16.8.2025

Trump og Pútín brjóta ísinn í Alaska

Morgunblaðið, laugardagur 16. ágúst 2025.

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti til­kynnti óvænt miðviku­dag­inn 6. ág­úst að hann myndi hitta Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta til að ræða frið í Úkraínu. Ráðgjafi Pútíns staðfesti næsta dag að unnið væri að því að und­ir­búa fund með Trump. Að fund­ur­inn yrði í Alaska 15. ág­úst varð síðan staðfest 8. ág­úst og þá varð einnig ljóst að Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti tæki ekki þátt í hon­um. Sagt er að þeir þrír hitt­ist síðar skili Ala­ska­fund­ur­inn ár­angri.

Í mars 2023 gaf Alþjóðasaka­mála­dóm­stóll­inn út hand­töku­skip­un á hend­ur Pútín vegna gruns um stríðsglæpi í tengsl­um við inn­rás­ina í Úkraínu. Með samþykki Pútíns hafi þúsund­ir úkraínskra barna verið flutt­ar ólög­lega frá her­numd­um svæðum í Úkraínu til Rúss­lands.

Síðan fer Pútín aðeins til landa og yfir lönd sem viður­kenna ekki lög­sögu dóm­stóls­ins. Þess vegna er Alaska kjör­inn fund­arstaður. Þá minn­ir Alaska á rúss­nesk­ar ný­lend­ur fyrri alda í Norður-Am­er­íku.

Screenshot-2025-08-16-at-21.15.02

Nú er rifjað upp að frá 1816 til 1842 hafi syðstu landa­mæri rúss­neska keis­ara­dæm­is­ins verið um 110 km fyr­ir norðan San Francisco í Fort Ross við Rúss­nesku ána (vega­lengd­in frá Reykja­vík í Fljóts­hlíð).

Stutt­ur aðdrag­andi þessa for­seta­fund­ar Banda­ríkj­anna og Rúss­lands minn­ir á 11 daga fyr­ir­var­ann þegar Ronald Reag­an og Mik­haíl Gor­bat­sjov ákváðu að hitt­ast í Höfða í októ­ber 1986.

Umstangið þá var mikið hér, ekki síst í kring­um fréttamiðlun­ina. Bein­ar út­send­ing­ar til annarra landa kröfðust búnaðar sem var stærri í sniðum og flókn­ari en núna þegar net­sam­band og farsími duga til að koma mynd og tali á svip­stundu um heim all­an.

Eng­inn vissi hver yrði niðurstaða viðræðnanna í Höfða. Þar var skipst á skoðunum um af­vopn­un­ar­mál og tak­mörk­un kjarn­orku­herafla eða jafn­vel út­rým­ingu hans. Allt strandaði að lok­um á ágrein­ingi um svo­nefnda stjörnu­stríðsáætl­un Reag­ans frá 1983, hug­mynd um varn­ar­kerfi Banda­ríkj­anna gegn sov­éskri eld­flauga­árás sem aldrei kom til sög­unn­ar.

Þá eins og nú voru ekki all­ir banda­menn Banda­ríkj­anna ánægðir með hvernig staðið var að ákvörðunum um fund­inn og umræðuefni. Nán­asti bandamaður Reag­ans, Marga­ret Thatcher, for­sæt­is­ráðherra Breta, sagði við blaðamenn að hún „hikaði alls ekki við“ að minna Banda­ríkja­for­seta á að „í kjarna­vopn­um fæl­ist end­an­legi fæl­ing­ar­mátt­ur­inn“ og við hon­um ætti ekki að hrófla án þess að hafa strategísku heild­ar­mynd­ina í huga.

Síðar sagði hún að viðræðurn­ar í Reykja­vík hefðu verið „barna­leg­ar“ og þær hefðu getað „eyðilagt“ varn­ar­kerfi Vest­ur­landa.

Eng­inn rifjar þetta upp leng­ur þótt tölu­vert hafi verið gert úr óánægju Thatcher og annarra evr­ópskra leiðtoga á sín­um tíma yfir að Reag­an hefði ekki haft þá nægi­lega með í ráðum vegna fund­ar­ins.

