Tímaskekkja að sýsla við ESB-möppur
Morgunblaðið, laugardagur 25. janúar 2925.
Í vikunni hafa skilin á milli framtakssemi í Bandaríkjunum og regluveldis í Evrópu orðið skýrari en áður. Í Bandaríkjunum er boðað að allt að 500 milljörðum dollara verði varið í að þróa vitvélar (gervigreind) en í Evrópusambandinu er rætt um hvernig komið verði böndum á þessar vélar.
Stjórnarstefna Kristrúnar Frostadóttur felur í sér afturhvarf til stjórnmáladeilna um staðreyndir sem eru augljósar þótt ESB-sinnar láti eins og þær eigi ekki við hér á landi. Hvarvetna í ESB-umsóknarríkjum er ráðamönnum ljóst að þeim beri að laga stefnu sína og stjórnarhætti að skilyrðum ESB. Þau eru sett til að ráða aðildarferli allra umsóknarríkja. Spurningin er ekki hvort virða beri skilyrðin heldur hvort ríki fái svigrúm til að laga sig að einhverjum þeirra eða ekki. ESB-aðildarviðræður snúast um tímabundið svigrúm til að fresta innleiðingu en ekki hafna henni.
Strandveiðibátar við Möltu.
Í umræðum um kröfuna um að eitt skuli yfir alla ganga er gjarnan nefnt hér að Möltubúum sé leyft að stunda einir strandveiðar á smábátum við eyju sína í Miðjarðarhafi. Þessir bátar eru flestir innan við 12 metrar að lengd. Þeir voru alls 859 árið 2021, 404 voru gerðir út allt árið en 455 hluta úr ári. Allur flotinn var samtals 6.421 tonn að stærð. Framkvæmdastjórn ESB ákveður leyfilegan hámarksafla í samræmi við sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins. Að leyfa sér að bera þetta á borð sem viðunandi fordæmi vegna fyrirvara um varanleg yfirráð á Íslandsmiðum er einfaldlega aðför að heilbrigðri skynsemi.
Með slíku tali er reynt að blekkja almenning og gefið til kynna að fulltrúar Íslands verði undanþágusmiðir gagnvart ESB. Ekkert slíkt er í boði. Engin þjóð verður aðili að ESB vegna fyrirvara sem hún setur og engri þjóð dettur í hug að sækja um aðild til að láta reyna á óskir sínar um fyrirvara. Þjóðir sækja um ESB-aðild til að verða fullgildir aðilar á öllum sviðum þess.
Efnislega er sjálft uppleggið sem ESB-aðildarsinnar kynna því stórgallað. Það knýr auk þess ekkert á um nauðsyn þess að sækja um aðild að ESB. Tímasetningin er alröng í ljósi heimsviðburða og þarfar þjóðarinnar fyrir öryggistryggingu. Stríð í Evrópu hafa ávallt rofið tengsl Íslands við meginland álfunnar. Bandaríkjamenn einir geta veitt þá tryggingu sem dugar, vilji þjóðir skapa vörn gegn ásókn stjórnenda alræðisríkja, Rússlands og Kína.
Grænlendingar gera sér fulla grein fyrir þessu. Afstaða þeirra til öryggis- og varnarmála bar árum saman svipað yfirbragð og sumra herstöðvaandstæðinga hér á landi. Það væri dýrmætt framlag til friðar að vera á móti NATO og bandarískum herstöðvum.
Í tilefni af áhuga Donalds Trumps á Grænlandi og gildi landsins fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna ræddi blaðamaður danska blaðsins Berlingske við Ole Wæver, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og alþjóðlega viðurkenndan fræðimann á sviði friðar- og öryggismála. Wæver segir augljóst að Grænlendingar taki nú afstöðu á grundvelli eigin geópólitískra hagsmuna og stöðu bæði í umræðum á heimavelli og við mótun stefnu sinnar.
Hann segist undrandi á að það setji ekki meiri svip á umræðurnar núna að Grænlendingar hafi greinilega sýnt að þeir skilji hvernig heimsmálum sé í raun háttað. Í fyrstu utanríkis-, öryggis- og varnarmálastefnu Grænlands sem hafi verið birt fyrir einu ári sé veruleg áhersla lögð á að sanna að Grænland sé traust samstarfsland Bandaríkjanna og NATO og ekki til sölu fyrir Rússa eða Kínverja. Grænlendingar vilji mynda öruggan hlekk í keðjunni. Í þessu felist einnig að Bandaríkjamenn þurfi ekki að óttast áhrifaleysi sitt verði Grænland sjálfstætt.
„Gamla andhernaðarlega afstaðan fól í sér gagnrýni á hernaðarlega viðveru Bandaríkjamanna og Thule-stöðina. Grænlendingar hafa hins vegar lagt sig fram um að sanna fyrir Bandaríkjamönnum að þrátt fyrir að þeir elski friðinn og friðarstarf sé hluti af þjóðlegri sjálfsmynd þeirra hafi þeir skilning á því sem sé nauðsynlegt fyrir vestrið, NATO, ESB, Bandaríkin og Danmörku,“ segir Ole Wæver.
Þarna er lýst svipaðri afstöðu og þeirri sem birtist í ágætum sjónvarpsþáttum um Vigdísi Finnbogadóttur þegar lagt var hart að henni í forsetakosningabaráttunni vorið 1980 að skilja á milli sín og herstöðvaandstæðinga, baráttumanna gegn NATO og varnarsamstarfinu við Bandaríkin. Hún sagðist í lokakappræðunum í sjónvarpi berjast fyrir friði en ill nauðsyn krefðist varna.
Þá ríkti friður í Evrópu en tekist var á um leiðir til að tryggja hann. Í desember 1979 samþykkti toppfundur NATO svonefnda tvíþætta stefnu NATO gagnvart Sovétríkjunum: (1) um öflugan fælingarmátt gegn þeim og (2) boð um viðræður til að minnka spennu.
Í aðdraganda forsetakjörsins 29. júní 1980, þegar Vigdís sigraði, færðist sífellt meiri hiti í deilur um öryggis- og varnarmál hér og annars staðar í Evrópu. Þá var keppni milli austurs og vesturs, kommúnisma og lýðræðis.
Donald Trump nefndi ekki Grænland í innsetningarræðu sinni 20. janúar. Það gerði hann þó síðar sama dag. Hann sagði Grænland stórbrotinn stað og að Bandaríkjamenn þyrftu á því að halda til að tryggja alþjóðlegt öryggi. Hann væri viss um að Danir myndu laga sig að því.
Ísland er aldrei nefnt þegar Trump ræðir Grænland en ummæli hans sýna áhuga hans á norðurslóðum. Að íslensk stjórnvöld nýti sér ekki áhugann og athyglina til að styrkja samband við nýja, framtakssama forystusveit í Bandaríkjunum heldur sýsli við gamlar ESB-aðildarmöppur er ekki góð hagsmunagæsla.