23.5.2019 9:40

Þvermóðskan verður May að falli

Undanfarnar nætur hefur pólitísk þráhyggja í ætt við þvermóðsku May birst í málþófi miðflokksmanna á alþingi.

Í leiðara The Daily Telegraph (DT), þungavigtarblaði fyrir Íhaldsflokkinn, segir í dag (23.maí) um stjórnartíð Theresu May: „It‘s over.“ – þessu er lokið. May fái ekki lengur samþykki fyrir mikilvægri löggjöf, nýjasta tillaga hennar um skilnaðarsamning við ESB liggi dauð; þingflokki hennar sé nóg boðið; ráðherrar vilji funda til að ræða framtíð hennar.

Britain-eu-brexit-politicsTheresa May.

Alls hefur 21 ráðherra sagt skilið við ríkisstjórn May vegna ágreinings um brexit, úrsögn Breta úr ESB. Síðasta afsögnin kom frá Andreu Leadsom, ráðherra þingmála. Hún sagði May boða tillögu sem tæki ekki fullt tillit til fullveldis Breta auk þess sem stjórnferlið í tengslum við ríkisstjórnina væri í molum.

Bretar kjósa í dag til ESB-þingsins og segir DT að unnt sé að sjá atkvæði sem annars yrðu greidd Íhaldsflokknum hverfa eins og ryk í roki hverja mínútu sem May situr lengur í embætti sínu. Varnir hennar séu fráleitar. Hún neiti einfaldlega að hitta ráðherra í hennar eigin stjórn, væntanlega vegna þess að í samtalinu mundu þeir hvetja hana til að segja af sér.

Þetta þolgæði hafi May því miður ekki sýnt ESB, hún hafi einfaldlega sagt við viðmælendur sína í Brussel að þeir fengju allt sem þeir vildu. Eftir að ESB-menn fengu það hóf hún allt í einu að herja á aðra, fyrst innan ríkisstjórnarinnar og síðan í þinginu.

Hún hafi strax í desember 2018 vitað að niðurstaðan sem hún fékk í Brussel naut ekki stuðnings meirihluta þingmanna, samt hafi hún allt til 22. maí ríghaldið í hana og krafist enn einnar atkvæðagreiðslu um hana. Þegar hún gerði það í þinginu hafi grænu bekkirnir í neðri málstofunni verið hálf-tómir og sé það til marks um dvínandi fylgi hennar og virðingu meðal þingmanna og hollustu.

Undanfarnar nætur hefur pólitísk þráhyggja í ætt við þvermóðsku May birst í málþófi miðflokksmanna á alþingi. Þeir lúta stjórn foringja sem er haldinn sama kvilla og May, að átta sig ekki á eigin takmörkunum og dómgreindarleysi um eigin málflutning.

Þingflokkur framsóknarmanna setti Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra vorið 2016 vegna trúnaðarbrests. Síðar var honum hafnað í formannskjöri. Þá stofnaði hann eigin flokk sem hann leiðir nú í eyðimerkurgöngu gegn þriðja orkupakkanum. Þingmenn flokksins hafa flutt mörg hundruð ræður hver yfir öðrum til að lúta skipun flokksformannsins. Hvað láta þeir bjóða sér þessa vitleysu lengi? Að vega að eigin trúverðugleika er nákvæmlega það sem þingmenn breska Íhaldsflokksins vilja ekki, þess vegna verður May að víkja. Verður Sigmundur Davíð gerður brottrækur úr flokknum sem hann stofnaði sjálfum sér til dýrðar?