Nú er Reykja­vík kölluð friðar­borg vegna Höfðafund­ar­ins. Um hann hef­ur verið hönnuð frá­sögn sem ger­ir fund­inn jafn­vel að þunga­miðju í lykt­um kalda stríðsins. Það er of­mælt. Samstaða vest­rænna leiðtoga um þá stefnu sem Thatcher fylgdi vó þar þyngra en sam­töl Reag­ans við Gor­bat­sjov.

Sam­töl­in auðvelduðu Gor­bat­sjov hins veg­ar að halda í þá ímynd að Sov­ét­rík­in stæðu jafn­fæt­is Banda­ríkj­un­um – þau væru risa­veldi í krafti kjarna­vopna. Á heima­velli skipti þetta höfuðmáli fyr­ir Gor­bat­sjov. Setti hann á risa­veld­astall við björg­un­ar­tilraun­ir vegna sökkvandi og gjaldþrota stjórn­kerf­is Sov­ét­ríkj­anna.

Í októ­ber 1962 stofnaði Nikita Krúst­sjoff, leiðtogi Sov­ét­ríkj­anna, til Kúbu­deil­unn­ar um kjarna­vopn við John F. Kenn­e­dy Banda­ríkja­for­seta til að tryggja sér sæti á stall­in­um við hlið Banda­ríkja­for­seta.

Nú árið 2025, þegar stríðsglæpa­maður­inn Pútín hef­ur í rúm þrjú ár reynt að út­rýma Úkraínu af kort­inu, veit­ir stríðið hon­um tæki­færi til að stilla sér and­spæn­is Banda­ríkja­for­seta við risa­velda­borðið. Enn einu sinni koma kjarna­vopn­in sér vel fyr­ir leiðtog­ann í Kreml­ar­k­astala.

Trump er gest­gjafi í eig­in landi sem auðveld­ar hon­um að verða við kröfu Pútíns um að Selenskí sé hvergi ná­læg­ur. Þríhliða fund­ur hefði eyðilagt mynd­ina af Trump og Pútín. Kannski er hún það eina sem Pútín vill fá út úr fund­in­um? Mynd­in er sterk til heima­brúks á tím­um vax­andi vand­ræða.

Hér má rifja upp að árið 2008 sagði sendi­herra Rúss­lands á Íslandi við ut­an­rík­is­ráðgjafa for­sæt­is­ráðherra Íslands að kvart­an­ir ráðherr­ans vegna flugs rúss­neskra herflug­véla í ná­grenni lands­ins væru ekki við hæfi í návist Pútíns Rúss­lands­for­seta. Þegar ís­lenski emb­ætt­ismaður­inn benti á að flug rúss­nesku vél­anna skapaði hættu í ís­lenskri loft­helgi sagði sendi­herr­ann: Þetta er ekki mál milli Rússa og Íslend­inga held­ur Rússa og Banda­ríkja­manna.

Þannig var þetta og er enn. Stór­rúss­ar líta á Íslend­inga og Evr­ópu­menn sem óþarfa milliliði þegar Banda­ríkja­menn eiga í hlut. Þeir eigi aðeins er­indi við stór­bónd­ann en ekki þá sem sitji hjá­leig­urn­ar.

Þetta höfðar til Trumps sem auk þess lofaði kjós­end­um sín­um að binda enda á Úkraínu­stríðið einn og ótruflaður á ein­um sól­ar­hring.

Viðbrögð evr­ópskra leiðtoga sem standa með Selenskí minna á kvíðak­astið sem Thatcher fékk þegar hún hug­leiddi Reykja­vík­ur­fund Reag­ans og Gor­bat­sjovs. Nú nag­ar ótti um að af til­lits­leysi fórni Trump ein­hverju sem skaði Úkraínu og skapi vand­ræði inn­an NATO. Hon­um þyki meira virði að þókn­ast Pútín en horf­ast í augu við staðreynd­ir.

Ef til vill reyn­ast all­ar áhyggj­ur vegna Ala­ska­fund­ar­ins ástæðulaus­ar. Til­gang­ur hans sé aðeins að brjóta ís á milli tveggja kjarn­orku­leiðtoga sem vilji efla sam­skipti sín, sér sjálf­um til virðing­ar­auka. Kannski rof­ar til í Úkraínu.