Trump beitir tollavopninu
Morgunblaðið, laugardagur 2. ágúst 2025.
Það er til marks um áhrifamátt viðskiptalegs þáttar hnattvæðingarinnar hvernig Donald Trump Bandaríkjaforseti beitir efnahagslegum styrk Bandaríkjanna og tollavopni til að ná sínu fram eða stilla til friðar hvarvetna í heiminum.
Hernaðaraðgerðir Ísraela og Bandaríkjamanna auk efnahagslegra hótana Trumps settu Írönum nýlega stólinn fyrir dyrnar. Gegn Írönum hefur Trump hótað að beita því sem á ensku kallast secondary sanctions, afleiddar refsiaðgerðir. Þá refsar Bandaríkjastjórn fyrirtækjum sem stunda viðskipti við ríki undir refsivendi, til dæmis Íran. Fyrirtækin gjalda þess að taka afstöðu með einu ríki á móti öðru.
Trump segist hafa átt þátt í að koma á vopnahléi milli Indverja og Pakistana í maí 2025 með því að beita viðskiptavopni sínu samhliða afskiptum bandarískra stjórnarerindreka. Indverjar hafna þessum fullyrðingum hans harðlega og segja að um tvíhliða samkomulag hafi verið að ræða milli herstjórna landanna. Pakistanar hafa hins vegar þakkað Bandaríkjastjórn opinberlega fyrir að stuðla að friðsamlegri lausn.
Miðvikudaginn 23. júlí stefndi í óefni milli herja Taílands og Kambódíu og þá ræddi Trump við forsætisráðherra landanna og sagði þeim að ófriður milli þeirra myndi stöðva viðskiptaviðræður Bandaríkjastjórnar við þá og hugsanlega leiða til þess að tollar yrðu lagðir á helstu útflutningsvörur þeirra til Bandaríkjanna. Kom þessi hótun hans til framkvæmda 25. júlí. Stjórn Malasíu beitti sér fyrir vopnahlésviðræðum 27. júlí að viðstöddum sendiherrum Bandaríkjanna og Kína sem áheyrnarfulltrúum og óformlegum ábyrgðarmönnum. Daginn eftir var tilkynnt að stjórnir Taílands og Kambódíu hefðu samið um tafarlaust en brothætt vopnahlé án nokkurra skilyrða. Við blasti að afskipti Bandaríkjastjórnar höfðu vegið þyngst og 29. júlí heimilaði Trump framhald viðskiptaviðræðna við fulltrúa Taílands og Kambódíu. Kínverjar voru þarna í aftursætinu sem vinir Kambódíumanna.
Í maí tók Trump af skarið um að refsiaðgerðum og viðskiptaþvingunum gegn Sýrlandi skyldi hætt og síðan hefur hann unnið að því að skapa frið og stöðugleika milli Ísraela og Sýrlendinga. Þegar drúsar sættu ofbeldi og grimmd á landamærum ríkjanna um miðjan júlí beitti Bandaríkjastjórn sér fyrir friði milli þeirra og skapaði drúsum þannig svigrúm til öryggis að nýju.
Bandaríkjastjórn tók afstöðu gegn loftárás Ísraela á stjórnarbyggingar í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Hún hefur hins vegar staðið fast við hlið Ísraelsstjórnar vegna átakanna við Hamas á Gaza. Trump hefur lýst stuðningi við 60 daga vopnahlé en hann hefur hvorki beitt Ísraelsstjórn diplómatískum né efnahagslegum þrýstingi til að þröngva henni til að samþykkja málamiðlun af nokkru tagi.
Vopnahlésviðræður um Gaza hafa farið fram með hléum. Undir lok júlí hættu fulltrúar Trumps þátttöku í viðræðunum með þeim orðum að Hamassamtökin vildu ekki ná neinu samkomulagi.
Trump skellti sjálfur 25. júlí allri skuldinni á forystumenn Hamas, þeir vildu ekki samning. „Ég held þeir vilji deyja… staðan er orðin þannig að það verður að ljúka verkinu.“ Hann sagði einnig að það yrði að leita allra Hamasforingja uppi. Var þetta túlkað á þann veg að hann kysi frekar hernaðarlega lausn en diplómatíska.
Hörmungarnar og neyðin á Gaza eru óbærilegur blettur á samtímanum. Friður er löngu tímabær. Sömu sögu er að segja um stríðið í Úkraínu þar sem Rússar herja á almenna borgara úr fjarlægð með drónum og flugskeytum en víglínan sjálf er djúpfryst.
Frægt er að Trump sagðist ætla að ljúka Úkraínustríðinu á einum sólarhring eftir að hann yrði forseti öðru sinni. Nú hefur hann gegnt embættinu í sjö mánuði. Fyrstu mánuðina sýndi hann Vladimir Pútin Rússlandsforseta vinarhót og hafnaði vopnasendingum til Úkraínu. Hann mildaðist eftir að til sögunnar kom samningur um aðgang Bandaríkjanna að fágætum jarðefnum í Úkraínu. Enn mildari varð hann eftir ríkisoddvitafund NATO í Haag undir lok júní þegar ákveðið var að ríkin skyldu verja allt að 5% vergrar landsframleiðslu til varnarmála. Eftir að hann ákvað 15% toll á ESB 27. júlí sneri hann sér að Rússum. Hollusta hans við öryggi Evrópu er skýr.
Trump tilkynnti 14. júlí að hann gæfi Rússum 50 daga frest til að gera vopnahléssamning við Úkraínu, annars gripi hann til afleiddra refsiaðgerða með því að leggja 100% toll á olíukaup þriðju ríkja af Rússum, það er á ríki eins og Kína og Indland.
Trump tilkynnti síðan á fundi í Skotlandi mánudaginn 28. júlí þar sem hann sat við hliðina á sir Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, að hann ætlaði að stytta 50 daga frestinn fyrir Pútin niður í 10 til 12 daga. Hann leyfði Pútin ekki lengur að sýna sér óvirðingu og árásir hans á hjúkrunarheimili og almenna borgara væru óþolandi.
Biðin eftir friðargerð vegna Gaza styttist þótt Hamasliðum berist pólitískur stuðningur úr ólíklegustu áttum. Gagnsemi hans er þó ef til vill frekar til heimabrúks en fyrir þá sem þjást í rústunum.
Trump hefur samið um tollamál við bandamenn sína í Bretlandi, ESB og Japan. Hann á enn ósamið við Suður-Kóreu, Mexíkó og Kanada fyrir utan ríkið sem hefur staðið uppi í hárinu á honum, Kína.
Beiting tollavopns er í andstöðu við stefnu frjálsra heimsviðskipta sem mótuð var við lok annarrar heimsstyrjaldarinnar. Hún kann að minnka spennu og skapa stundarfrið. Til langs tíma vegnar heimsbyggðinni þó betur án tolla eða hótana um þá. Farsældin á liðnum tollfrjálsum áratugum sannar það.