22.11.2025

Þriggja daga tollastríð

Morgunblaðið, laugardagur 22. nóvember 2025.

Fréttirnar 18. nóvember um að 17 af 27 aðildarríkjum ESB hefðu hafnað tillögu um að undanskilja Ísland og Noreg við framkvæmd verndaraðgerða vegna kísiljárns vöktu pólitíska reiði og öldu efasemda um gildi EES-samningsins í löndunum tveimur.

Réttilega er bent á að sérkennilegt sé að grípa til slíkra aðgerða gegn EES/EFTA-ríkjum af ekki meira tilefni. Ráðstafanirnar eru gerðar til að vernda 1.800 af 200 milljón störfum innan ESB. Pólverjar, Slóvakar og Frakkar beittu sér fyrir málinu og atkvæðagreiðsla fulltrúa ESB-ríkjanna batt enda á 11 mánaða rannsókn á vegum framkvæmdastjórnar ESB á lagalegum hliðum málsins.

Lögfræðingar utan ráðgjafahóps framkvæmdastjórnarinnar eru ekki á einu máli um túlkun á 112. gr. EES-samningsins og þeirri öryggisvernd sem ákvæðið heimilar. Þeir benda á að verndarráðstafanir af þessu tagi eigi almennt að beinast að mun meiri og brýnni hagsmunum en hér séu í húfi. Þeir vara við að svo víðtæk beiting ákvæðisins geti veikt traust á EES-samningnum og grafið undan þeirri samheldni sem samningurinn á að tryggja meðal samningsaðila.

Slóvakinn Maroš Šefčovič fer með viðskipta- og verndartollamál í framkvæmdastjórn ESB auk fleiri málefna, þar á meðal framkvæmd EES-samningsins. Hefur hann jafnan borið mikið lof á samninginn.

Í upphafi þessa árs lagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýr utanríkisráðherra, land undir fót til að kynna sjálfa sig og stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún fór til Brussel og hitti Maroš Šefčovič. Lagði ráðherrann áherslu á vilja ríkisstjórnar Íslands til að efla samstarf Íslands og Evrópusambandsins enn frekar, staðinn yrði vörður um EES-samstarfið og það styrkt á viðsjárverðum tímum á alþjóðavettvangi. Þá kynnti utanríkisráðherra stefnu ríkisstjórnarinnar um að gengið yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að ESB eigi síðar en árið 2027.

Í tengslum við þessa ferð Þorgerðar Katrínar lét talsmaður stækkunardeildar ESB þess óvænt getið í samtali við Björn Malmquist, fréttamann ríkisútvarpsins, að deild sín teldi Ísland enn ESB-umsóknarríki. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, lýsti Íslandi einnig sem umsóknarríki 17. júlí 2025 þegar hún var hér einn dag í boði Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.

Eftir komu von der Leyen hingað átti að vinna að tveimur verkefnum: (1) gerð samstarfsyfirlýsingar milli Íslands og ESB um öryggis- og varnarmál og skyldi verkinu lokið á þessu ári; (2) endurskoðun á viðskiptakjörum Íslands við ESB. Tekið var fram að engin slík endurskoðun hefði farið fram síðan EES-samningurinn tók gildi. Jafnframt var ákveðið að styrkja samráð milli íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB um utanríkisviðskiptamál og auka upplýsingaskipti.

5V4A0920Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ásamt Espen Barth Eide utanríkisráðherra Noregs á fundi í Brussel 20. nóvember 2025 (mynd: EFTA).

Nú réttum fjórum mánuðum eftir komu von der Leyen hingað ríkir uppnám í samskiptum ESB og Íslands. Samstarfsyfirlýsingin um öryggis- og varnarmál er tilbúin en utanríkisráðherra skrifar ekki undir hana vegna þess að ESB sýnir viðskiptakjörunum við Ísland algjöra lítilsvirðingu með refsiaðgerðunum gagnvart járnblendinu.

Uppnámið er óskiljanlegt í ljósi þess sem lá fyrir í júlí. Þrátt fyrir yfirlýsinguna 17. júlí virðist sem ráðherrarnir hafi annaðhvort stuðst við ófullnægjandi upplýsingar eða gróflega ofmetið andstöðuna innan ESB gegn verndartollunum. Margt bendir til þess að brugðist hafi verið við á síðustu stundu og að mat á stöðunni innan ESB hafi verið rangt. Endurtekin frestun atkvæðagreiðslunnar í ESB var túlkuð sem jákvætt merki en reyndist ekki endurspegla aukinn stuðning. Eina óvænta stuðningsríkið reyndist vera Ungverjaland. Skýra ætti hvernig stuðningurinn þaðan fékkst.

Ríkisstjórnina skortir sterkt aðhald í þessu máli af hálfu stjórnarandstöðunnar.

Í stað þess að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir slaklega framgöngu beinir stjórnarandstaðan reiði sinni að EES-samningnum. Samningurinn breytist þó ekkert við þetta. Það verður á hinn bóginn að gæta hagsmuna Íslands á grundvelli hans og sú skylda hvílir fyrst og síðast á ríkisstjórninni.

Það er hlutverk lögfræðinga að færa pólitískar ákvarðanir í lögmætan búning. „Svona kemur maður ekki fram í garð nánustu samstarfsríkja. Leiðtogar Evrópusambandsins hafa ítrekað sagt að EES-ríkin séu nánast eins og aðildarríki en sparka svo skyndilega í samstarfsríki sín með þessum ósanngjarna hætti,“ sagði dr. Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, við Morgunblaðið 19. nóvember. Lögfræðin skiptir máli, en pólitíkin vegur þyngra þegar upp er staðið.

Þetta sannaðist að morgni fimmtudagsins 20. janúar. Kristrún Frostadóttir ræddi við von der Leyen í síma. Forsætisráðherra fagnaði því að fá staðfest að ákvörðun ESB væri „hliðarspor“ og þar með stæði „EES-samningurinn sterkur“.

Lettinn Valdis Dombrovskis, sem fer með efnahags- og framleiðnimál í framkvæmdastjórn ESB, sat þennan sama fimmtudag fund í ráðherraráði EES en ekki Maroš Šefčovič. Eftir fundinn sagðist Þorgerður Katrín „vera ánægð með þau skilaboð sem hefðu komið frá framkvæmdastjórninni um mikilvægi samstarfsins milli EES-ríkjanna og Evrópusambandsins,“ svo vitnað sé í ríkisútvarpið.

Ríkisstjórnin jarðaði málið sem sagt á þriðja degi. Hún snýr sér nú að því að koma okkur inn í ESB. Þar njótum við forystu þeirra sömu stjórnmálasnillinga og ráðgjafa sem höfðu enga stjórn á gangi járnblendimálsins, hrópuðu upp yfir sig en sátu og stóðu eins og framkvæmdastjórn ESB vildi.