Vinnsluleyfi á hafsbotni
Morgunblaðið, laugardagur 9. ágúst 2025.
Kenningin um að smáríki þurfi skjól í heimi hnattvæðingar hefur vissulega nokkra skírskotun. Innan ESB yrði slíkt skjól fyrir Ísland ekki vernd heldur yfirþyrmandi umgjörð.
Kvartanir undan regluverki EES-samningsins sýna það sem í vændum væri með ESB-aðild. Þyki EES-regluverkið þungbært myndi ESB-aðild leiða til þess að stór hluti lagasetningar og stjórnsýslu flyttist einfaldlega frá Reykjavík til Brussel. Lítið íslenskt stjórnkerfi kiknaði undan flækjustigi og umfangi þess regluverks sem leiðir af aðild að ESB.
Freistingin til að láta mál alfarið ráðast á vettvangi ESB yrði mikil. Austurrískur stjórnarerindreki lýsti henni fyrir mér í Brussel fyrir mörgum árum. Hann sagði að heima fyrir þætti stjórnmálamönnum og embættismönnum þægilegt að óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir birtust sem tilskipanir frá ESB – þær væru innleiddar umræðulaust í Vínarborg eins og annars staðar.
Hér á landi er aðild að þessu kerfi réttlætt með því að hún veiti „sæti við borðið“. Raunveruleikinn er sá að Íslendingar hefðu lítil sem engin áhrif við þetta borð – aðeins skyldu til að gleypa allt sem þaðan kæmi.
Við hefðum framselt vald til yfirþjóðlegra meginlandsstofnana sem hafa enga reynslu eða þekkingu á viðfangsefnum fámennrar eyþjóðar í Norður-Atlantshafi.
Tökum dæmi: íslensk stjórnmál hafa reglulega logað vegna ágreinings um hvalveiðar. Með inngöngu í ESB hyrfu hvalamál af pólitískum vettvangi – ekki í sátt, heldur vegna þess að ESB er andvígt veiðunum. Dettur nokkrum í hug að íslenskir diplómatar undir forystu atvinnuvegaráðherra myndu leggja fram kröfu um varanlega eða tímabundna undanþágu fyrir hvalveiðar í ESB-aðlögunarviðræðum?
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis- og orkumálaráðherra, hefur lýst sig hlynntan aðild að ESB – og um leið jákvæðan gagnvart olíu- og gasleit á íslenska landgrunninu. Með aðild að ESB yrði ráðherrann bundinn af svo ströngum reglum um leit og nýtingu orkulinda á hafi úti að hann hefði ekkert um málið að segja. Að ætla að fá undanþágu á þessu sviði er óraunhæft.
Enn strangari eru reglur sambandsins um námuvinnslu á hafsbotni – þar gildir bann.
Í september 2024 skilaði Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóri evrunnar og forsætisráðherra Ítalíu, 393 blaðsíðna skýrslu til Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, um samkeppnishæfni Evrópu.
Í skýrslunni er ESB meðal annars hvatt til að kanna kosti þess að heimila „umhverfislega sjálfbæra“ námuvinnslu á djúpsjávarbotni. Á hafsbotni megi finna kopar, mangan, nikkel, kóbolt, títan og fáséð jarðefni í meira magni en finnist á landi.
Draghi leggur ekki til að tafarlaust sé gefin heimild til leitar og vinnslu. Hann segir hins vegar að jarðefni á hafsbotni beri að skoða sem nýtanlega auðlind til að stuðla að vexti og samkeppnishæfi Evrópu og þess vegna sé þörf á að rannsaka hafdjúpin betur.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Sextán evrópsk umhverfisverndarsamtök sendu von der Leyen harðort bréf þar sem þessi áform um námuvinnslu voru fordæmd sem úrelt og skaðleg. Framkvæmdastjórnin ítrekaði strax í október 2024 þá afstöðu sína, sem fyrst var kynnt árið 2022, að öll námuvinnsla á úthafinu væri bönnuð þar til vísindalegri óvissu hefði verið eytt og skaðleysi vegna vinnslu tryggt.
Með þessu setur ESB sig í sérstaka stöðu gagnvart Bandaríkjunum og Kína.
Kínverjar stunda djúpsjávarrannsóknir utan eigin lögsögu og ætla ekki að tapa forystu sinni í málm- og jarðefnaöflun. Í febrúar 2025 tilkynntu yfirvöld á Cook-eyjum í Suður-Kyrrahafi að þau hefðu gert fimm ára samning við Kínverja um að þeir rannsökuðu hvort finna mætti nýtanleg jarðefni á hafsbotni í eyjaklasanum. Í samningnum felst ekki vinnsluleyfi en til þess kann að koma.
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, gaf 24. apríl 2025 út tilskipun um heimild til námuvinnslu á hafsbotni, bæði innan efnahagslögsögu Bandaríkjanna og á alþjóðlegum svæðum. Bandaríkjamenn ættu að verða leiðandi í heiminum við vinnslu steinefna á og í hafsbotni, sérstaklega kóbalts, nikkels, mangans, kopars, títaníums og fáséðra jarðefna. Þetta væri þjóðaröryggismál, tryggja yrði nægt aðgengi að þessum efnum.
Þótt umhverfissinnar fordæmi þessa ákvörðun forsetans og hóti málaferlum búa fyrirtæki sig undir að sækja um leyfi. NOAA, bandarísk stofnun sem veitir slík leyfi og hefur eftirlit, vinnur nú að verklagsreglum á grunni bandarískra laga og alþjóðlegra skuldbindinga.
Á Íslandi hefur einnig verið vakin athygli á málminum mangan. Sigurður Steinþórsson, prófessor emeritus, sagði árið 2004 á Vísindavef HÍ að rannsóknir á Reykjaneshrygg sýndu að mangan hefði sest þar í móbergsset en ekki myndað kúlur (hnyðlinga) eins og víðast annars staðar. Árin 1990 og aftur 1991 voru gerðar leiðangursrannsóknir á svæðinu. Áður hafði mangangrýti komið í vörpu togara um 75 km sunnar á hryggnum.
Í mars 2025 samþykkti landgrunnsnefnd SÞ að íslensk yfirráð næðu 570 mílur suður á Reykjaneshrygg. Spurningin er þessi: Ætlum við að horfa til regluverksins í Brussel eða sóknarkraftsins í Washington vegna rannsókna og nýtingar náttúruauðlinda þarna og á öðrum mikilvægum hafsvæðum í íslenskri lögsögu? Frekari rannsókna er vissulega þörf.
Fullveldisréttindi og forræði Íslands yfir risastóru landgrunni, 1,2 milljón ferkm, eru tryggð. Íslensk stjórnvöld ákveða nú ráðstöfun auðlinda þar. Með aðild að Evrópusambandinu hyrfi forræðið undir skrifræði og í skjól Brusselmanna.