Tímareikningur fastur í sessi
Morgunblaðið, laugardagur 27. desember 2025.
Það eru ekki mörg íslensk lög aðeins ein setning. Það á þó við um lögin um tímareikning á Íslandi nr. 6/1968. Þau eru aðeins ein grein: 1. gr. Hvarvetna á Íslandi skal telja stundir árið um kring eftir miðtíma Greenwich.
Með lögunum sem samþykkt voru samhljóða á þingi og komu til framkvæmda 7. apríl 1968 kl. 01.00 var svonefndur sumartími lögfestur hér. Hefur sá tímareikningur gilt síðan.
Áður giltu tvenn lög um tímareikning, það er ákvörðun tímans, eldri lög frá 1907 og svo lög frá 1917 um heimild handa ráðuneyti Íslands til ákvörðunar sértaks tímareiknings. Þar er ráðuneytinu heimilað að breyta tímareikningi á Íslandi um allt að 1,5 klukkustundir með reglugerð. Þá kom sumartíminn til sögunnar.
Ráðuneytið ákvað að flýta klukkunni um klukkustund 1917-18 en svo aftur óslitið frá 1939 til 7. apríl 1968, í 29 ár.

Að baki lögfestingu nýja tímareikningsins 1968 lágu tillögur frá stjarnfræðingunum dr. Trausta Einarssyni og dr. Þorsteini Sæmundssyni sem veittu forstöðu útgáfu hins íslenska almanaks.
Segir sagan að Þorsteinn hafi gengið á fund Bjarna Benediktssonar, þáv. forsætisráðherra, og fært í tal nauðsyn þess að festa tímareikninginn á þennan veg. Bjarni hafi tekið erindinu vel en sagt: Þetta verður að festa í lögum. Það yrði með öðrum orðum tryggt að ekki yrði heimilt að breyta tímareikningnum með reglugerð eins og verið hafði frá 1917.
Það kom í hlut Jóhanns Hafstein dómsmálaráðherra að flytja lagafrumvarpið og gerði hann það með ræðu í neðri deild alþingis 8. febrúar 1968. Hann sagði að ekki alls fyrir löngu hefði ríkisstjórninni borist erindi um málið frá ofannefndum stjarnfræðingum. Eftir að ríkisstjórnin kynnti sér málið hefði henni þótt eðlilegt að leggja frumvarpið fyrir alþingi. Tóku þingmenn því vel.
Með frumvarpinu fylgdi ítarleg greinargerð vísindamannanna. Þeir benda á að sérstakur sumartími gilti í 205 til 210 daga á ári en svonefndur íslenskur miðtími í 155 til 163 daga. Birtutími á sumrin sé svo langur hér að myrkur sé sjaldnast til trafala. Gagnsemi þess að flýta klukkunni sé því ekki eins ótvíræð og í þeim löndum sem sunnar eru. Allt að einu hafi mönnum þótt það kostur að fá að njóta sólarbirtu klukkutíma lengur á kvöldin og því hafi margir verið hlynntir flýttri klukku. Af þeim sökum hafi reglunni um sumartíma verið haldið í gildi.
Trausti og Þorsteinn rekja síðan ókosti þess að breyta klukkunni í stað að festa sumartímann í sessi allt árið: (1) Breyting tvisvar á ári valdi ruglingi á áætlunartímum flugfélaga í millilandaflugi. (2) Tvisvar á ári verði að endurstilla allar stimpilklukkur og móðurklukkukerfi í landinu. (3) Breytingarnar valdi sífelldri rangtúlkun á hvers kyns tímatöflum, svo sem flóðtöflum í almanökum. (4) Ýmsar rannsóknir og mælingar, þar á meðal veðurathuganir, verði að fara fram á óbreyttum tímum árið um kring. (5) Færsla klukkunnar raski svefnvenjum margra, sérstaklega ungbarna. Séu kvartanir um þetta mjög algengar.
Það sé ekki sumartíminn sem skapi mönnum óþægindi heldur færsla klukkunnar fram og aftur tvisvar á ári. Þennan vanda megi leysa með því einfalda ráði að hafa sumartímann, flýtta klukku, allt árið.
Þá eru tíunduð rök fyrir að taka upp flýtta klukku allt árið: (1) Hún gildi þá þegar meirihluta ársins. (2) Hún samsvari miðtíma Greenwich, það er heimstímanum. (3) Breytingin færi Ísland klukkutíma nær meginlandi Evrópu í tíma. (4) Dagsbirta nýtist mun betur.
Neikvæðu áhrifin eru sögð þau að birting sé klukkutíma síðar að morgninum að vetri til. Um lengra skeið en ella yrði því myrkur þegar fólk færi til vinnu og börn í skóla.
Að öllu þessu athuguðu töldu stjarnfræðingarnir „rökin hníga að því að taka beri upp flýttan tíma hér á landi allt árið, þ.e. láta þann tíma sem nú gildir að sumrinu, gilda að vetrinum líka“. Þingmenn féllust á þessi rök, aðeins einn þingmaður, Gils Guðmundsson, gerði fyrirvara. Flýtt klukka kynni að verða til nokkurra óþæginda fyrir „lítil börn, sem fara snemma í skóla“. Vildi Gils að breytingin gilti til reynslu.
Nú 57 árum síðar er safnað er undirskriftum á Ísland.is undir fyrirsögninni: Vilt þú að klukkan á Íslandi verði leiðrétt og færð aftur um eina klukkustund?
Til stuðnings þessu segir að Ísland hafi fylgt röngu tímabelti frá árinu 1968. Sólin rísi hér um klukkustund seinna en klukkan segi og við vöknum á undan náttúrulegri birtu. Þetta seinki líkamsklukkunni, fjölgi dimmum morgnum og hafi áhrif á svefn, orku og líðan – sérstaklega hjá börnum og ungmennum.
Söfnunin hófst í byrjun nóvember og nú hafa um 7.000 skráð sig á listann. Hér er því ekki um hitamál að ræða.
Nokkrum sinnum hafa verið fluttar tillögur á þingi um varanlega seinkun klukkunnar til að bæta líðan landsmanna með minna morgunmyrkri og hafa þingmenn allra flokka átt þar hlut að máli.
Þá hafa verið fluttar tillögur um brottfall laganna frá 1968 og um sérstakan sumartíma, þegar klukkan yrði færð fram um 60 mínútur frá miðtíma Greenwich. Klukkunni verði breytt tvisvar á ári.
Til þessa hefur ekki verið hljómgrunnur fyrir breytingum, hvorki til seinkunar né flýtingar klukkunni á alþingi. Raunar hafa aldrei verið kynnt sjónarmið sem raska rökunum að baki einnar línu lögunum frá 1968. Þau standa enn fyrir sínu og hafa dugað þjóðinni vel.
Mörgu má og verður að breyta hér í samræmi við breytta tíma. Á hinn bóginn er óþarft að hrófla við því sem vel hefur reynst eins og lögin um tímareikning.