25.10.2017

Vinstri grænir snúast gegn þjóðarörygisstefnunni

Morgunblaðsgrein miðvikudag 25. október 2017

Í kosningastefnu sinni snúast vinstri grænir (VG) gegn þjóðaröryggisstefnunni sem mótuð hefur verið á alþingi með ályktun á grundvelli samkomulags allra flokka. Í stefnu VG segir: 

„Ísland segi sig úr Atlantshafsbandalaginu (NATO) og biðjist afsökunar á þátttöku sinni í hernaðaraðgerðum á þeirra vegum.“

Með þessari stefnu skipar VG sér yst til vinstri, við hlið Die Linke í Þýskalandi. Flokksins sem heldur enn fast í þá skoðun austur-þýskra kommúnista að aðeins sé unnt að tryggja frið í heiminum með því að leggjast gegn NATO og Bandaríkjunum. 

Í íslensku þjóðaröryggisstefnunni eru aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin stoðirnar undir ytra öryggi þjóðarinnar.

Með kosningastefnu sinni snýst VG gegn þessari stefnu án þess að benda á nokkurn annan kost. Flokkurinn sýnir algjört ábyrgðarleysi í öryggismálum þjóðarinnar við aðstæður á Norður-Atlantshafi og Eystrasalti sem kalla á að unnt sé að treysta á þátttöku Íslendinga í sameiginlegu öryggiskerfi sem tengir þjóðirnar beggja vegna Atlantshafs.

Forsætisráðherra Íslands er formaður þjóðaröryggisráðs sem ber að tryggja samstöðu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar. 

Við blasir að kosningarnar laugardaginn 28. október kunna að leiða til þess að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, verði forsætisráðherra í ríkisstjórn VG, Samfylkingar og Pírata.

Ástæða er til að vara kjósendur við slíkri vinstri stjórn og afleiðingunum á sviði utanríkis- og öryggismála. Öryggi Íslands yrði stefnt í voða og uppnám yrði meðal friðsamra nágranna okkar, einkum á Norðurlöndunum og við Eystrasalt.