4.7.2024

Þingtíðindi gefin Alþingi

Í dag (4. júlí) var athöfn í Alþingishúsinu í boði forsætisnefndar þingsins þegar við systkinin afhentum Alþingi til eignar og varðveislu Alþingistíðindi 1845 til 1971 sem hafa verið í eigu þriggja þingforseta. Þeir voru:

Magnús Stephensen (1836 – 1917)

Konungkjörinn alþingismaður 1877–1886. Alþingismaður Rangæinga 1903–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).

Landshöfðingi 1886–1904.

Forseti sameinaðs þings 1883, forseti neðri deildar 1905–1907.

Benedikt Sveinsson (1877 – 1954)

Alþingismaður Norður-Þingeyinga 1908–1931 (Sjálfstæðisflokkurinn eldri (Landvarnarflokkurinn), Sjálfstæðisflokkurinn þversum, Sjálfstæðisflokkurinn eldri, Borgaraflokkurinn eldri, Framsóknarflokkur).

Forseti neðri deildar 1920–1930. 1. varaforseti neðri deildar 1911 og 1916–1917, 2. varaforseti neðri deildar 1914.

Bjarni Benediktsson (1908 – 1970)

Alþingismaður Reykvíkinga 1942–1946 og 1949–1970, landskjörinn alþingismaður (Reykvíkinga) 1946–1949 (Sjálfstæðisflokkur).

Utanríkis- og dómsmálaráðherra 1947–1949 og 1950–1953, utanríkis-, dóms- og menntamálaráðherra 1949–1950, dóms- og menntamálaráðherra 1953–1956, dóms-, kirkju-, heilbrigðis- og iðnaðarmálaráðherra 1959–1961 og 1962–1963, forsætisráðherra 1961 og 1963–1970.

Forseti sameinaðs þings 1959. 2. varaforseti sameinaðs þings 1942–1943.

Att.zfCiUzHzrhl1QaHKp6r1SWTzbMOlAhGj7WQ0P6Yt5LoTil vinstri við borðið: Valgerður Bjarnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Oddný G. Harðardóttir, Halldór Blöndal, Birgir Ármannsson, Andrés Ingi Jónsson, Ragna Árnadóttir. Til hægri við borðið: Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, Heiðar Guðjónsson, Sigríður Sól Björnsdóttir, Rut Ingólfsdóttir, Björn Bjarnason, Hrafn Þórisson, Guðrún Bjarnadóttir, Þórir Baldvin Hrafnsson, Ragnheiður Dögg Ísaksdóttir, Bjarni Markússon (mynd: Alþingi).

Bækurnar, sem eru nokkur hundruð á um 15 hillumetrum, voru á heimili Bjarna Benediktssonar Háuhlíð 14, Reykjavík, frá maí 1955 til 1. júlí 2024 – frá 1970 í vörslu okkar Rutar, húseigendanna.

Í fáeinum orðum sem ég flutti við afhendingu bókanna taldi ég það hafa sérstakt gildi að þær tengdust nöfnum þriggja þingforseta sem spönnuðu tæplega eina öld í sögu Alþingis. Í hópi okkar værum við þrjú sem setið hefðum á Alþingi og ættum Benedikt Sveinsson fyrir afa. Frændi okkar systkina, Halldór Blöndal, hefði auk þess verið þingforseti 1999 til 2005.

Ástæðan fyrir að ég hætti að láta binda þingheftin hefði verið að þau tóku að koma út aðgengileg til lestrar án þess að skera þyrfti upp úr þeim. Í forsetatíð Halldórs hefði síðan verið tekið til við að skanna gömul þingtíðindi á Ólafsfirði og nú væru þau aðgengileg frá upphafi á netinu með leitarbúnaði.

Ég taldi að það hefði sérstakt gildi að varðveita þennan hluta þingtíðindanna innbundinn sem samstæða heild og engum væri betur unnt að treysta til þess en Alþingi sjálfu sem vissulega á sitt eigið heildarsafn.

Fyrir utan þingtíðindin afhentum við forseta Alþingis til varðveislu gamlar útgáfur af stjórnarskránni og þingsköpum sem gjarnan voru prentuð í litlum kverum fyrir þingmenn og aðra til að hafa við höndina. Þá fylgdu einnig nokkur sérprent gjöfinni.

Í hverri bók er límmiði þar sem stendur: Gjöf úr bókasafni Bjarna Benediktssonar, 1908 – 1970, prófessors, borgarstjóra, alþingismanns og ráðherra.

Fulltrúar forsætisnefndar og Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis, undir forystu Birgis Ármannssonar þingforseta, þökkuðu gjöfina og buðu okkur að þiggja kaffiveitingar í fundarherbergi forsætisnefndar. Síðan fórum við í skoðunarferð um Smiðjuna, nýtt og glæsilegt skrifstofuhús Alþingis.

Nöfn þeirra sem tóku þátt í athöfninni má sjá í texta með mynd sem hér fylgir.

Hér fyrir neðan eru myndir teknar frá efstu hæð Smiðjunnar - nýtt sjónarhorn:

IMG_0158Landakotshæðin.

IMG_0166_1720118772355Ráðhúsið og Tjarnargatan