Dagbók: desember 2008

Miðvikudagur, 24. 12. 08. - 24.12.2008 15:35

Gleðileg jól!

Á vefsíðunni Bloomberg.com birtist í gær, Þorláksmessu, frásögn af ástandinu á Íslandi undir fyrirsögninni: Iceland 'Like Chernobyl' as Meltdown Shows Anger Can Boil Over. Vísanin til Tjsernóbíl-kjarnorkuslyssins 26. apríl, 1986 er höfð eftir Þórhalli Vilhjálmssyni, markaðsstjóra, sem sagði við fréttamanninn Ben Holland, sem búsettur er í Istanbúl: „Ísland er núna eins og Tsjernóbíl eftir sprenginguna. Allt virðist eðlilegt en það er geislavirkni.“

Á mbl.is var þetta sagt í tilefni af þessari frétt á Bloomberg.com:

„Versta kjarnorkuslys sögunnar varð í kjarnorkuverinu í Chernobyl þegar sprenging varð þar árið 1986. Að minnsta kosti átta þúsund manns létust í sprengingunni og eftirköstum hennar. “

Hvaðan mbl.is hefur töluna 8000 um mannfallið eftir kjarnorkuslysið, kemur ekki fram. Í skýrslu nefndar á vegum Sameinuðu þjóðannar, UNSCEAR-skýslunni frá 2001 segir, að rekja megi dauða 30 manns til kjarnorkuslyssins. Hafa frásagnir af hörmungum vegna þess verið taldar meðal mestu blekkinga 20. aldarinnar.

Frásögnin á Bloomberg.com sver sig í ætt við þá blaðamennsku, sem tengir Ísland heimi álfa, trölla og galdra, enda er galdranornin Eva Hauksdóttir meðal viðmælenda Bens Hollands. Þar kemur einnig  við sögu hinn sígldi herstöðvaandstæðingur, Stefán Pálsson. Hann undrast, að „ordinary people“ - ósköp venjulegt fólk - skuli ekki fjargviðrast yfir aðgerðasinnum í hópi mótmælenda, og Stefán telur réttmætt að ráðast á lögreglustöðina.

Gunnlaugur Guðmundsson, stjörnuspámaður, séra Birgir Ásgeirsson, prestur í Hallgrímskirkju. og Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor eru nefndir í veffréttinni.

Frásögnin er ekki beint til þess fallin að koma neinum í jólaskap. Hún er enn eitt dæmi um það, sem sagt er um land og þjóð vegna bankahrunsins. Sé hins vegar ekki meira að marka inntakið en allt, sem sagt var og átti ekki við rök að styðjast eftir Tsjernóbíl-slysið, er stærsta spurningin, hvort nokkru sinni tekst að koma hinu sanna og rétta á framfæri um Ísland og Íslendinga - eða hvort bankahrunið hvíli eins og illt ský yfir landi og þjóð, eftir að birtir að nýju.

Látum ekki skugga þessara atburða spilla þeim boðskap birtu og trúar, sem jólin flytja okkur!