Traust er lífæð skólastarfs
Morgunblaðið, laugardagur 30.ágúst 2025
Skólakerfi ólíkra landa eru almennt sambærileg: leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli og háskóli. Leiðirnar til að komast á milli skólastiga eru mismunandi eftir löndum. Séu leiðir í íslenska og danska skólakerfinu bornar saman hopa samræmd próf hér en þau eru notuð í Danmörku bæði úr grunnskóla í framhaldsskóla og frá framhaldsskóla í háskóla.
Hér hafa stjórnmálamenn látið undan þeim sem gagnrýna bæði einkunnir og samræmd próf. Í Danmörku er staðinn vörður um þessar gamalreyndu grunnstoðir í skólastarfi. Danski menntamálaráðherrann Mattias Tesfaye, jafnaðarmaður, múrarasonur, alinn upp af einstæðri móður, telur einkunnir á samræmdum prófum ekki aðeins tæki til að mæla námsárangur heldur djásn skólakerfisins sem skapi réttlæti, jafnræði og traust í samfélaginu.
Til þessarar vinaþjóðar okkar er óhjákvæmilegt að leita til að kynnast röksemdum stjórnmálamanns sem hefur kjark til að standa vörð um menntavísindaleg bannorð í umræðum um íslensk menntamál. Undanfarin mörg ár hefur skipulega verið unnið að því að ýta skóla- og menntmálum af pólitískum vettvangi hér með stofnanavæðingu, aðgerðarhópum, innantómum áætlunum og lokun á miðlun upplýsinga til almennings. Í stað raunsæis birtast innantómar lofrullur um hve allt sé „frábært“ og á réttri braut í skólamálum.
Í viðtali við blaðið Weekendavisen fyrir viku lagði Mattias Tesfaye til að í stað þess að líta á einkunnir sem óvin barna og ungmenna ætti að viðurkenna þær sem öflugt tæki til að tryggja jafnræði, byggja upp traust og varðveita hefðir. Þær væru brú milli kynslóða, leið fyrir unga einstaklinga til að sanna hæfni sína og lykilatriði í því að skapa samfélag þar sem hæfileikar en ekki peningar eða klíkuskapur réðu för.
Einkunnir væru ekki aðeins hluti af menntakerfinu heldur einnig hluti af dönsku þjóðlífi. Einkunnaskalinn hefði í áratugi verið viðmið sem foreldrar, afar og ömmur skildu og ræddu við börn og barnabörn. Þetta hefði skapað samfellu á milli kynslóða og styrkt sameiginlegan skilning á menntun.
Þetta er kynningarmynd Háskóla Íslands með tilkynningu um afhendingu prófskírteina. Þarna eru lykilorðin: Gæði og traust - grunnur þess að skóla sé treyst,
Hér var þessi samfella rofin án pólitískrar umræðu með því að innleiða bókstafi í stað talna sem námsmatskvarða A-D við lok 10. bekkjar grunnskóla endanlega vorið 2017. Grunnur að námsmatskvarða í stað talna var lagður með hæfni- og matsviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013. Við kynningu á þessari breytingu hér var sagt að hún tæki mið af þróun í nágrannalöndum.
Þar er ekki vísað til Danmerkur. Danir halda í einkunnaskala sem spannar frá –03 til 12. Ráðherrann telur að skapa megi betra jafnvægi innan þessa skala en vill eiga samráð við þingmenn áður en ákvörðun er tekin um það.
Tesfaye segir það einfaldlega rangt að einkunnir séu í eðli sínu ósanngjarnar. Einkunnakerfið leiði þvert á móti til minnsta óréttlætis við ákvörðun um hvort nemandi eigi rétt á að innritast í háskóla að loknum framhaldsskóla. Það sé réttmætara að treysta á niðurstöðu á samræmdu prófi en árseinkunn kennara. Þar kunni annað að ráða en geta nemandans. Sé einkunnum ýtt til hliðar ráði ef til vill fjárhagur eða persónuleg tengsl. Slíkt kerfi hygli þeim sem njóti forréttinda en útiloki hæfileikaríka einstaklinga úr hópum sem ekki búi við sterkt bakland.
Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt þegar litið sé til nemenda sem alist upp í fjölskyldum án akademískrar hefðar. Fyrir þá sé skýr og gagnsæ einkunn oft eina leiðin til að sanna eigin getu. Í stað þess að þurfa að treysta á óljósar umsagnir eða flókin félagsleg viðmið geti þeir með góðum einkunnum tryggt sér leið inn í draumanámið. Þannig verði einkunnir ekki hindrun heldur brú – leið fyrir unga einstaklinga til að brjótast út úr félagslegum aðstæðum og skapa sér ný tækifæri.
Hér þekkjum við ekki umræður um þetta þegar kemur að þröskuldi milli framhaldsskóla og háskóla en að breyttu breytanda gilda svipuð sjónarmið um innritun í framhaldsskóla. Hún verður að ráðast af hlutlægu mati og þar skapa próf og einkunnir mest jafnræði. Nýsamþykkt lög um námsmat hér marka meiri áherslu á matskenndari þætti með aukinni hættu á mismunun.
Tesfaye segir próf ekki aðeins lokapunkt náms heldur öryggisnet sem leiðrétti skekkjur. Óháðir prófdómarar tryggi að niðurstöður séu raunhæfar og sambærilegar á milli skóla.
Í samtalinu kemur fram að einn helsti ágreiningur í pólitískri umræðu um menntamál í Danmörku sé hugmyndin um „afrekssamfélagið“. Gagnrýnendur segi að áherslan á árangur og próf skapi þrýsting sem skaði börn. Tesfaye lítur þetta öðrum augum: það sé gott að lifa í samfélagi þar sem sumir vilji ná langt og skapa verðmæti fyrir aðra.
Afrek einstaklingsins nýtist heildinni. Samfélag án afreka staðni vegna skorts á hvatningu til nýsköpunar og framfara. Einkunnir séu því ekki aðeins mælikvarði á stöðu nemenda heldur einnig hvatning til að leggja sig fram, temja sér vinnusemi og byggja upp styrk sem nýtist bæði einstaklingnum og þjóðfélaginu.
Í grunninn snúist málið um traust. Nemandinn verði að vita að einkunn sín sé réttmæt og sýni raunverulega getu. Foreldrar, kennarar og samfélagið verði að geta treyst að menntunin standi undir nafni. Prófskírteinið eigi að vera áreiðanlegt skjal – vitnisburður um hæfni sem hafi gildi í augum annarra. Hverfi þetta traust hverfi einnig trúin á menntakerfið.
Skólakerfið er ekki stikkfrí þegar hugað er að samkeppnishæfni einstaklinga og þjóða. Það er sjálf forsendan fyrir velgengni og raunverulegum árangri.