Veikburða friður á Gaza
Morgunblaðið, laugardaginn 18. október 2025.
Donald Trump kynnti í lok september 20 punkta áætlun um frið á Gaza sem kæmi til framkvæmda í áföngum: vopnahlé; ísraelskir hermenn hyrfu á brott stig af stigi; Hamas sleppti gíslum og skilaði líkum látinna og Ísraelar veittu palestínskum föngum frelsi; Hamas legði niður vopn og æðstu leiðtogar hreyfingarinnar hættu afskiptum af stjórn Gaza. Þá eru í áætluninni hugmyndir um hvernig staðið skuli að endurreisn á Gaza og að til sögunnar komi alþjóðleg eftirlitsstjórn sem tryggi friðsamlega framkvæmd áformanna.
Í stuttu máli má segja að föstudaginn 10. október hafi skapast nægileg samstaða um þessa áætlun til þess að mánudaginn 13. október fór Trump í sigurför til Ísraels og Egyptalands.
Aldrei verður endurtekin sjónvarpsútsending eins og sjá mátti beint frá Knesset, ísraelska þinginu, þegar Trump var hylltur þar um hádegisbilið 13. október. Honum var líkt við Kýrus mikla, stofnanda Persaveldis. Árið 540 f.Kr. leyfði Kýros herleiddum Gyðingum að fara til heimalands síns frá Babylóníu og lét þá fá musterisker Nebúkadnesar.
Frá Jerúsalem hélt Donald Trump til eypsku borgarinnar Sharm el-Sheikh og sagði þegar hann ritaði undir skjal um fyrsta áfanga áætlunar sinnar: „Þetta tók 3.000 ár, trúið þið því?“ Síðan bætti hann við að ýmsir hefðu spáð því að þriðja heimsstyrjöldin myndi hefjast í Mið-Austurlöndum. Því hefði nú verið afstýrt.
Um 20 ríkisoddvitar voru í Sharm el-Sheikh í boði Trumps til að staðfesta árangur hans við að binda enda á átökin á Gaza. Hann lét fyrirmennina bíða í þrjá tíma eftir sér í Egyptalandi. Stutta tímann sem hann var þar beindust allir hljóðnemar að honum þegar hann lét gamminn geisa.
Eftir förina var Trump sæll og glaður. Þegar hann ræddi við fréttamenn í Egyptalandi mánudaginn 13. október sagði hann: „Ég vil þakka fjölmiðlum. Þið hafið sýnt svo mikla virðingu vegna þessa samkomulags.“
Eftir heimkomuna sagði hann: „Það var svo ánægjulegt að horfa á þetta: Ég var í flugvélinni og hlustaði í nokkra stund á ýmsar fréttaútsendingar og þær voru allar sanngjarnar. Þær snerust um hversu ótrúlegt þetta er.“
Já, það má taka undir að þetta hafi verið ótrúlegt en síðan kom kaldi veruleikinn. Líkamsleifar gísla hafa borist seint og illa frá Hamas til Ísraela sem kann að leiða til átaka vegna samningsbrota.
Fréttir lofa síðan ekki góðu um frið innbyrðis milli Palestínumanna:
Í Palestínu hafa ekki verið þingkosningar síðan 2006 og ekki hefur verið gengið til forsetakosninga síðan 2005 þegar Mahmúd Abbas var kjörinn. Hann hefur því setið sem forseti án kosninga í 20 ár.
Hamas-hreyfingin vann þingkosningarnar í Palestínu árið 2006. Eftir það blossaði upp djúpstæð keppni um völd við Fatah, flokk Abbas forseta. Árið 2007 hrakti Hamas liðsmenn Fatah frá Gaza eftir stutt borgarastríð og tók þar völdin en Fatah hélt stjórn á Vesturbakkanum.
Síðan hafa palestínsk yfirráð verið tvíklofin – Hamas stjórnar Gaza en Palestínska heimastjórnin (Fatah) Vesturbakkanum. Vegna klofningsins hefur ekki verið efnt til þingkosninga í tvo áratugi.
Í áætlun Trumps eru áform um bráðabirgðastjórn Gaza undir alþjóðlegu eftirliti á meðan leitað verði leiða að sameiginlegri palestínskri stjórn sem geti undirbúið lýðræðislegar kosningar og endurreisn svæðisins.
Hrottar að verki á Gaza 13. október 2025.
Allt er þetta hægara sagt en gert. Strax mánudaginn 13. október hófust hjaðningavíg milli ólíkra fylkinga á Gaza og aftökur án dóms og laga á þeim sem Hamas telja sér óvinveitta. Um netheima fór myndskeið sem sýnir Hamas-liða skjóta sjö eða átta menn í hnakkann úti á götu á Gaza.
Sagt er að þeir sem voru drepnir hafi verið af Doghmush-ættbálknum sem býr í Gaza-borg og er andstæðingur Hamas. Opinberlega segja Hamas-liðar þetta uppgjör við samverkamenn Ísraela. Enginn efast hins vegar um að Hamas vilji losa sig við alla hugsanlega andstæðinga.
Hamas-hreyfingin hefur ekki áhuga á að afsala sér valdi til lýðræðislegra stofnana. Hún vill stjórna með ótta og ofbeldi eins og hún hefur gert frá 2007.
Blaðamenn, lögfræðingar og aðrir sem gagnrýndu hana voru fangelsaðir eða limlestir. Mótmæli vegna atvinnuleysis, rafmagns- eða matarskorts voru stöðvuð með skothríð. Almannasamtök, verkalýðsfélög og moskur sættu stöðugu eftirliti eða kúgun.
Bent er á að Hamas hafi aldrei séð frið sem raunverulegan kost. Í hugmyndafræði hreyfingarinnar ráði hugtakið hudna – tímabundið vopnahlé við heiðingja sem megi rjúfa þegar valdajafnvægi breytist. Fyrir Hamas sé slíkt vopnahlé ekki skref að friði, heldur tækifæri til að vígbúast til nýrra átaka.
Undirritun skjals dugar ekki til að brjótast út úr þessum vítahring. Næsta stig kann að fela í sér algera afvopnun Hamas og endalok samtakanna sem hernaðarlegs afls: Engin byssa, engin eldflaug, engin jarðgöng.
Þetta er þó ekki auðvelt: Hamas á djúpar rætur í samfélagi Gaza og nýtur stuðnings öfgahópa á Vesturlöndum sem krefjast tortímingar Ísraels. Að fjarlægja slíkt valdakerfi krefst þolinmæði, samstöðu og staðfestu.
Það vakti athygli að utanríkisráðherra Palestínu, dr. Varsen Aghabekian, var stödd hér á landi föstudaginn 10. október þegar kynnt var að samkomulag hefði náðst milli Ísraela og Hamas um áætlun Trumps. Sjálfur utanríkisráðherra Palestínu kom þar hvergi nærri.
Er Palestína í raun frekar draumsýn en fullvalda ríkisheild? Tveggja ríkja-lausnin með viðurkenningu Palestínu stendur á veikum grunni á meðan Palestínumenn sjálfir koma sér ekki saman um eitt ríki.