dvalar- og hjúkrunarheimila á næstu árum eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á vinnumarkaði. Samkvæmt Hagstofunni voru tæplega sex einstaklingar á vinnumarkaði að baki einum einstaklingi 67 ára og eldri árið 2011. Eftir 10–15 ár má gera ráð fyrir að það verði aðeins um þrír einstaklingar að baki hverjum einstaklingi 67 ára og eldri og 2,7 árið 2051. Þessi þróun ýtir enn frekar undir nauðsyn þess að finna nýjar leiðir að uppbyggingu heilsu og velferðar landsmanna.“

Tai-chi2Með því að stunda qi gong efla menn jafnvægisskynið og minnka hættuna á að detta. Harvard-læknaháskólinn telur sund bestu alhliða æfinguna, tai chi/qi gong næstbestu, þá vöðvastyrkingu, í fjórða sæti er ganga og grindarbotnsæfingar í fimmta. Ekkert af þessu er flókið eða erfitt og krefst þess eins að menn gefi sér tíma – eins og til að hugleiða sem er allra meina bót.

Sem dæmi um fjárhagslegan ávinning samfélagsins af heilsueflingu er nefnt „ef seinkað er innlögn 500 einstaklinga á dvalar- og hjúkrunarheimili um aðeins eitt ár er sparnaðurinn fyrir hið opinbera, sér í lagi ríkið en einnig sveitarfélög, um 6,5 milljarðar kr.“

Til heilsueflingar af þessu tagi þarf ekki að finna upp hjólið heldur nýta það sem er fyrir hendi. Hvers vegna það er ekki gert nú þegar á markvissan hátt er óskiljanlegt.

Í þessu efni er fyrir löngu tímabært að framkvæma í stað þess að tala. Tíminn verður dýrmætari eftir því sem árunum fjölgar.