3.2.2006 9:57

Föstudagur, 03. 02. 06.

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun lagði ég fram frumvarp til breytinga á lögreglulögunum. Frumvarpið snýst að meginefni um stækkun lögregluumdæma og nýskipan þeirra. Í frumvarpinu er einnig ákvæði um, að við embætti ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra starfi greiningardeildir til að meta áhættu og sinna greiningu á því, sem tengist alþjóðlegri eða skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi. Með þessu er að því stefnt, að íslenska lögreglan ráði yfir svipuðum tækjum og lögheimildum og lögregla í nágrannaríkjunum, auk þess sem þetta lýtur að sérstökum rannsóknaraðferðum lögreglu, en þær hafa til dæmis verið skilgreindar af Evrópuráðinu og heimildir til þeirra eru í lögum um réttarfar við meðferð sakamála, en endurskoðun þeirra laga er á lokastigi hér.

Ég heyrði, að í fréttum hljóðvarps ríkisins var vitnað til ræðu minnar á fundi sýslumanna í Vestmannaeyjum til að skýra þetta ákvæði og tengja það umræðum um öryggislögreglu eða leyniþjónustu. Skýringar af þessu tagi er ekki að finna í frumvarpi mínu og byggjast á hugarsmíð viðkomandi fréttamanns.

Á fundi ríkisstjórnarinnar gerði Geir H. Haarde utanríkisráðherra grein fyrir viðræðum sínum við utanríkisráðherra og aðstoðarráðherra í Bandaríkjastjórn í Washington daginn áður. Nú hefur verið skýrt frá því, að af hálfu ríkisstjórnar Íslands hafi verið lagt til, að Íslendingar taki rekstur Keflavíkurflugvallar og leitar- og björgunarþjónustu í sínar hendur. Þessari viðræðulotu embættismanna ríkjanna lauk síðdegis í dag í Washington og verður þeim fram haldið síðar.

Viðræðurnar staðfesta enn og aftur, að hvorug ríkisstjórnin vill binda enda á varnarsamstarfið eða rifta varnarsamningnum. Báðar vilja þær finna leiðir til samstarfs við þær aðstæður, sem nú ríkja í heimsmálum.

Í hádeginu sat ég fund miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins, en í fyrsta sinn í sögu flokksins gerðist það á þessum fundi, að hann sátu fleiri konur en karlar.

Sveinn Helgason á Morgunvakt rásar 1 á hljóðvarpi ríkisins ræddi í morgun við Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs. Ég ætla að halda hér til haga kafla samtalsins.

 

Sveinn Helgason: En þú ert eiginlega að tala um að það sé friðvænlegra og betra andrúmsloft núna fyrir þessa fjölmiðla (Baugsmiðlana) núna þegar Davíð Oddsson er farinn frá, þegar hann er hættur.

Jón Ásgeir Jóhannesson: Ja það er alveg ljóst að fjölmiðlar hafi, voru undir mikilli orrahríð frá þeim einstaklingi sem var mjög bagalegt, það er mjög bagalegt að hópur blaðamanna sé kallaður bara, hann bara stjórnist frá skoðunum eigenda. Einn og einn stjórnmálamaður, sem að er nú mjög sorglegt, eru ennþá að uppnefna starfsfólk þessara miðla og kalla þetta Baugsmiðla og ég veit ekki hvað og hvað. Mér finnst það svona bara hreinlega lélegt af þeim einstaklingum að halda því fram af því að þarna er náttúrlega stór hópur blaða- og fréttamanna, hátt á þriðja hundrað manns, og halda því svo fram að þeir stjórnist á einhverjum skipunum frá eigendum er náttúrlega alveg út í hróa hött.

Vegna þessara orða er enn ástæða til að lýsa undrun yfir því, að sjálfur forstjóri Baugs skuli telja það skammaryrði að tala um Baugsmiðla - engir hafa lagt sig meira fram um að tala um þetta sem skammaryrði en eigendur og forráðamenn Baugs. Síðan nota þeir þennan heimakokkaða graut sem árásarefni á þá, sem nota orðið! Er það uppnefni á starfsfólki að tala um Baugsmiðla? Í raun er ekki heil brú í þessum málflutningi, frekar en þeirri fullyrðíngu Jóns Ásgeirs, „að saksóknari skuli vera að vinna í því að reyna að tefja (Baugs)málið.“

Sveinn: Þú hélst því fram að og hefur haldið því fram að Björn Bjarnason hafi verið vanhæfur til að skipa sérstakan saksóknara í málið. Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu. Hafðirðu þá ekki bara einfaldlega rangt fyrir þér?

Jón Ásgeir: Nei, nei, ég tel ennþá að hann hafi verið vanhæfur og ég tel mjög sérstakt ef maður bara skoðar skrif hans í gegnum tíðina hvernig hann hefur beitt sínum penna gagnvart okkur persónulega og fyrirtækjum okkar að þá sér hver maður að hann er ekki hæfur til þess að vera að skipa saksóknara í þessu máli.

Þessi afstaða Jóns Ásgeirs kallast að berja hausnum við steininn og neita að horfast í augu við staðreyndir. Og hvar finnur Jón Ásgeir þeim orðum sínum stað, að ég hafi veist að honum persónulega? Hitt er sanni nær, að ásökun af þessu tagi eigi við um hann og Jóhannes, föður hans. Jóhannes nefndi mig til dæmis „skúrk ársins“ þegar hann var í hátíðarskapi í áramótablaði DV. Ég hef ekki verið að elta ólar við þessa ágætu menn persónulega, en áskil mér enn og aftur rétt til að lýsa skoðunum á fyrirtækjum þeirra eins og öðrum þáttum í íslensku þjóðlífi. Þeir hafa kosið að eiga aðild að þjóðmálaumræðum með því að halda úti öflugu fjölmiðlafyrirtæki og verða sætta sig við umræður um það.