Trump og Pútín brjóta ísinn í Alaska
Morgunblaðið, laugardagur 16. ágúst 2025.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt miðvikudaginn 6. ágúst að hann myndi hitta Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að ræða frið í Úkraínu. Ráðgjafi Pútíns staðfesti næsta dag að unnið væri að því að undirbúa fund með Trump. Að fundurinn yrði í Alaska 15. ágúst varð síðan staðfest 8. ágúst og þá varð einnig ljóst að Volodimír Selenskí Úkraínuforseti tæki ekki þátt í honum. Sagt er að þeir þrír hittist síðar skili Alaskafundurinn árangri.
Í mars 2023 gaf Alþjóðasakamáladómstóllinn út handtökuskipun á hendur Pútín vegna gruns um stríðsglæpi í tengslum við innrásina í Úkraínu. Með samþykki Pútíns hafi þúsundir úkraínskra barna verið fluttar ólöglega frá hernumdum svæðum í Úkraínu til Rússlands.
Síðan fer Pútín aðeins til landa og yfir lönd sem viðurkenna ekki lögsögu dómstólsins. Þess vegna er Alaska kjörinn fundarstaður. Þá minnir Alaska á rússneskar nýlendur fyrri alda í Norður-Ameríku.
Nú er rifjað upp að frá 1816 til 1842 hafi syðstu landamæri rússneska keisaradæmisins verið um 110 km fyrir norðan San Francisco í Fort Ross við Rússnesku ána (vegalengdin frá Reykjavík í Fljótshlíð).
Stuttur aðdragandi þessa forsetafundar Bandaríkjanna og Rússlands minnir á 11 daga fyrirvarann þegar Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjov ákváðu að hittast í Höfða í október 1986.
Umstangið þá var mikið hér, ekki síst í kringum fréttamiðlunina. Beinar útsendingar til annarra landa kröfðust búnaðar sem var stærri í sniðum og flóknari en núna þegar netsamband og farsími duga til að koma mynd og tali á svipstundu um heim allan.
Enginn vissi hver yrði niðurstaða viðræðnanna í Höfða. Þar var skipst á skoðunum um afvopnunarmál og takmörkun kjarnorkuherafla eða jafnvel útrýmingu hans. Allt strandaði að lokum á ágreiningi um svonefnda stjörnustríðsáætlun Reagans frá 1983, hugmynd um varnarkerfi Bandaríkjanna gegn sovéskri eldflaugaárás sem aldrei kom til sögunnar.
Þá eins og nú voru ekki allir bandamenn Bandaríkjanna ánægðir með hvernig staðið var að ákvörðunum um fundinn og umræðuefni. Nánasti bandamaður Reagans, Margaret Thatcher, forsætisráðherra Breta, sagði við blaðamenn að hún „hikaði alls ekki við“ að minna Bandaríkjaforseta á að „í kjarnavopnum fælist endanlegi fælingarmátturinn“ og við honum ætti ekki að hrófla án þess að hafa strategísku heildarmyndina í huga.
Síðar sagði hún að viðræðurnar í Reykjavík hefðu verið „barnalegar“ og þær hefðu getað „eyðilagt“ varnarkerfi Vesturlanda.
Enginn rifjar þetta upp lengur þótt töluvert hafi verið gert úr óánægju Thatcher og annarra evrópskra leiðtoga á sínum tíma yfir að Reagan hefði ekki haft þá nægilega með í ráðum vegna fundarins.
Nú er Reykjavík kölluð friðarborg vegna Höfðafundarins. Um hann hefur verið hönnuð frásögn sem gerir fundinn jafnvel að þungamiðju í lyktum kalda stríðsins. Það er ofmælt. Samstaða vestrænna leiðtoga um þá stefnu sem Thatcher fylgdi vó þar þyngra en samtöl Reagans við Gorbatsjov.
Samtölin auðvelduðu Gorbatsjov hins vegar að halda í þá ímynd að Sovétríkin stæðu jafnfætis Bandaríkjunum – þau væru risaveldi í krafti kjarnavopna. Á heimavelli skipti þetta höfuðmáli fyrir Gorbatsjov. Setti hann á risaveldastall við björgunartilraunir vegna sökkvandi og gjaldþrota stjórnkerfis Sovétríkjanna.
Í október 1962 stofnaði Nikita Krústsjoff, leiðtogi Sovétríkjanna, til Kúbudeilunnar um kjarnavopn við John F. Kennedy Bandaríkjaforseta til að tryggja sér sæti á stallinum við hlið Bandaríkjaforseta.
Nú árið 2025, þegar stríðsglæpamaðurinn Pútín hefur í rúm þrjú ár reynt að útrýma Úkraínu af kortinu, veitir stríðið honum tækifæri til að stilla sér andspænis Bandaríkjaforseta við risaveldaborðið. Enn einu sinni koma kjarnavopnin sér vel fyrir leiðtogann í Kremlarkastala.
Trump er gestgjafi í eigin landi sem auðveldar honum að verða við kröfu Pútíns um að Selenskí sé hvergi nálægur. Þríhliða fundur hefði eyðilagt myndina af Trump og Pútín. Kannski er hún það eina sem Pútín vill fá út úr fundinum? Myndin er sterk til heimabrúks á tímum vaxandi vandræða.
Hér má rifja upp að árið 2008 sagði sendiherra Rússlands á Íslandi við utanríkisráðgjafa forsætisráðherra Íslands að kvartanir ráðherrans vegna flugs rússneskra herflugvéla í nágrenni landsins væru ekki við hæfi í návist Pútíns Rússlandsforseta. Þegar íslenski embættismaðurinn benti á að flug rússnesku vélanna skapaði hættu í íslenskri lofthelgi sagði sendiherrann: Þetta er ekki mál milli Rússa og Íslendinga heldur Rússa og Bandaríkjamanna.
Þannig var þetta og er enn. Stórrússar líta á Íslendinga og Evrópumenn sem óþarfa milliliði þegar Bandaríkjamenn eiga í hlut. Þeir eigi aðeins erindi við stórbóndann en ekki þá sem sitji hjáleigurnar.
Þetta höfðar til Trumps sem auk þess lofaði kjósendum sínum að binda enda á Úkraínustríðið einn og ótruflaður á einum sólarhring.
Viðbrögð evrópskra leiðtoga sem standa með Selenskí minna á kvíðakastið sem Thatcher fékk þegar hún hugleiddi Reykjavíkurfund Reagans og Gorbatsjovs. Nú nagar ótti um að af tillitsleysi fórni Trump einhverju sem skaði Úkraínu og skapi vandræði innan NATO. Honum þyki meira virði að þóknast Pútín en horfast í augu við staðreyndir.
Ef til vill reynast allar áhyggjur vegna Alaskafundarins ástæðulausar. Tilgangur hans sé aðeins að brjóta ís á milli tveggja kjarnorkuleiðtoga sem vilji efla samskipti sín, sér sjálfum til virðingarauka. Kannski rofar til í Úkraínu.