30.10.2021

Til heiðurs frú Dagnýju og sr. Geir

Dagskrá í Reykholtskirkju 30. október 2021

Heiðursgestir, góðir áheyrendur!

Í ár eru 100 ár frá frumsýningu kvikmyndarinnar Sögu Borgarættarinnar eftir sögu Gunnars Gunnarssonar skálds. Nú hefur verið gert stafrænt eintak af myndinni með frumsaminni tónlist eftir Þórð Magnússon tónskáld. Komið er til sögunnar nýtt, fullbúið listaverk sem lifir um aldir.

Þegar rætt var við Gunnar skáld um kvikmyndina árið 1968 virtist hann vondaufur um varðveislu myndarinnar þrátt fyrir sögulegt og menningarlegt gildi hennar, aðeins eldri menn þekktu umhverfi það sem þar kæmi fyrir sjónir.

Í kvikmyndinni gegna bæjarhúsin í Reykholti mikilvægu hlutverki sem ættaróðalið Borg og myndavélinni er oft beint að gamla torfbænum sem hér stóð og mætti kannski kalla næsta bæ við Snorra Sturluson.

Í aldargamalli kvikmyndinni birtist augljós tenging húsakosts Reykholtsstaðar við miðaldir.

Nú er öldin hins vegar allt önnur – þó hafa aðeins tvenn prestshjón setið Reykholt í 84 ár af síðustu 100 árum, séra Einar Guðnason og frú Anna Bjarnadóttir 1930 til 1972 og séra Geir Waage og Dagný Emilsdóttir 1978 til 2020.

Í tíð séra Einars var héraðsskólahús Guðjóns Samúelssonar reist og nú árið 2021 eru 90 ár liðin frá því að það var tekið í notkun.

Þegar sjö aldir voru liðnar frá dauða Snorra Sturlusonar 23. september 1941 var dánarafmælisins minnst með hátíð hér í Reykholti. Skipaútgerð ríkisins flutti að vistir, „var minni hins fræga Reykholtsbónda drukkið með miklum fögnuði“ og fluttar ræður og kvæði. „Var þetta í fyrsta sinn eftir dauða Snorra Sturlusonar, að hans var minnzt með nokkrum mannfagnaði á Íslandi,“ segir Jónas Jónsson frá Hriflu í bók sinni um Snorrahátíðina árið 1947 þegar Ólafur, konungsefni Norðmanna, vígði styttu Gustavs Vigelands af Snorra fyrir framan sundlaug skólahússins.

1245527Sr. Geir og frú Dagný á nýju heimili sínu í Reykholti (mynd mbl./Árni Sæberg).

Þegar séra Geir hafði setið hér í fjögur ár eða árið 1982 hófst önnur endurreisn í Reykholti.

Með stórhuga sóknarnefnd Reykholtskirkju hóf prestur að reisa nýja kirkju, ekki aðeins fyrir kirkjulegt starf heldur einnig með aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum og til að heiðra minningu Snorra Sturlusonar.

Í tíð séra Einars fyrir réttum 80 árum var dauða Snorra fyrst minnst með nokkrum mannfagnaði í Reykholti.

Í tíð séra Geirs kom síðan Snorrastofa til sögunnar í húsakynnum kirkjunnar. Þar er skipulega lögð rækt við framlag Reykholtsbóndans fræga til menningar Íslendinga og heimsbyggðarinnar allrar. Fræðimenn sækja staðinn heim og til hefur orðið einstakt miðaldabókasafn undir merkjum Snorrastofu.

Með starfi Snorrastofu hef ég því fylgst frá fyrsta degi. Séð hana vaxa og dafna og blómstra umfram glæstar vonir í höndum Bergs Þorgeirssonar og samstarfsfólks hans.

Til þess starfs alls hefði þó aldrei komið nema vegna þess hver umgjörðin er og hvaða hugur bjó að baki hjá presti og sóknarnefnd sem ákveður í umboði safnaðarfundar hver fer með formennsku í stjórn. Þakka ég fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt af nefndinni síðan 2012.

Þá hefur frú Dagný átt ómetanlegan þátt í að móta fallega umgjörð Snorrastofu og þá velvild sem gestum og gangandi er sýnd. Hingað kemur enginn án þess að finna að hann er velkominn.

Þegar frú Dagný og sr. Geir tóku á móti Haraldi Noregskonungi og Sonju drottningu og meira en 200 Norðmönnum í fögru veðri 29. júlí árið 2000 var öllum ljóst að framganga prestshjónanna gaf staðnum þann heiðurs- og virðingarblæ sem sæmdi konungshjónunum.

*

Margar góðar stundir og samtöl höfum við átt um málefni staðarins. Allt hefur það gengið fram á besta veg og er aðdáunarvert hve vel Bergi og sr. Geir hefur tekist að standa að öllum framkvæmdum. Án farsæls samstarfs þeirra hefði aldrei náðst sá árangur sem hvarvetna er sýnilegur.

