30.8.2025

Traust er lífæð skólastarfs

Morgunblaðið, laugardagur 30.ágúst 2025

Skóla­kerfi ólíkra landa eru al­mennt sam­bæri­leg: leik­skóli, grunn­skóli, fram­halds­skóli og há­skóli. Leiðirn­ar til að kom­ast á milli skóla­stiga eru mis­mun­andi eft­ir lönd­um. Séu leiðir í ís­lenska og danska skóla­kerf­inu born­ar sam­an hopa sam­ræmd próf hér en þau eru notuð í Dan­mörku bæði úr grunn­skóla í fram­halds­skóla og frá fram­halds­skóla í há­skóla.

Hér hafa stjórn­mála­menn látið und­an þeim sem gagn­rýna bæði ein­kunn­ir og sam­ræmd próf. Í Dan­mörku er staðinn vörður um þess­ar gam­al­reyndu grunnstoðir í skóla­starfi. Danski mennta­málaráðherr­ann Matti­as Tes­faye, jafnaðarmaður, múr­ara­son­ur, al­inn upp af ein­stæðri móður, tel­ur ein­kunn­ir á sam­ræmd­um próf­um ekki aðeins tæki til að mæla náms­ár­ang­ur held­ur djásn skóla­kerf­is­ins sem skapi rétt­læti, jafn­ræði og traust í sam­fé­lag­inu.

Til þess­ar­ar vinaþjóðar okk­ar er óhjá­kvæmi­legt að leita til að kynn­ast rök­semd­um stjórn­mála­manns sem hef­ur kjark til að standa vörð um menntavís­inda­leg bann­orð í umræðum um ís­lensk mennta­mál. Und­an­far­in mörg ár hef­ur skipu­lega verið unnið að því að ýta skóla- og mennt­mál­um af póli­tísk­um vett­vangi hér með stofn­ana­væðingu, aðgerðar­hóp­um, inn­an­tóm­um áætl­un­um og lok­un á miðlun upp­lýs­inga til al­menn­ings. Í stað raun­sæ­is birt­ast inn­an­tóm­ar lof­rull­ur um hve allt sé „frá­bært“ og á réttri braut í skóla­mál­um.

Í viðtali við blaðið Week­enda­visen fyr­ir viku lagði Matti­as Tes­faye til að í stað þess að líta á ein­kunn­ir sem óvin barna og ung­menna ætti að viður­kenna þær sem öfl­ugt tæki til að tryggja jafn­ræði, byggja upp traust og varðveita hefðir. Þær væru brú milli kyn­slóða, leið fyr­ir unga ein­stak­linga til að sanna hæfni sína og lyk­il­atriði í því að skapa sam­fé­lag þar sem hæfi­leik­ar en ekki pen­ing­ar eða klíku­skap­ur réðu för.

Ein­kunn­ir væru ekki aðeins hluti af mennta­kerf­inu held­ur einnig hluti af dönsku þjóðlífi. Ein­kunnaskal­inn hefði í ára­tugi verið viðmið sem for­eldr­ar, afar og ömm­ur skildu og ræddu við börn og barna­börn. Þetta hefði skapað sam­fellu á milli kyn­slóða og styrkt sam­eig­in­leg­an skiln­ing á mennt­un.

W95a6Þetta er kynningarmynd Háskóla Íslands með tilkynningu um afhendingu prófskírteina. Þarna eru lykilorðin: Gæði og traust - grunnur þess að skóla sé treyst,

Hér var þessi sam­fella rof­in án póli­tískr­ar umræðu með því að inn­leiða bók­stafi í stað talna sem náms­matskv­arða A-D við lok 10. bekkj­ar grunn­skóla end­an­lega vorið 2017. Grunn­ur að náms­matskv­arða í stað talna var lagður með hæfni- og matsviðmiðum aðal­nám­skrár grunn­skóla frá 2011 og 2013. Við kynn­ingu á þess­ari breyt­ingu hér var sagt að hún tæki mið af þróun í ná­granna­lönd­um.

Þar er ekki vísað til Dan­merk­ur. Dan­ir halda í ein­kunnaskala sem spann­ar frá –03 til 12. Ráðherr­ann tel­ur að skapa megi betra jafn­vægi inn­an þessa skala en vill eiga sam­ráð við þing­menn áður en ákvörðun er tek­in um það.

