6.11.2025

Viðurstyggilegt morðæði

Morgunblaðið, fimmtudagur 6. nóvember 2025.

Helförin – Í nýju ljósi ★★★★★ Eftir Laurence Rees. Jóns Þ. Þór þýddi. Ugla, 2025. Innb. 466 bls., ljósmyndir.

Það er ógnvekjandi varðandi stöðu heimsmála að við lestur bókarinnar Helförin – Í nýju ljósi eftir Laurence Rees hvarflar hugurinn oft að því sem nú ber hæst. Í bókinni er af köldu raunsæi lýst viðurstyggilegri framgöngu þeirra sem framkvæmdu útrýmingarstefnuna, Helför nasista Hitlers gegn gyðingum.

Rees segir í eftirmála að ekki megi taka morðin á gyðingum úr samhengi við löngun nasista til að ofsækja og drepa mikinn fjölda annars fólks, til að mynda fatlaða í líknardrápsaðgerðum eða milljónir Slava með því að svelta þá viljandi til bana. Samhliða Helförinni hafi nasistar auk þess lagt á ráðin um aðra víðtæka morðáætlun – Allsherjaráætlunina um austurveg sem náði til morða á tugum milljóna manna, hefðu þeir lagt undir sig Sovétríkin.

Byggð á miklum rannsóknum

Laurence Rees (f. 1957) er breskur sagnfræðingur, rithöfundur og höfundur heimildamynda og -þátta. Hann er þekktur fyrir verk sín um seinni heimsstyrjöldina og alræðisstjórnir 20. aldar, einkum nasisma og kommúnisma. Verk hans eru reist á víðtækum viðtölum við lifendur og gerendur og þar er lögð áhersla á mannleg og siðferðileg sjónarhorn sögunnar. Segist Rees nota undirtitilinn Í nýju ljósi vegna þess að flestir vitnisburðir þeirra sem lifðu atburðina hafi aldrei birst áður.

Bókina The Holocaust: A New History (2017) ritaði hann eftir rannsóknir í aldarfjórðung og hundruð viðtala sem hann tók fyrir heimildamyndir sínar. Þar sameinar hann nýjar fræðilegar niðurstöður og persónulegar frásagnir í heildstæða lýsingu á þróun Helfararinnar – frá gyðingahatri 19. aldar til kerfisbundinnar útrýmingar nasista í stríðinu. Rees spyr nokkrum sinnum í frásögninni hvort unnt sé að miða við einhvern einn einstakan atburð eða einstakt óhæfuverk og segja að þá hafi Helförin hafist. Niðurstaða hans er að hvað sem leið takmarkalausu hatri Adolfs Hitlers á gyðingum hafi ákvarðanir um útrýmingu þeirra og aðferðina við hana þróast stig af stigi og í áföngum. Það hafi ekki verið samin skipulögð útrýmingaráætlun heldur beri að lýsa förinni sem ferli þar sem hugmyndafræði, stjórnsýsla og stríðsaðstæður runnu saman. Þá réðst framkvæmd óhæfuverkanna af því hver stjórnaði þeim á hverjum stað hvort sem um fangabúðir, svæði eða lönd var að ræða.

Jón Þ. Þór, prófessor emeritus og doktor í sagnfræði frá háskólanum í Gautaborg, þýðir bókina hnökralaust á íslensku. Textinn snýr að mannlífi í Þýskalandi, stjórnmálum, hernaði og síðast en ekki síst lýsingum á morðæðinu og drápsvélinni sem þróuð var til að ná markmiði nasista um útrýmingu. Þýðandinn kemur þessu öllu til skila á kjarngóðu máli þótt viðfangsefnið sé oft svo hatursfullt og grimmdarlegt að erfitt sé að lýsa því í orðum.

Ae1c745c-63d9-4562-918e-e0c7a832f9e2

Hreinleiki þýsks blóðs

Óhjákvæmilegt er að nota þýsku orðin Volk (þjóð) og völkisch til að skýra hugmyndafræði nasista. „Völkisch-ríki“ þýddi að ríkisvaldið hafði lögformlegan rétt til að skipta sér af lífi allra landsmanna. Nasistar gátu spurt spurninga um smæstu atriði í ættum fólks til að ákveða hver mætti eða mætti ekki giftast hverjum og meta hvort fólki væri „heimilt“ að eignast afkomendur, eftir því af hvaða kynþætti þeir væru. Þeir sem neituðu að vinna voru sagðir „vinnufælnir“ og þá mátti hneppa í „verndarvarðhald“ (107).

Þetta skipti máli varðandi varðveislu „hreinleika þýsks blóðs“ sem sagt var „forsenda“ fyrir „áframhaldandi tilvist þýsku þjóðarinnar“ (97).

