27.9.2025

Viðreisn gætir eigin hagsmuna

Morgunblaðið, laugardagur, 27. september 2025

Viðreisn efndi til landsþings fyrir viku. Í formannskosningu greiddu 164 atkvæði og kusu allir nema tveir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann flokksins á ný. Embættinu hefur hún gegnt frá árinu 2017 þegar frumkvöðull að flokknum, Benedikt Jóhannesson, dró sig í hlé.

Bæði voru þau áður í Sjálfstæðisflokknum en hafa sótt að honum í Viðreisn frá árinu 2016, að frádregnum nokkrum mánuðum árið 2017 þegar þau voru í stjórn með sjálfstæðismönnum undir forsæti Bjarna Benediktssonar.

Viðreisnarfólkið klauf Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að á landsfundi hans lutu þau í lægra haldi við mótun stefnu gagnvart ESB. Þau hafa síðan látið eins og ágreiningurinn snúist um hvort leita eigi í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir umboði þjóðarinnar til að ræða um aðild við ESB. Þetta er rangt.

Ágreiningurinn snýst ekki um þetta. Hann er um hvort meirihluti þingmanna þurfi ekki að styðja aðild og samþykkja þingsályktun sem síðan sé borin undir þjóðina. Eftir þingkosningar vorið 2013, þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn mynduðu ríkisstjórn, var enginn slíkur meirihluti á þingi og þess vegna reyndist ekki pólitískt mögulegt að samþykkja neina aðildarályktun.

Þessi staðreynd var eitur í beinum þeirra sem síðar stofnuðu Viðreisn og sökuðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins ranglega um svik við stefnu flokksins.

Þessi svikabrigsl til afsökunar á tilurð Viðreisnar heyrast enn frá forystumönnum hennar. Við myndun stjórnar Bjarna Benediktssonar í janúar 2017 náðist þó sátt um að kæmi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildarviðræður yrði það til lykta leitt á þingi undir lok kjörtímabilsins. Tekið var fram að stjórnarflokkarnir kynnu að hafa ólíka afstöðu til málsins. Í sáttinni fólst að ekki yrði þjóðaratkvæðagreiðsla nema meirihluti þingmanna samþykkti.

549747732_1094408236177027_9004387406844169202_nFrá landsþingi Viðreisnar 20. september 2025 (mynd: vefsíða Viðreisnar). 

Nú var haldið fyrsta landsþing Viðreisnar frá því að Kristrún Frostadóttir myndaði stjórn sína og Viðreisn fékk meginstefnumál sitt um þjóðaratkvæðagreiðsluna um ESB-viðræðurnar samþykkt í stjórnarsáttmála án nokkurs fyrirvara. Þorgerður Katrín hefur boðað að hún ætli að flytja þingsályktun um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áhugamenn um framvindu ESB-mála höfðu því ríka ástæðu til að vænta efnismikilla ályktana um næstu ESB-skref á landsþinginu. Að þar yrði mótuð stefna varðandi mikilvæg mál: samningsmarkmið í sjávarútvegsmálum, framtíðarstöðu landbúnaðar, orkumál og auðlindanýtingu landgrunnsins svo að ekki sé minnst á breytingu á stjórnarskránni til að heimila framsal valds til ESB.

Í ályktunum landsþingsins er ekki vikið orði að þessum stóru álitaefnum. Þá er ekki heldur minnst einu orði á væntanlega þingsályktunartillögu flokksformannsins. Því er ekki einu sinni fagnað að flokksformaðurinn sé að undirbúa slíka tillögu varðandi stofnmál flokksins, grunn sjálfrar tilveru hans. Eftir landsþingið er þjóðin engu nær um tímasetningu eða efni væntanlegrar ályktunar.

Landsþingsfulltrúar létu sér nægja að álykta um að Evrópuhugsjónin um frið, hagsæld og samvinnu lýðræðisþjóða væri kjarni í stefnu flokksins. Viðreisn treysti „íslenskri þjóð til að taka ákvörðun um næstu skref á Evrópuvegferðinni“. Þau myndu „leita til þjóðarinnar um það hvort“ þau ættu að halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, vegna þess að „stjórnmálin“ hefðu hingað til „reynst vanmáttug gagnvart þeirri spurningu“. Þau myndu „ekki óttast dóm þjóðarinnar“.

Þetta er einkennileg dyggðaflöggun. Hún minnir á boðskap Jóhönnu Sigurðardóttur eftir hrun um að taka yrði stjórnarskrárvaldið af alþingi af því að „stjórnmálin“ hefðu ekki burði til að breyta stjórnarskránni. Sá málatilbúnaður fór allur í hund og kött, hann endaði sem nýlistargjörningur.

Jóhanna hafði þó burði til að vinna að stjórnarskrárbreytingum á sama tíma og hún reyndi að koma þjóðinni inn í ESB. Kristrún Frostadóttir hefur ekki boðað neinar stjórnarskrárbreytingar og ekki heldur sjálfur brimbrjótur ESB-málsins, Viðreisn.

Þessi æpandi þögn um efnisþætti þjóðaratkvæðagreiðslunnar er óboðleg. Svarið birtist þó líklega í ræðu sem belgíski heiðursgesturinn, Guy Verhofstadt, forseti European Movement International, flutti. Hann er ákafasti talsmaður sambandsríkis Evrópu og hvatti til þess, kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu, 2026 eða 2027, að varið yrði undanbragðalaust það sem nefnt er á ensku European Project – í hans máli leiðin að sambandsríkinu – eina framtíðarvonin. Viðreisn mætti ekki boða neina fyrirvarapólitík eins og Bretar hefðu stundað.

Í orðunum fólst að þetta snerist í raun um allt eða ekkert. Þarna birtist alkunna krafan um hollustu við aðlögunarstefnuna, viðræður við ESB væru um form en ekki efni, vildi ríki í ESB.

Athyglisvert er að Verhofstadt nefndi þarna árið 2026 sem hugsanlegt ár þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Ártalið getur varla verið komið frá öðrum en forráðamönnum Viðreisnar sem ganga með því þvert á vilja forsætisráðherra – nema það séu fyrirmæli frá stækkunardeildinni í Brussel að flýta atkvæðagreiðslunni hvað sem stjórnarsáttmálinn segir.

Með þessari óvissu um efni og tímasetningu stendur Viðreisn vörð um sérhagsmuni sína. Þegar um muninn á sérhagsmunum og almannahagsmunum er rætt má minnast þess að 164 greiddu atkvæði þegar Þorgerður Katrín var kjörin formaður en 1.862 þegar Guðrún Hafsteinsdóttir hlaut kjör sem formaður Sjálfstæðisflokksins 2. mars 2025. Fjöldinn í Viðreisn var um 8,8% af fjölda landsfundarfulltrúa sjálfstæðismanna.