23.7.2022

Þjóðverjar snúa frá Rússagasi

Morgunblaðið, laugardagur 23. júlí 2022.

Í mörg ár var varað við því að rúss­nesk stjórn­völd kynnu að beita orku­vopn­inu gegn Evr­ópu, teldu þau sér það nauðsyn­legt. Varnaðarorðin féllu í grýtt­an jarðveg. Þýsk stjórn­völd réðu mestu um það. Nú seg­ir Olaf Scholz Þýska­landskansl­ari að Rúss­ar beiti bæði orku­vopni og mat­væla­vopni til að ná sínu fram í Úkraínu, sam­hliða sprengju­árás­um á al­menna borg­ara.

Vla­dimir Pút­in fór í byrj­un vik­unn­ar í fyrstu ut­an­lands­ferð sína frá því að hann hóf Úkraínu­stríðið fyr­ir fimm mánuðum. Sat hann fund í Teher­an með Ayatollah Ali Khamenei, drottn­ara Írans, og Recep Tayyip Er­dog­an, Tyrk­lands­for­seta. Khamenei hvatti til lang­tíma­sam­starfs við Rússa, enda þyrftu þjóðirn­ar að vera á verði gegn „vest­ræn­um svika­brögðum“. Pút­in og Er­dog­an töldu sig geta opnað sigl­inga­leiðir með hveiti og korn til svelt­andi þjóða.

Er­dog­an vildi svig­rúm til að berj­ast við Kúrda í Norður-Sýr­landi. Rúss­ar og Íran­ir halda hlífiskildi yfir Bashad al Assad, ein­ræðis­herra í Sýr­landi, óvini Er­dog­ans. Sér­staka at­hygli vakti að Er­dog­an gerði sig merki­leg­an og lét Pút­in bíða eft­ir sér fyr­ir fram­an sjón­varps­vél­arn­ar. Þetta var fyrsti fund­ur þeirra aug­liti til aug­lit­is frá því að Pút­in hóf stríðið.

Eft­ir að fund­um valds­mann­anna lauk þriðju­dag­inn 19. júlí, sneri Pút­in sér að gassölu til Evr­ópu. Þjóðverj­ar telja það yf­ir­varp þegar Pút­in læt­ur eins og ekki sé unnt að senda gas eft­ir Nord Stream 1 leiðslunni vegna fjar­veru túr­bínu sem hef­ur verið í viðgerð hjá Siem­ens í Kan­ada. Hún er nú á leiðinni um Þýska­land til Rúss­lands. Þá heimt­ar Pút­in viðgerð á ann­arri túr­bínu.

OLFQAYASQJMNZG46IN7FDYMBCIÓvíst er hve mikið gas verður nú flutt með Nord Stream 1 eft­ir lok­un leiðslunn­ar í 10 daga vegna ár­legs viðhalds. Var jafn­vel talið lík­legt að Rúss­ar mundu ekki opna leiðsluna að nýju. Þeir gerðu það þó fimmtu­dag­inn 21. júlí en gas­magnið sem fer um hana er minna en áður. Rúss­ar vilja ekki sleppa póli­tísku gastök­un­um á Evr­ópu sem þeir gerðu með því að loka al­veg fyr­ir Nord Stream 1 leiðsluna.

Fram­kvæmda­stjórn ESB hvatti í vik­unni þjóðir sam­bands­ins til að minnka notk­un sína á jarðgasi um 15% frá 1. ág­úst 2022 til 31. mars 2023 til að tak­ast á við sam­drátt í gas­kaup­um af Rúss­um. Jafn­framt fer fram­kvæmda­stjórn­in fram á heim­ild til að grípa til skömmt­un­ar á gasi sé henn­ar tal­in þörf. Ráðherr­ar ESB-ríkj­anna taka af­stöðu til þess­ara til­lagna 26. júlí.

ESB hef­ur ákveðið að banna inn­flutn­ing á rúss­neskri olíu frá og með ára­mót­um en ekki er lagt bann við inn­flutn­ingi á rúss­nesku gasi.