Þetta einstæða samstarf kirkju og menningarstofnunar er nú öðrum fyrirmynd eins og birtist í kveðju sem nágranni minn á Rangárvöllum, Friðrik Erlingsson rithöfundur, bað mig að flytja þeim frú Dagnýju og séra Geir frá stjórn Oddafélagsins. Hún þakkar þeim mikið uppbyggingarstarf sem sé stjórninni sannarlega innblástur og hvatning.

Að Odda er nú unnið að undirbúningi framkvæmda þar sem hugmyndir eru sóttar í smiðju Reykhyltinga. Má líta á stuðning héðan sem fósturlaun fyrir Snorra í Odda á árum áður.

Góðir áheyrendur!

Í meira en aldarfjórðung hef ég átt samstarf við sr. Geir um málefni Reykholts. Sporin voru þung þegar við gengum saman í héraðsskólann sem hafði munað sinn fífil fegri í sumarbyrjun 1995 og ég tilkynnti að sjálfstæðum rekstri hans væri lokið. Í blaðagrein var komist svo að orði að þá hefði ég ekki verið „vinsælasti maður í Reykholtsdal“.

Ég vissi að presturinn stóð mér við hlið og hann léti sér ekki allt fyrir brjósti brenna heldur væri tilbúinn til nýrra átaka. Undir forsjá hans tók staðurinn síðan á sig þann svip sem við blasir í dag.

Skólahúsið hefur aldrei verið betur úr garði gert en núna og vonandi líða ekki mörg ár þar til að það nýtist allt í þágu Snorrastofu. Hitaveita hefur verið endurnýjuð, framleiðsla raforku er hafin, hótel endurgert og stækkað og land brotið undir ný íbúðarhús.

Handbragð prestshjónanna prýðir staðinn og þá hefur sr. Geir lagt sig mjög fram um skógrækt. Breytingum vegna hennar hér og í nágrenninu hefur verið líkt við kraftaverk.

Þar má til dæmis nefna aldamótaskóginn svonefnda. Skógræktarfélag Borgarfjarðar átti hlut að honum í Reykholti ásamt heimamönnum og Kór evrópskra menningarborga sem dvaldist í kirkjunni við æfingar á árinu 2000.

*

Þegar sr. Geir tekur til máls og ávarpar gesti verður Snorri og staðurinn ljóslifandi í orðum hans. Hann er jafnvígur á sögu Noregs og Íslands.

Hér voru um árið Norðmenn sem töldu sig sögufróða og vildu fræða okkur Íslendinga um endurreist Gulaþing. Mátti þó helst ætla að þá fyrst hefðu þeir skilið rætur norskrar sögu eftir að hafa heimsótt Reykholt og fræðst af presti.

Við Bergur fórum með sr. Geir til Björgvinjar árið 2015 þegar hollvinafélag Snorra var stofnað þar á dánardægrinu 23. september á hátíðlegum fundi í Bryggens Museum en þar við hliðina stendur hin afsteypan af Snorrastyttu Vigelands.

Björgvin var um aldir hlið Íslendinga að umheiminum og á göngu um slóðir Noregskonunga þar brá sr. Geir nýju ljósi á Íslandssöguna og fór utan að með langa, forna texta máli sínu til stuðnings.

*

Kirkjulegar athafnir sr. Geirs eru ekki síður minnisstæðar en ferð með honum um söguna. Prédikunin í kveðjumessu hans 4. júlí nú í sumar var svo vel samin og flutt að varla verður betur gert.

Ógleymanleg er einnig stundin hér í kirkjunni 27. júlí 2008 þegar séra Sigurbjörn Einarsson biskup prédikaði 97 ára gamall. Þetta var síðasta prédikun aldna kirkjuhöfðingjans sem andaðist 28. ágúst þetta sama ár.

Í ræðunni fullvissaði biskupinn okkur enn og aftur á sinn einstæða hátt um návist Jesú Krists, hann væri í gær og í dag hinn sami og um aldir. Kristin trú væri auk þess helgasta arfleifð og dýrmætasta eign þjóðarinnar.

Þessu leiðarstefi hefur sr. Geir fylgt af ræktarsemi við það sem honum var ungum falið til umsjár hér í Reykholti.

Kirkjubyggingin þar sem við nú stöndum er til marks um stórhug hans og óttaleysi við verkefni sem ekki hafa öll verið árennileg.

Góðir áheyrendur!

Það er ungum manni ómetanlegt að vera trúað fyrir miklu. Síðan eru það forréttindi að fá að lifa til að sjá ævistarfið bera glæsilegan ávöxt.

Hvert sem litið er í Reykholti má sjá merki grósku og dafnandi mannlífs. Það er besti vitnisburðurinn um árangurinn af starfi prestshjónanna og framlagi þeirra til menningar og farsældar byggðar sinnar.

Fyrir þetta allt og vináttuna eru færðar innilega þakkir.