Heinrich Himmler, lögreglustjóri í Bæjaralandi og yfirmaður SS, sagði tilganginn með „verndarvarðhaldi“ tvíþættan, almenningur væri „verndaður“ fyrir þeim sem nasistar handtóku og hinir handteknu væru „verndaðir“ fyrir öðru fólki (77).

Himmler valdi sjálfur staðinn fyrir fyrstu fangabúðirnar sem opnaðar voru í Bæjaralandi 22. mars árið 1933 til að tryggja „öryggi“ fanganna undir „vernd“ SS – þær voru í Dachau skammt fyrir sunnan München, nafn staðarins átti síðar eftir að verða illræmt (78).

Það var ekki aðeins að Helförin þróaðist stig af stigi eftir að drápsvélin fór af stað heldur náðu nasistar einnig tökum á þýsku þjóðinni stig af stigi. Fjölþátta aðferðum var beitt til að festa hana í alræðis- og hernaðarfjötra. Höfuðpaurinn, Hitler sjálfur, lét lítið á sjálfum sér brotna en hélt samt öllum í heljargreipum.

Bókin skiptist í átján kafla sem skrifaðir eru í tímaröð. Fyrsti kaflinn, Rætur hatursins, er ótímasettur en sá næsti, Upphaf nasistaflokksins, nær til áranna 1919-1923 og heiti 18. kaflans er: Morð uns yfir lauk (1944-1945). Í bókinni er formáli og eftirmáli auk þakka, tilvísana í heimildir og nafnaskrár. Hún er vel úr garði gerð með þremur ljósmyndaörkum.

Blekkingarleikurinn í kringum gasklefahús og bálstofur var svo markviss að þeir sem stigu úr lestum á gervibrautarstöðvum héldu að þeir væru í friðsælu sveitaþorpi, á bak við leikmyndina beið þó dauðinn. Allt var gert til að skapa sem mesta ró af ótta við að annars yrði múgæsing gegn SS-mönnunum. Markmiðið var að það þyrfti sem fæsta menn til að drepa sem flesta. Lagt var höfuðkapp á að þróa tækni og tól til þess.

Skipulögð útrýming

Skammt frá Berlín má skoða húsið við Wannsee þar sem ráðstefna var haldin 20. janúar 1942. Hún er almennt talin mikilvægasti fundur í sögu Helfararinnar. Rees segir á hinn bóginn rangt að telja söguna hafa gerst þannig að ein ráðstefna hafi ráðið henni. Wannsee hafi aðeins verið einn áfangi á leiðinni.

Reinhard Heydrich (1904-1942), einn áhrifamesti og grimmasti leiðtogi nasista, háttettur í SS og yfirmaður öryggislögreglunnar (Sicherheitsdienst, SD), boðaði til fundarins og stýrði honum. Hann sátu 15 karlar, SS-foringjar, ráðuneytisstjórar og embættismenn sem málið varðaði og ræddu skipulag á útrýmingu gyðinga. Adolf Eichmann skráði fundargerð og fannst hún eftir að styrjöldinni lauk. Þótt hún „væri viljandi skrifuð með veigrunarorðum og loðnu málfari gefur hún engu að síður góða mynd af hugsunarhætti háttsettra manna sem tóku þátt í að skipuleggja lokalausnina“ (248). Er efni hennar rakið í bókinni. Í lok lýsingar á fundinum segir Rees að þótt engin þáttaskil hafi þar orðið sé „samt eitthvað við Wannseeráðstefnuna sem gefur henni gríðarlegt tilfinningalegt vægi. Það er örugglega þetta: Þeir sem sátu ráðstefnuna voru ekki brjálaðir. Þeir voru ekki vitfirrtir. Þeir voru allir menn sem hafði vegnað vel og gegndu erfiðum og ábyrgðarmiklum störfum. Flestir þeirra voru hámenntaðir. Átta af þeim fimmtán sem sátu við ráðstefnuborðið í Wannsee höfðu doktorsgráðu. Þeir ræddu útrýmingu gyðinga í fallegu og líflegu umhverfi … Húsið sem þeir voru í var glæsileg villa með svölum sem vissu út að vatninu – einum fegursta og vinsælasta stað Berlínarbúa (251-252).“

Þarna er vikið að grundvallaratriði: Hvernig var unnt að breyta venjulegu fólki í þær morðóðu ófreskjur sem lýst er með átakanlegum frásögnum fórnarlamba?

Bókin hefur hlotið mikið lof sérfróðra um stríðið og örlög gyðinga fyrir skýra frásögn, víðtæka heimildavinnu og siðferðilega dýpt og er talin ein aðgengilegasta og áreiðanlegasta samantekt um Helförina sem skrifuð hefur verið á ensku. Það er fagnaðarefni að hún skuli nú komin út á íslensku í góðri þýðingu og umgjörð.