Í tólf ríkj­um af 27 inn­an ESB hef­ur notk­un á rúss­nesku gasi þó verið hætt. Frá ára­mót­um hef­ur Hol­lend­ing­um tek­ist að minnka gasnotk­un sína um þriðjung. Talið er að þrír þætt­ir skipti mestu: óvenju­lega mild­ur vet­ur, kola­kynt orku­ver og þá hef­ur gasnotk­un dreg­ist mikið sam­an. Gassparnaður­inn hjá fyr­ir­tækj­um og heim­il­um veg­ur þyngst. Stjórn­völd hófu skipu­lagða her­ferð í apríl til að lækka hús­hita með því að minnka gas­straum­inn og hvöttu jafn­framt til betri ein­angr­un­ar húsa og kaupa á orku­spar­andi tækj­um.

Hvort Þjóðverj­ar, sem treysta mest á gas frá Rússlandi, feta í fót­spor Hol­lend­inga, kem­ur í ljós. Þýsk­ir orku­reikn­ing­ar hækka stöðugt. Það blas­ir við þýsk­um al­menn­ingi og stjórn­mála­mönn­um að veru­leg hætta og mik­ill kostnaður fylg­ir rúss­nesku gas­stefn­unni sem hófst með jafnaðar­mann­in­um Ger­h­ard Schröder á kansl­ara­stóli og hélt áfram í tíð kristi­lega demó­krat­ans Ang­elu Merkel.

Þýsk stjórn­völd vinna ekki aðeins að gjör­breyttri stefnu í orku­mál­um, held­ur glíma einnig við al­var­leg­an fjár­hags­vanda gas­fyr­ir­tækja í land­inu. Þar er stærst orku­fyr­ir­tækið Uniper, dótt­ur­fyr­ir­tæki Fort­um í meiri­hluta­eign finnska rík­is­ins. Vegna sam­drátt­ar í viðskipt­um við rúss­neska fyr­ir­tækið Gazprom ramb­ar Uniper á barmi gjaldþrots. Þýska ríkið eitt er talið geta bjargað því frá falli. Lík­legt er að þýsku rík­is­fé verði dælt inn í Uniper. Í Berlín ótt­ast ráðamenn að hrun fyr­ir­tæk­is­ins hefði svipuð áhrif á orku­markaðinn og fall Lehm­an Brot­h­ers á fjár­mála­markaðinn síðsum­ars 2008.

Fram­kvæmda­stjórn ESB er til­bú­in til að sam­ræma sam­eig­in­leg gas­kaup fyr­ir aðild­ar­rík­in og hef­ur einnig gert birgðasamn­inga við nokk­ur ríki, þar á meðal Banda­rík­in, Nor­eg, Aser­baíd­sj­an, Kat­ar og Ísra­el. Ítal­ir huga að samn­ing­um um kaup á gasi frá Als­ír, hand­an Miðjarðar­hafs.

Mark­mið ESB er að fyr­ir 1. nóv­em­ber verði evr­ópskt birgðarými fyr­ir gas allt að 80% fullt. Nú er birgðahlut­fallið 65%, miðar hægt að settu marki.

„Ég er sann­færð um að okk­ur tekst sam­an að sigr­ast á þess­ari orkukreppu. Til­raun Rússa til að beita okk­ur fjár­kúg­un í vet­ur mun mistak­ast. Við kom­um sterk­ari frá þessu,“ sagði Ursula von der Leyen þegar hún kynnti gassparnaðar­stefnu ESB miðviku­dag­inn 20. júlí. Sum­ir telja að vísu að til­raun Pút­ins til fjár­kúg­un­ar tak­ist. Wolfgang Munchau, rit­stjóri og álits­gjafi, sagði ný­lega á vefsíðunni Euroin­telli­gence að opnaði Pút­in Nord Stream 1 leiðsluna að nýju, sem hann gerði, gæt­um við verið full­viss um að hann hefði „geir­negld­ar trygg­ing­ar frá þýsk­um vin­um sín­um fyr­ir að þeir kaupi rúss­neskt gas áfram“.

Hvort þessi spá er rétt, veit eng­inn. Ekk­ert póli­tískt traust er hins veg­ar leng­ur í sam­skipt­um Þjóðverja og Rússa. Í því skjóli tókst Pút­in að hreiðra bet­ur um sig í Evr­ópu en góðu hófi gegndi. Fokið er í það sam­hliða ákvörðunum um að þýski her­inn skuli stór­efld­ur.

Það er tíma­frekt og hvorki auðvelt né ódýrt að snúa þýsku þjóðarskút­unni í átt frá Rússlandi og gasi Pút­ins. Sú ferð er þó haf­in.