27.5.2019 7:33

„Allt þeirra ólán er öðrum að kenna“

Álitsgjafar Fréttablaðsins hafa skoðun á framgöngu miðflokksmanna og kveður þar við annan tón en í Morgunblaðinu.

Miðflokksmenn boða að þeir ætli að halda málþófi sínu vegna þriðja orkupakkans áfram á alþingi í dag (27. maí). Morgunblaðið upplýsir að í raun snúist þetta allt um sviðsmynd vegna fjórða orkupakkans!

Álitsgjafar Fréttablaðsins hafa skoðun á framgöngu miðflokksmanna og kveður þar við annan tón en í Morgunblaðinu.

Óttar Guðmundsson segir í bakþönkum Fréttablaðinu laugardaginn 25. maí:

„Nú berast hins vegar fréttir frá Alþingi um óvenju snjalla ræðumennsku. Þingmenn Miðflokksins hafa á undanförnum sólarhringum talað þindarlaust og oft blaðlaust á Alþingi um þriðja orkupakkann. Þessir menn höfðu áður í hinu svokallaða Klausturmáli vakið athygli fyrir kjarnyrta og snjalla málnotkun. Á löngum næturfundum Alþingis virðast þeir innblásnir af heilögum anda eldklerksins.

Því miður virðist þessi mikla snilld vera að ganga yfir eins og rigningarskúr sem enginn tekur eftir. Miðflokksmenn hafa haldið eldræður sínar fyrir galtómum þingsal. Skorinorður og meitlaður málflutningur hefur svifið út í tómið án þess að nokkurt mannlegt eyra næmi snilldina.

Það er krafa allra landsmanna að ræðurnar verði gefnar út á prenti og sem hljóðbækur sem námsefni í skólum. Æska landsins þarf að læra að koma fyrir sig orði og nota íslenskuna eins og hún á skilið. Brottfallið úr skólunum mundi kannski aukast en það skiptir engu í þessu samhengi. Með hljóðbókunum mætti bæta svefn landsmanna og minnka sívaxandi svefnlyfjanotkun. Þessar bækur mætti nota í íslenskukennslu fyrir útlendinga til að minnka straum hælisleitenda til landsins. Hljóðbækurnar eru tilvalin tækifærisgjöf til Íslendinga í útlöndum. Þessi sögulegu menningarverðmæti mega ekki glatast.“

Althingi-framanKolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins mánudaginn 27. maí:

„Þjóðin á vitanlega í nokkrum erfiðleikum með að skilja hvernig það megi vera að þingmenn eins flokks geti lagt undir sig þinghúsið, tekið forseta þings og starfsmenn í gíslingu og breitt úr sér um nætur og fram á morgun. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur höfðað til samvisku þingmanna Miðflokksins. Steingrímur á að vita að á þeim bæ eru menn ekki mikið gefnir fyrir að líta í eigin barm og því ansi ólíklegir til að fá samviskubit vegna gjörða sinna. Þetta kom berlega í ljós þegar einn þingmaður Miðflokksins sagðist vera miður sín vegna þess álags sem næturfundirnir sköpuðu starfsfólki þingsins og kenndi forseta Alþingis um þá stöðu. Enn sem fyrr verður það ekki haft af þingmönnum Miðflokksins að þeir sýna óbilandi staðfestu í því að kasta frá sér ábyrgð á gjörðum sínum. Allt þeirra ólán er öðrum að kenna.“