24.1.2026

Stórveldahagsmunir og landafræði

Morgunblaðið, laugardagur 24. janúar 2026

Þegar nú er rætt um að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Mark Rutte, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hafi miðvikudaginn 21. janúar lagt grunn að samningsramma til að létta af þrýstingi Trumps vegna hernaðaraðstöðu Bandaríkjanna á Grænlandi rifjast upp ritgerð dr. Þórs Whitehead, fyrrverandi prófessors í sagnfræði, sem birtist í Skírni árið 1976. Þar er fjallað um sömu grundvallarspurningu: Hvers vegna sækjast stórveldi eftir strategísku landsvæði?

Trump hefur nú sagt að hann vilji tryggja Bandaríkjaher aðstöðu á Grænlandi „að eilífu“. Það orðalagið eitt nægir til að vekja athygli hjá þeim sem búa yfir sögulegri reynslu af slíkum kröfum.

Ritgerð Þórs ber fyrirsögnina Lýðveldi og herstöðvar 1941-1946 og fjallar meðal annars um herverndarsamninginn sem stjórnir Bandaríkjanna, Bretlands og Íslands gerðu sumarið 1941, þegar Bandaríkjamenn tóku við hervernd Íslands af breska hernámsliðinu. Þór bendir á að herverndin hafi ekki sprottið af sérstöku öryggismati á Íslandi, heldur af pólitískri þörf Franklins D. Roosevelt forseta til að réttlæta bandaríska þátttöku í vernd skipalesta á Atlantshafi.

Í upphafi skipaði Ísland engan sérstakan sess í varnaráætlunum Bandaríkjanna. Í hermálaráðuneytinu ríkti jafnvel andstaða gegn bandarískri hersetu hér. Það breyttist hins vegar hratt með eflingu norðurflugleiðarinnar yfir Atlantshafið. Þá hurfu allar efasemdir um hernaðarlegt gildi Íslands í augum bandarískra yfirvalda.

Árið 1943 mótaði bandaríska yfirherráðið áætlun um framtíðarherstöðvar eftir stríð. Gert var ráð fyrir nýju alþjóðlegu öryggiskerfi þar sem stórveldin fjögur skiptu með sér ábyrgð á friði og reglu í heiminum. Bandaríkjunum var ætlað að hafa yfirumsjón með vesturálfu og Kyrrahafssvæðinu og starfrækja þar víðtækt flugstöðvakerfi. Ísland var skilgreint sem hluti ytra varnarsvæðis vesturálfu, þar sem gert var ráð fyrir herstöðvum Bandaríkjanna í samstarfi við önnur ríki.

Í árslok 1943 höfðu Roosevelt, yfirherráðið og áhrifamiklir þingmenn í Washington komist að þeirri niðurstöðu að Bandaríkin þyrftu að hafa herstöðvar á Íslandi eftir stríð. Í utanríkisráðuneytinu var talið æskilegast að Bandaríkin tækju að sér varnir Íslands „að eilífu“. Varnarsamningurinn „skyldi grundvallaður á Monroe-kenningunni og með honum gerðist Ísland „tuttugasta og annað ameríkulýðveldið“. Stefnudrög ráðuneytisins breyttust í tímans rás, en kjarninn reyndist langær: Ísland skyldi í framtíðinni teljast á bandarísku hagsmunasvæði,“ sagði Þór.

Download-kortKort af Vísindavef HÍ.

Þessi stefna birtist með skýrum hætti haustið 1945 þegar Bandaríkjastjórn fór fram á herstöðvar til langs tíma í Reykjavík, Hvalfirði og Keflavík. Bandarískir hermenn væru utan íslenskra laga og réttarkerfis. Íslenska ríkisstjórnin, undir forsæti Ólafs Thors, formanns Sjálfstæðisflokksins, hafnaði kröfunni.

Árið eftir gerði Ólafur Thors Keflavíkursamninginn. Þá var herverndarsamningurinn frá 1941 felldur úr gildi, Keflavíkurflugvöllur afhentur Íslendingum til fullrar eignar og yfirráða og bandaríski herinn fór af landi brott. Hann sneri síðan aftur árið 1951 á grundvelli tvíhliða varnarsamnings sem enn er í gildi, þótt Bandaríkjaher hyrfi héðan árið 2006.

Reynslan sýnir að áhugi stórvelda á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum tekur mið af hernaðartækni. Fyrir rúmri hálfri öld lögðu sérfræðingar í Noregi og Kanada sig fram um að vekja athygli eigin stjórnmálamanna og annarra NATO-ríkja á vaxandi hernaðarumsvifum Sovétríkjanna á og frá Kólaskaganum. Þar hafði sovéski flotinn búið um sig og æfingar kafbáta, flugvéla og skipa bentu til aukinnar viðveru á Norður-Atlantshafi. Smátt og smátt varð GIUK-hliðið – varnarlínan frá Grænlandi um Ísland til Skotlands – lykilhugtak í varnaráætlunum NATO.

Eftir kalda stríðið má segja að norðurhvelið hafi horfið af strategískri og geópólitískri dagskrá. Árið 2006 var rússneski sjóherinn talinn ónýtur og rætt var um Rússland sem NATO-bandamann. Sú sýn hefur nú beðið skipbrot.

Mark Rutte segir að í NATO sé unnið að því að stórefla varnir á norðurslóðum og Grænlandi. Mark Carney forsætisráðherra Kanada áréttaði í margrómaðri Davos-ræðu nauðsyn þess að efla norðurslóðavarnir NATO.

Kanadamenn stæðu með NATO-bandamönnum sínum, þar á meðal ríkjum sem hann nefndi Nordic Baltic Gate (norræna Eystrasaltshliðið). Þeir styrktu nú norður- og vesturvæng bandalagsins með fordæmalausum fjárfestingum í ratsjám, kafbátum, flugvélum og hermönnum á jörðu niðri og á ísnum. Þetta er nýr tónn frá Kanada.

Herstjórn NATO á svæðinu sem Carney kallar þessu nafni er í Norfolk í Bandaríkjunum undir bandarískum flotaforingja sem einnig fer með yfirstjórn bandaríska Atlantshafsflotans. Í Pitiffuk (áður Thule) á Grænlandi er hins vegar bandarísk geimherstöð, hluti bandaríska gagneldflaugakerfisins. Þar hafa um 200 manns það hlutverk að veita tímanlega viðvörun verði gerð eldflaugaárás yfir pólinn á Bandaríkin.

Norðurflugleiðin yfir Atlantshaf varð til þess árið 1943 að æðstu stjórnendur Bandaríkjanna sannfærðust um nauðsyn aðstöðu „til eilífðar“ á Íslandi en fengu ekki og þurftu ekki til að tryggja samstöðu með Íslendingum sem síðan var staðfest með NATO-aðild ríkjanna 1949. Nú reynir á hvort ekki finnist farsæl lausn milli bandamanna varðandi bandaríska aðstöðu á Grænlandi.

Hertæknin breytist en landafræðin er óbreytt er svarið við upphafsspurningunni. Því höfum við Íslendingar kynnst.