13.9.2025

Þingsetningarræður tveggja forseta

Morgunblaðið, laugardagur, 13. september 2025.

Ríkisstjórnin hélt svo illa á helsta baráttumáli sínu fyrri hluta ársins, veiðigjaldsmálinu, að hún náði því ekki í gegnum alþingi án þess að beita stjórnarandstöðuna ofríki, svipta hana málfrelsi. Í stað þess að beita sér fyrir sáttum í anda lýðræðislegra stjórnarhátta var beitt valdi.

Við setningu alþingis þriðjudaginn 9. september sagði frú Halla Tómasdóttir forseti Íslands að vegna málþófs á þingi væri „hugsanlega tímabært að hugleiða breytingar á þingskapalögum, jafnvel á stjórnarskránni“. Já, sjálfri stjórnarskránni, án þess að forseti skýrði orð sín nánar. Það mætti ekki og ætti ekki að vera keppikefli þingmanna „að halda áfram að setja met í málþófi“.

Óvenjulegt er, en þó ekki einsdæmi, að forseti Íslands finni þannig að störfum þingmanna. Það er örugglega rangt að nokkrum þingmanni sé þóf af þessu tagi „keppikefli“. Fréttir um tímamælingar eru birtar til að lítillækka þingmenn og störf þeirra.

Þegar um málþóf er rætt verður að skoða hvert mál fyrir sig. Maraþonumræður á undanförnum sex árum tengdar framkvæmd EES-samningsins eru tilefnislaus upphlaup nema ræðumenn vilji grafa undan EES-samstarfinu.

Annað á við um veiðigjaldsmálið á vorþinginu. Strax þegar hugmyndin um frumvarpið var kynnt á þeirri forsendu að um „leiðréttingu“ væri að ræða birtist tilraun til að beita blekkingum því til stuðnings.

Allar viðvaranir um neikvæð áhrif frumvarpsins á lítil og meðalstór fyrirtæki voru að engu hafðar. Blásið var á ábendingar um að nýsköpun myndi rýrna vegna ákvæða í frumvarpinu. Stuðningsmenn frumvarpsins létu sér í léttu rúmi liggja að grafið yrði undan viðleitni til að auka fjölbreytni í atvinnulífi með þekkingarstörfum víða um land.

Í samræmdum málflutningi stjórnarsinna birtist sú blekking að þeir sem töluðu gegn veiðigjaldsfrumvarpinu væru andvígir hærri gjöldum fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Deilan snerist þó ekki um markmið heldur leiðir. Einmitt þess vegna hefði mátt finna sáttaleið í málinu og ljúka því án þess að forseti þingsins beitti ofríki – þingforseti á að starfa í þágu sátta.

Rislága ríkisstjórnin vildi hins vegar ekki sættir. Hún varð stærri í eigin augum með því að lemja á stjórnarandstöðunni. Spunaliðar hennar, samfylkingarmennirnir Þórður Snær Júlíusson og Heimir Már Pétursson, stóðu á hliðarlínunni og hvöttu stjórnarliðið til dáða.

Heimir Már, framkvæmda- og upplýsingastjóri Flokks fólksins, skrifaði á Vísi 15. febrúar 2025: „Undanfarnar vikur höfum við orðið vör við hjákátlegt jarm og á köflum hljóð sem minna á væl og öskur út úr hrútakofa biturra manna sem kunna tungu sinni ekki forráð vegna þeirra miklu vonbrigða sem þeir urðu fyrir að afloknum síðustu alþingiskosningum.“

Hve oft heyrðist ekki þetta stef? Eftir að forseti þingsins beitti valdi í stað sátta sagði Þórður Snær á Vísi að þingforseti hefði þurft „að leysa úr afar flókinni stöðu þegar fyrir lá að búið var að taka þingstörfin í gíslingu“. Þórður Snær hæddist að sáttavilja stjórnarandstöðunnar þótt hann viðurkenndi að hún hefði kynnt tillögur til sátta.

Áróðurinn hafði áhrif eins og sjá má þegar einn stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar sagði nú á þingsetningardaginn að minnihlutinn hefði haldið „þinginu vikum saman í gíslingu“ og síðan: „Við erum með meirihlutaríkisstjórn, sem reynir að ná málamiðlun en minnihlutinn hefur bara ekki áhuga á því.“ Þarna er sannleikanum einfaldlega ranghvolft. Forseti alþingis stóð með andstæðingum sátta og málamiðlunar en með valdinu.

ImagesthsvÞórunn Sveinbjarnardóttir, forseti alþingis (skjámynd/RÚV).

Á lokadegi þings 14. júlí 2025 flutti Hildur Sverrisdóttir, þáv. þingflokksformaður sjálfstæðismanna, yfirlýsingu fyrir hönd þingflokka stjórnarandstöðunnar. Hún sagði að Þórunn Sveinbjarnardóttir þingforseti hefði með framgöngu sinni á fordæmalausan hátt skapað „trúnaðarbrest á milli stjórnarandstöðunnar og forseta“. Valdbeiting kallaði á viðbrögð og varkárni þess sem yrði fyrir henni. Ákvörðun forseta væri ekki án afleiðinga og yrði ekki án afleiðinga, hún myndi lita samskipti og setja svip á þinghald kjörtímabilsins. Vegna trúnaðarbrestsins kæmust þingflokkar ekki hjá því að líta svo á að forseti væri fyrst og fremst fulltrúi meirihlutans en ekki forseti alls þingsins.

Þetta er rétt. Þórunn Sveinbjarnardóttir gat sagt af sér sem forseti eða beðist afsökunar. Hún hét bót og betrun í þingsetningarávarpi. Það hefði verið fullreynt, sagði hún, að samningar um þinglok myndu ekki takast. Það hefðu vissulega verið „vonbrigði að samningaleiðin reyndist ekki fær“ og af því þyrfti „þingheimur að draga lærdóm, bæði stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar“.

Hún tæki fulla ábyrgð á beitingu 71. gr. við þær aðstæður sem ríktu í sumar. Nú þyrfti hún hins vegar „að endurvinna traust margra í þessum sal“ og að því ætlaði hún að vinna af heilindum. Hvatti hún til „skilvirkari“ þingstarfa, margt mætti færa til betra horfs í góðri sátt og samvinnu.

Það er ómerkilegt þegar menn utan þings segja þingmenn hafa „orðið sér til skammar“ með því að nýta málfrelsi sitt, helgan rétt sinn. Það sé „bara alveg sjálfsagt að forseti lýðveldisins hafi orð á því við þingsetningu“. Hljóp forseti Íslands á sig? Er nær að spyrja þegar ræðan er skoðuð.

Alþingi er vinnustaður þar sem ríkja verður trúnaður milli manna. Um það snerust ræður Hildar Sverrisdóttur í þinglok og Þórunnar Sveinbjarnardóttur í upphafi þings.

Meirihlutinn verður að vinna í anda sáttar en ekki valdbeitingar.