Tes­faye seg­ir það ein­fald­lega rangt að ein­kunn­ir séu í eðli sínu ósann­gjarn­ar. Ein­kunna­kerfið leiði þvert á móti til minnsta órétt­læt­is við ákvörðun um hvort nem­andi eigi rétt á að inn­rit­ast í há­skóla að lokn­um fram­halds­skóla. Það sé rétt­mæt­ara að treysta á niður­stöðu á sam­ræmdu prófi en ár­s­ein­kunn kenn­ara. Þar kunni annað að ráða en geta nem­andans. Sé ein­kunn­um ýtt til hliðar ráði ef til vill fjár­hag­ur eða per­sónu­leg tengsl. Slíkt kerfi hygli þeim sem njóti for­rétt­inda en úti­loki hæfi­leika­ríka ein­stak­linga úr hóp­um sem ekki búi við sterkt bak­land.

Þetta sjón­ar­mið vegi sér­stak­lega þungt þegar litið sé til nem­enda sem al­ist upp í fjöl­skyld­um án aka­demískr­ar hefðar. Fyr­ir þá sé skýr og gagn­sæ ein­kunn oft eina leiðin til að sanna eig­in getu. Í stað þess að þurfa að treysta á óljós­ar um­sagn­ir eða flók­in fé­lags­leg viðmið geti þeir með góðum ein­kunn­um tryggt sér leið inn í drauma­námið. Þannig verði ein­kunn­ir ekki hindr­un held­ur brú – leið fyr­ir unga ein­stak­linga til að brjót­ast út úr fé­lags­leg­um aðstæðum og skapa sér ný tæki­færi.

Hér þekkj­um við ekki umræður um þetta þegar kem­ur að þrösk­uldi milli fram­halds­skóla og há­skóla en að breyttu breyt­anda gilda svipuð sjón­ar­mið um inn­rit­un í fram­halds­skóla. Hún verður að ráðast af hlut­lægu mati og þar skapa próf og ein­kunn­ir mest jafn­ræði. Ný­samþykkt lög um náms­mat hér marka meiri áherslu á mats­kennd­ari þætti með auk­inni hættu á mis­mun­un.

Tes­faye seg­ir próf ekki aðeins loka­punkt náms held­ur ör­ygg­is­net sem leiðrétti skekkj­ur. Óháðir próf­dóm­ar­ar tryggi að niður­stöður séu raun­hæf­ar og sam­bæri­leg­ar á milli skóla.

Í sam­tal­inu kem­ur fram að einn helsti ágrein­ing­ur í póli­tískri umræðu um mennta­mál í Dan­mörku sé hug­mynd­in um „af­reks­sam­fé­lagið“. Gagn­rýn­end­ur segi að áhersl­an á ár­ang­ur og próf skapi þrýst­ing sem skaði börn. Tes­faye lít­ur þetta öðrum aug­um: það sé gott að lifa í sam­fé­lagi þar sem sum­ir vilji ná langt og skapa verðmæti fyr­ir aðra.

Af­rek ein­stak­lings­ins nýt­ist heild­inni. Sam­fé­lag án af­reka staðni vegna skorts á hvatn­ingu til ný­sköp­un­ar og fram­fara. Ein­kunn­ir séu því ekki aðeins mæli­kv­arði á stöðu nem­enda held­ur einnig hvatn­ing til að leggja sig fram, temja sér vinnu­semi og byggja upp styrk sem nýt­ist bæði ein­stak­lingn­um og þjóðfé­lag­inu.

Í grunn­inn snú­ist málið um traust. Nem­andinn verði að vita að ein­kunn sín sé rétt­mæt og sýni raun­veru­lega getu. For­eldr­ar, kenn­ar­ar og sam­fé­lagið verði að geta treyst að mennt­un­in standi und­ir nafni. Próf­skír­teinið eigi að vera áreiðan­legt skjal – vitn­is­b­urður um hæfni sem hafi gildi í aug­um annarra. Hverfi þetta traust hverfi einnig trú­in á mennta­kerfið.

Skóla­kerfið er ekki stikk­frí þegar hugað er að sam­keppn­is­hæfni ein­stak­linga og þjóða. Það er sjálf for­send­an fyr­ir vel­gengni og raun­veru­leg­um ár­angri.